Fyrsti kossinn í Þjóðleikhúsið
Sýning Leikfélags Keflavíkur, „Fyrsti kossinn“, hefur verið valin athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins og verður sett upp á fjölum Þjóðleikhússins. Verkið er eftir þau Brynju Ýr Júlíusdóttur og Guðlaug Ómar Guðmundsson. Valið var tilkynnt á hátíðarkvöldverði á aðalfundi Bandalags íslenskra leikfélaga sem haldinn var í Reykjanesbæ um liðna helgi. Björn Ingi Hilmarsson úr dómnefnd Þjóðleikhússins mætti og tilkynnti valið.
Sýningin var sett upp í Frumleikhúsinu í vetur og sló sýningamet. Leikfélag Keflavíkur segir heiðurinn mikinn en þetta er í þriðja sinn sem Leikfélag Keflavíkur fer með sýningu á svið Þjóðleikhússins.
„Þetta er auðvitað mikil viðurkenning fyrir öflugt starf félagsins og þeirra sem að sýningunni standa en framundan eru æfingar og svo verða að öllum líkindum tvær til þrjár sýningar í byrjun júní sem auðvitað verða auglýstar sérstaklega,“ segir Guðný Kristjánsdóttir hjá Leikfélagi Keflavíkur í samtali við Víkurfréttir.