Fyrsta verkefnið var Ljósanótt
Valgerður Guðmundsdóttir hefur haldið utan um Ljósanótt af röggsemi frá upphafi ásamt góðu samstarfsfólki sínu eða frá árinu 2000. Hún er fylgin sér og mikil áhugamanneskja um listir og menningu sem hjálpaði henni þegar Ellert bæjarstjóri réði hana í nýtt starf menningarfulltrúa Reykjanesbæjar 1.september árið 2000. Þá fékk hann henni áætlun í hendur með yfirskriftinni Ljósanótt og sagði henni að þetta yrði fyrsta verkefnið hennar.
Byrjaðu!
„Á fyrsta fundi okkar Ellerts bæjarstjóra afhenti hann mér tvö plögg, annað var áætlun um Ljósanótt og hitt áætlun um uppbyggingu Duushúsa. Hann sagði að þetta yrðu fyrstu verkefnin mín. Ég hafði sótt um stöðu menningarfulltrúa Reykjanesbæjar og fékk stöðuna. Mæti svo í vinnu 1. september, á föstudegi en Ljósanótt var daginn eftir og hafði aldrei verið haldin áður. Steinþór Jónsson og fleiri voru auðvitað búnir að plana þessa fyrstu hátíð og hlutverk mitt þá var bara að fylgjast með. Ég fékk tölvu og skrifborð í einu horni á Hafnargötu 57. Svo sagði Ellert bara; „Byrjaðu!“ Þetta var skemmtileg byrjun og ég fann alltaf fyrir miklum stuðningi við þær hugmyndir sem ég kom með og jafnframt frelsi. Prívat og persónulega hafði ég alltaf haft áhuga á menningu og listum. Ég var til dæmis ung í myndlistarskóla og reyndi að læra á píanó sem fullorðin. Þess vegna voru það mikil forréttindi fyrir mig að fá að starfa við áhugamálið mitt sem hefur verið alveg ofboðslega skemmtilegt,“ segir Valgerður sem flutti til Suðurnesja á áttunda áratugnum ásamt eiginmanni, Hjálmari Árnasyni og börnum.
Þótti góður íslenskukennari
„Ég var íslenskukennari á unglingastigi í mörg ár og þótti það mjög gaman. Þegar fyrsta skólaselið var opnað í Reykjanesbæ þá stýrði ég því starfi í fjögur ár og var með ákveðnar hugmyndir um að þetta væri ekki geymslustaður fyrir börn eftir skóla heldur uppbyggilegur staður með ákveðnu prógrammi og heitum mat. Það blundar sennilega í mér svolítill frumkvöðull, mér finnst gaman að ryðja brautina, skapa eitthvað nýtt og þess vegna hefur þetta menningarfulltrúastarf hentað mér í öll þessi ár en nú er ég að hætta og vil leyfa öðrum að taka við keflinu,“ segir Valgerður.
Bæjarhátíð sem sló í gegn
Ljósanótt átti að vera einn einstakur viðburður á því ári sem hátíðin fór fram í fyrsta sinn, árið 2000, en hefur haldið áfram að vaxa nær endalaust með ótrúlega fjölbreyttum viðburðum. Ljósanótt laðar þúsundir gesta til Reykjanesbæjar á hverju ári, fyrstu helgina í september.
„Ég reyndi að hafa áhrif á mótun hátíðannar í þá átt að hún yrði öðruvísi en venjulegar bæjarhátíðir með örlítið meiri menningaráherslu. Ég hef kannski stundum þótt dálítið einráð en það sem hefur bjargað mér er að ég hef alltaf starfað með besta fólkinu á hverjum tíma. Ég hef haft ákveðnar skoðanir á þessum málum og ekkert leynt skoðunum mínum. Í dag eru menningarmál Reykjanesbæjar í góðum farvegi og framtíðin er björt. Guðlaug María Lewis hefur verið mín hægri hönd í langan tíma og ég treysti henni fyrir kyndlinum! Samstarfsfólk mitt hefur komið víða að, frá öllum sviðum bæjarfélagsins, menningarhópunum í bænum og pólitískum fulltrúum til dæmis úr menningarráði bæjarins. Ég hef meðal annars unnið með þremur bæjarstjórum og fengið góðan stuðning frá þeim öllum. Það hefur verið valinn maður í hverju rúmi,“ segir Valgerður sem hefur að mati blaðamanns unnið frábært verk á sviði menningarmála í bæjarfélaginu og staðið fyrir blómlegu menningarlífi með fullt af góðu fólki. Eða eins og hún segir sjálf frá;
Menning laðar fólk að
„Við höfum viljað skapa líf í bæjarfélaginu með allskonar viðburðum, ekki bara á Ljósanótt. Menningarmál eru einnig atvinnumál. Þau geta gefið af sér arð. Kvikmyndir og bækur eru partur af menningu. Samfélag okkar á að njóta menningar og margt af því fólki sem flytur hingað vill búa hér út af líflegu menningarlífi. Við viljum að svoleiðis fólk velji að búa hér. Menning er eitt af því sem laðar íbúa út úr húsi. Við höfum unnið ötullega að því að koma Duus safnahúsum í stand svo hægt væri að nýta húsnæðið í menningarlegum tilgangi fyrir alla bæjarbúa. Það er búið að endurbyggja þessi gömlu sögufrægu hús bæjarins sem hýsa alls konar sýningar og viðburði í dag. Ég vissi að það væri áríðandi að koma meðal annars á fót góðri sýningaraðstöðu og það hefur okkur tekist. Listasafnið og byggðasafnið hafa bæði sýningaraðstöðu í Duus og þetta skapar líf í bæjarfélaginu, skapar menningu. Í dag nýtum við húsnæði Duus safnahúsa einnig sem upplýsingastofu ferðamála og þar er líka sýning um jarðvanginn á Reykjanesi. Safnið er opið alla daga vikunnar og margir sem leggja leið sína þangað. Það skiptir máli að söfn séu opin svo fólk eigi aðgang þegar þeim hentar. Við tökum á móti alls konar hópum, skólahópum, fyrirtækjum svo eitthvað sé nefnt. Við erum að hugsa til íbúanna okkar og erum í samstarfi um margs konar viðburði við stofnanir bæjarins. Listahátíð barna er viðburður sem fram fer á hverju ári og hefur gert í mörg ár en það er samstarf við leikskóla,“ segir Valgerður og maður finnur að þótt þessi kona sé að hætta störfum þá virðist hún enn brenna fyrir því. Enda segist hún kveðja sátt.
Ánægð með árangurinn
„Ég fer sátt frá þessu starfi og er ánægð með þróunina. Ég er mjög ánægð með Duus safnahús sem er fjölbreytt menningarmiðstöð í dag. Við vildum vekja áhuga almennings á listum, tónlist, myndlist og í hverju því formi sem hún birtist og það tókst. Það er ekki rétt að hér í bæ hafi ekki alltaf verið bullandi menning því hér hefur alltaf verið mikið tónlistarlíf og kórastarf, lifandi leikfélag í áratugi, myndlistarfélög, skáld og rithöfundar svo ekki sé minnst á Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Hlutverk mitt var að reyna að gera þetta sýnilegra en verið hafði og þá sérstaklega út í frá. Það var samt ekki hefð fyrir listasafni í bæjarfélaginu og ég er mjög stolt af Listasafni Reykjanesbæjar, þar hefur tekist mjög vel til og frábært starf verið unnið. Við höfum haldið flottar sýningar sem vakið hafa mikla athygli á landsvísu. Listasafnið varð tuttugu ára í fyrra og þá var hundraðasta sýningin haldin. Margt annað hefur verið á minni könnu og má þar nefna hefðbundin hátíðarhöld eins og 17. júní en einnig hafa komið til nýir viðburðir eins og List án landamæra, Listahátíð barna og Safnahelgi á Suðurnesjum og þar hafa komið inn ferskir vindar með nýju ungu samstarfsfólki. Í starfi mínu er ég ekki eingöngu að skipuleggja viðburði heldur þarf ég einnig að fjármagna þá, útbúa fjárhagsáætlun og sækja um styrki í einhverjum tilfellum eins til dæmis fyrir þær fornleifarannsóknir sem farið hafa fram í Höfnum og hér á Keflavíkurtúninu,“ segir Valgerður og svarar forvitnum blaðamanni sem langar að vita hvað hefur fundist í þessum fornleifarannsóknum.
Gömul verstöð í Höfnum
„Fornleifagröftur í bæjarfélaginu hefur einnnig tilheyrt starfi mínu. Í Höfnum komust fornleifafræðingar að því að þar hafi verið einhvers konar búseta fyrir landnám, verstöð þar sem hvíta gullið rak á land en svo nefndust tennur úr rostungi. Það lítur út fyrir að fiskveiðar, selveiðar og rostungsveiðar hafi farið fram í Höfnum. Þessari rannsókn eru gerð skil uppi á lofti í Bryggjuhúsinu á góðri sýningu Byggðasafns Reykjanesbæjar og í Víkingaheimum. Á Keflavíkurtúninu hér fyrir framan Duus safnahúsin sjá fornleifafræðingar að þar hafi verið bær að minnsta kosti frá því snemma á 18. öld en þeir hafa ekki komist dýpra vegna fjárskorts. Það þarf að sækja um fleiri styrki fyrir fornleifaverkefnið svo þeir geti grafið dýpra.“
Frábær Ljósanótt í ár
Ljósanótt á tuttugu ára afmæli í ár. Á þessum árum hefur bærinn breyst mikið og íbúum fjölgað svo um munar. Íbúar af erlendum uppruna eru 25% af heildarfjölda bæjarins og mun hátíðin bera keim af því í þetta sinn.
„Komandi Ljósanótt verður sú allra besta hingað til. Það er svo margt fólk sem sækir viðburði Ljósanætur. Bæjarhátíðin okkar hefur alltaf verið öðruvísi en aðrar hátíðir landsins vegna menningarlegrar áherslu og bæjarbúar koma þar sterkir inn með eigin sýningar, tónleika og aðra viðburði. Nú er bærinn orðinn mjög blandaður og því viljum við tengja alla þessa ólíku hópa saman, menning og menningarviðburðir geta hjálpað okkur til þess. Það er hvorki til lágmenning né hámenning, allt hið jákvæða sem manneskjan skapar er menning. Við viljum nálgast betur þá útlendinga sem hafa valið að búa hér hjá okkur. Á Ljósanótt verður til dæmis stórkostleg pólsk listsýning í listasafninu og þar gefst okkur kostur á að sjá fyrsta flokks listsköpun frá heimalandi nýju íbúanna um leið og þeir geta stoltir sýnt okkur það besta úr menningu þeirra. Við viljum á þessari Ljósanótt leggja áherslu á að tengja fólk og vekja forvitni ólíkra þjóða hver fyrir annarri,“ segir Valgerður með áherslu.
Hið ljúfa líf
Bæði Valgerður og Hjálmar eru að hætta störfum á næstunni. Hvernig verður það, eiga þau eftir að sakna vinnunnar?
„Ég er rosalega spennt fyrir því að hætta að vinna. Heimurinn liggur fyrir fótum okkar og við ætlum að fara að ferðast og spila golf. Við erum bæði spennt að byrja nýtt líf. Barnabörnin okkar eru inn frá og nú fáum við fleiri stundir með þeim en krakkarnir okkar eru allir fluttir frá Reykjanesbæ. Við Hjálmar höfum fengið að njóta okkar mjög vel hér, svæðið hefur fóstrað okkur svo vel. Ég er búin að hafa mikla ánægju af þessu starfi mínu og nú finnst mér allt í lagi að einhver annar taki við. Ég er búin að vera að ráðsmennskast í þessum menningarmálum í tuttugu ár og nú kemur nýtt fólk með nýjar hugmyndir og spennandi að sjá hvað gerist. Bærinn er okkur kær og við munum fylgjast með. Ég kem að minnsta kosti á sýningar og á tónleika. En nú ætlum við að skoða heiminn. Við erum að klára þennan kafla í lífi okkar og opna fyrir nýtt,“ segir Valgerður og augu hennar ljóma af eftirvæntingu.
Valgerður í stiganum í Gömlu búð sem þar hún hefur haft skrifstofuaðstöðu síðastliðið ár. VF-myndir/MartaEiríksdóttir.