Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fyrsta útihátíðin í Húsafelli eftirminnilegust
Föstudagur 3. ágúst 2018 kl. 06:00

Fyrsta útihátíðin í Húsafelli eftirminnilegust

- Verslunarmannahelgarspurningar Víkurfrétta

Ólafur Þór Ólafsson

Hvað ætlar þú að gera um verslunarmannahelgina?
Það er bara ekki alveg ákveðið í þetta skiptið. Mér finnst þó líklegt að það verði eitthvað kíkt í til tengdaforeldranna í kotið þeirra í Úthlíð og svo kemur bara í ljós hvort það verði farið eitthvað víðar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ertu vanaföst/fastur um verslunarmannahelgina eða breytir þú reglulega til?
Það er ekki mikið um hefðir eða venjur hjá mér um verslunarmannahelgina. Það er kannski helst að ég er ekki mikið að stressa mig í kringum hana. Ég er t.d. mjög sjaldan að spila einhvers staðar þessa helgi sem er nú frekar óvanalegt fyrir íslenskan tónlistarmann. Það er mjög gaman að kíkja eitthvað þessa helgi en svo getur líka verið ákaflega huggulegt að vera bara heima í rólegheitum í tómum bæ.

Hver er eftirminnilegasta verslunarmannahelgin til þessa? Af hverju?
Það hefur nú ýmislegt skemmtilegt og eftirminnilegt gerst um verslunarmannahelgina og kannski ekki alveg hægt að hafa það allt eftir í virðulegu blaði eins og Víkurféttum. Ætli fyrsta útihátíðin í Húsafelli 1987 sé nú ekki samt eftirminnilegust þegar maður upplifði þessa einstöku stemningu sem fylgir verslunarmannahelginni í fyrsta skipti.

Hvað er nauðsynlegt að þínu mati um verslunarmannahelgina?
Gott skap, lífsgleði, góður félagsskapur og svo verður gítar að vera einhvers staðar nálægt til að grípa í. Að vera með fólkinu sínu er auðvitað best, allt annað er í raun aukaatriði.

Hvað ertu búinn að gera í sumar?
Þetta sumar hefur að miklu leyti farið í alls konar stúss í kringum fyrstu skref nýs sveitarfélags. Það hefur varla liðið sá dagur að ég hafi ekki þurft að fara á fund eða sinna einhverjum verkefnum í tengslum við sveitarfélagið þannig að það hefur svo sem ekki verið mikið sumarfrí þannig lagað. Síðan er ég búinn að vera að stússa í húsinu mínu sem ég eignaðist í byrjun árs og svo auðvitað eitthvað að spila bæði með Föruneytinu og 3/4. Ég skrapp reyndar til Brighton í nokkra daga með betri helmingnum og tengdó sem var yndislegt og tek svo nokkra daga á Vestfjörðum fyrir lok sumars eins og ég reyni að gera á hverju ári.

Hvað er planið eftir sumarið?
Halda áfram að hafa gaman af lífinu og vera hraustur og glaður. Ef það tekst þá verður allt annað svo mikið auðveldara sama hvort það er í kennslu, pólitík, tónlist eða hvað svo sem maður er að fást við. Mig mun í það minnsta ekki vanta verkefnin.