Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fyrsta sýning ársins í Listasafni Reykjanesbæjar
Mánudagur 2. febrúar 2004 kl. 15:31

Fyrsta sýning ársins í Listasafni Reykjanesbæjar

Laugardaginn 7. febrúar kl. 15.00 verður opnuð í sýningarsal Listasafns Reykjanesbæjar í Duushúsum sýning á verkum portúgalska málarans Carlosar Barão.  Um er að ræða verk unnin með blandaðri tækni á striga. 
Carlos er fæddur í Lissabon árið 1964.  Hann nam myndlist við Nova University í Lissabon og vann lengi sem skapandi hönnuður við auglýsingastofur.  Hann er einnig menntaður í sálfræði og e.t.v. má sjá áhrif þess í viðfangsefnum listamannsins. 
Í sýningarskrá segir Margarida Salet listsagnfræðingur m.a.: ”Í verkum sínum sækist  Carlos Barão eftir því að ná til tilfinninga áhorfandans. Viðfangsefni hans er að kljúfa niður þá heima sem við hrærumst í og smækka tilveru okkar. Efniviðurinn er minningarnar, staður þar sem táknin og þeir hlutir sem snerta hinn innri mann líða ósjálfrátt og stjórnlaust fyrir augum.” 

Frá árinu 2000 hefur Carlos sýnt víða í heimalandi sínu og einnig á Ítalíu, Brasilíu og Spáni.  Þetta er fyrsta eiginlega einkasýning Carlosar á Íslandi en sjá mátti eitt verka hans við opnun Saltfisksetursins í Grindavík árið 2002.

Sýningin er opin alla daga frá  kl. 13:00 – 17:00 og stendur til 14. mars.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024