Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fyrsta stefnumótið með eiginmanninum var besta ákvörðunin
Föstudagur 21. október 2016 kl. 06:00

Fyrsta stefnumótið með eiginmanninum var besta ákvörðunin

- Silja Dögg Gunnarsdóttir, Reykjanesbæ, 2. sæti á lista Framsóknar

Hvers vegna ákvaðst þú að fara í framboð?
Ég fór í framboð til Alþingis 2013 vegna þess að ég hef kjark til að berjast fyrir því sem ég trúi á og úthald. Ég var sannfærð um að skuldaleiðrétting heimilanna væri sanngirnismál. Framsóknarflokkurinn barðist gegn Icesave og var  andsnúinn inngöngu Íslands í ESB. Ég var mjög sammála þeim málflutningi. Ég er fædd og uppalin á Suðurnesjum og þekki það svæði því mjög vel. Ég starfaði um tíma sem blaðamaður á Víkurfréttum og kynntist samfélaginu þá enn betur. Þannig að það varð úr, ég gaf kost á mér og sé ekki eftir því. Starfið á vel við mig, ég hef náð að koma nokkrum málum áleiðis á kjörtímabilinu og því ákvað ég að gefa kost á mér aftur þar sem ég tel að ég komi að einhverju gagni. Ég vona bara að Suðurnesjamenn hafi trú á mér í verkefnið og merki X við B.

Hvað vilt þú sjá gerast á Suðurnesjum á næsta kjörtímabili?
Allt snýst þetta um peninga, þannig að ég vil að við náum að tryggja aukið fjármagn til reksturs HSS. Ég vil sjá samgöngubætur, þá á ég við Reykjanesbraut, hafnirnar á Suðurnesjum sem og Grindavíkurveg. Að lokum vil ég nefna fjölgun hjúkrunarrýma á Suðurnesjum, að þau komist framar á áætlanir.

Hverja telur þú möguleika þíns framboðslista í kjördæminu í kosningunum í lok mánaðarins?
Það er erfitt að segja. Nýjustu kannanir benda til að Framsóknarflokkurinn í Suðurkjördæmi sé með ríflega 23% fylgi og nái þremur þingmönnum. Þannig að ég tel eðlilegt að við miðum baráttuna við að bæta í og ná fjórum mönnum inn. Við erum með afar vel mannaðan lista og góða landfræðilega dreifingu. Forsætisráðherrann leiðir okkar lista og auk mín eru Ásgerður Kristín Gylfadóttir, hjúkrunarstjóri á Hornafirði í 3. sæti en hún er fyrrverandi bæjarstjóri á Höfn og situr nú í sveitarstjórn þar. Hún þekkir því vel til heilbrigðismála og sveitastjórnarmála. Í fjórða sæti er ungur sauðafjár- og ferðaþjónustubóndi, Einar Freyr Elínarson úr Mýrdal, en hann er einnig formaður Ungra bænda.

Hvað færð þú þér oftast í morgunmat?
Alltaf kaffi með smá mjólk. Oftast Cheerios og af og til Trópí appelsínusafa, ískaldan með aldinkjöti. Það er toppurinn.

Hvar lætur þú klippa þig?
Hjá henni Evu á Háráttu. Hún er frábær.

Uppáhalds útvarpsmaður?
Óðinn Jónsson og Vera Illugadóttir. Þau eru svo fróð og með fallegar raddir.

Hver væri titill ævisögu þinnar?
Út í óvissuna.

Innanlandsflug til Keflavíkurflugvallar?
Já, að lokum. Hvassahraun er tóm vitleysa.

Fallegasti staður á Suðurnesjum?
Þar sem húsið mitt stendur, efst í Innri Njarðvík, uppi á klettum, við sjóinn. Þar sæki ég mína næringu. Þar hef ég allt; sjóinn, fuglana og fjöllin í fjarska. Og síðast en ekki síst, útsýnið yfir í Ytri Njarðvík.

Hver er besta ákvörðun sem þú hefur tekið?
Að fara á fyrsta stefnumótið með manninum mínum.

Hvað er það neyðarlegasta sem þú hefur lent í?
Ég er sem betur fer fljót að gleyma… Ég er alltaf að heilsa fólki sem ég þekki ekki, eða heilsa ekki þeim sem ég þekki. Datt reyndar einu sinni á rassinn fyrir framan Vallabakarí þegar ég var um 14 ára gömul. Rennblotnaði og þótti það að sjálfsögðu „mjög“ neyðarlegt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Dagblað eða net á morgnana?
Netið. Þrjóskaðist lengi vel með blöðin, þykir þau reyndar ennþá notalegri en tölvan. Það er eitthvað við pappírinn, önnur stemming. En þeim fylgir svo mikið rusl þannig að netið verður oftar fyrir valinu í dag.

Sameinuð sveitarfélög á Suðurnesjum eða áfram eins og nú?
Sameinuð. Veit reyndar ekki hversu mörg ár eða áratugi það mun taka, en það gerist að lokum. Þangað til, góð samvinna.