Fyrsta alvöru fríblaðið
„Þegar ég hugsa til baka varðandi árið sem er að líða, kemst ég ekki hjá því að fara einu ári lengra, því á árinu 2009 voru flestir jafnaldrar mínir heimsóttir stuttu eftir afmælisdaginn og þeim boðið að ganga í Félag eldri borgara. Sem betur fer, þá annað hvort fundu þau mig ekki, eða eitthvað annað varð til þess að ég var aldrei heimsóttur í þessum tilgangi. Ástæða þess að ég rifja þetta upp, er að þegar kreppan skall á varð ég fyrir miklu fjárhagslegu tjóni sem ég hef ekki náð að vinna mig úr ennþá og kemur þar til aldurinn. Þó fáir trúi því, þá er ég orðinn sextugur og einu ári betur og þegar fólk nær þeim aldri er nánast vonlaust að fá atvinnu. Sjálfum finnst mér ég þó ekki vera gamall! Ég hef því reynt að grípa til kunnáttu minnar og er einmitt þessar vikurnar að gera tilraun til að fóta mig á ný í því starfi sem ég var hvað sáttastur við um æfina, enda verið með puttana þar í rúm 30 ár. Ég hóf fréttamennsku sem fréttaritari Útvarpsins áður en ég fór í Víkurfréttadæmið,“ segir Emil Páll Jónsson, sem hóf störf sem blaðamaður á Víkurfréttum 1980 og varð síðar fréttastjóri og annar ritstjóri frá 1983 til 1993.
„Ekki ætla ég að rifja mikið upp frá Víkurfréttadæminu, en þaðan á ég margar skemmtilegar frásagnir, sem kannski gefst síðar tækifæri á að segja nánar frá. Þó verð ég að grobba mig af því að hafa ásamt Páli Ketilssyni verið einn af frumkvöðlum þess að hefja útgáfu á miklu fréttablaði sem dreift var frítt inn á öll heimili á Suðurnesjum. Þó Fréttablaðið segist vera fyrsta fría blaðið í dag, er það rangt. Fyrsta fría blaðið var blað í Vestmannaeyjum en við vorum þeir fyrstu með svona öflugt blað. Blaðið lifði á auglýsingum, en málið var að dreifa því frítt inn á öll heimili. Ég man að á þeim dögum var mamma sáluga alltaf að segja mér að fólkið væri mikið að spyrja hana, hvað ég væri að gera og hún svaraði: ,,Nú hann er hjá Víkurfréttum“. Þá kom yfirleitt í framhaldi af því frá fólkinu; ,,Við vitum það en hvað gerir hann? Hvernig lifir hann á að vinna við ókeypis blað, einhvers staðar er hann að vinna?“ Já gamla fólkið átti erfitt á þeim tíma, með að fatta að blaðið hefði sínar tekjur af auglýsingasölu.
Já, margt fleira gæti ég sagt en læt þetta vera lokaorð mín og óska blaðinu sem ég tók þátt í frá upphafi, því ég átti líka þátt í blaðinu með skrifum, áður en Víkurfréttir urðu okkar Páls, til hamingju með árin þrjátíu“ segir Emil Páll Jónsson, fyrrum fréttastjóri og ritstjóri.