Fyrirmyndarfélag suður með sjó
Krabbameinsfélag Suðurnesja er með öfluga starfsemi á Suðurnesjum
Krabbameinsfélag Suðurnesja er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélags Íslands og var stofnað fyrir 65 árum af Rótarýklúbbi Keflavíkur sem alla tíð síðan hefur verið bakhjarl og verndari félagsins á Suðurnesjum. Krabbameinsfélag Suðurnesja hefur alltaf starfað algjörlega sjálfstætt, formaður þess frá 2009–2018 var Guðmundur Björnsson en á aðalfundi síðastliðið vor tók Hannes Friðriksson við formennsku.
Víkurfréttir hittu núverandi og fyrrverandi formann Krabbameinsfélags Suðurnesja og inntu þá eftir starfsemi félagsins.
„Hvers konar fyrirmyndarfélag eruð þið með þarna suðurfrá höfum við oft fengið að heyra innan að, frá Krabbameinsfélagi Íslands vegna góðs reksturs félagsins hér. Rótarýklúbbur Keflavíkur hefur verið bakhjarl og aðalstuðningsaðili félagsins en það hefur einnig skipt sköpum. Rótarý stendur fyrir mannúðar- og menningarstarfi og hvetur til góðvildar og friðar í heiminum. Að veita aðstoð krabbameinssjúkum og fjölskyldum er því tvinnað í sömu átt,“ segir Guðmundur Björnsson.
„Við erum með reynslumikið fólk í stjórn og höfum bætt við huglægri þjónustu. Það getur oft verið svo mikil andleg þjáning hjá krabbameinssjúkum og aðstandendum þeirra. Eftirmeðferð og lyfjakostnaður getur verið dýr ef fólk er ekki tryggt. Þá býðst þeim einnig aðstoð í formi nuddtíma en krabbameinssjúkir geta sótt um styrki hjá okkur. Við erum með söfnunarátak tvisvar á ári sem kallast Mottumars og Bleika slaufan sem krabbameinsfélög hafa haft frumkvæði að því að búa til samstöðu en kirkjan hefur komið inn í hér suðurfrá. Út úr þessu söfnunarátaki hefur Krabbameinsfélagið ásamt fleiri góðgerðarfélögum getað t.d. safnað fyrir ómtæki sem var afhent á aðventu til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Það verður mikil lyftistöng fyrir þá sem þurfa á þessari tækni að halda en gamla tækið var orðið frekar úrelt eða eins og svarti gamli síminn er fyrir okkur,“ segir Hannes Friðriksson.
Sigurður Wium hefur verið dyggur stuðningsmaður Krabbameinsfélags Suðurnesja.
Stuðningur á Suðurnesjum
„Krabbameinsfélagið byggir á gömlum merg. Við viljum opna möguleika okkar á að styðja fólk enn frekar en fjárhagsaðstoðin er öll hér á Suðurnesjum. Féð sem við höfum til umráða snýst um að láta af hendi rakna til krabbameinssjúkra og aðstandenda þeirra á meðan á veikindum stendur. Þegar um er að ræða veikan aðila í fjölskyldunni þá geta útgjöldin orðið há. Það þarf mikið að kaupa af meðulum, jafnvel ferðir til útlanda í meðferð á sjúkrastofnun erlendis. Þetta getur einnig bitnað á aðstandendum í formi vinnutaps hjá þeim en ekki bara hjá þeim sem er veikur,“ segir Hannes og Guðmundur bætir við:
„Félagið nýtur gríðarlega mikillar velvildar í samfélaginu. Einu föstu tekjurnar koma inn í formi félagsgjalda frá félagsmönnum okkar sem eru um 900 talsins hér á Suðurnesjum en þetta er eitt stærsta aðildarfélag á landinu. Það kostar aðeins 3000 krónur á ári að vera meðlimur í félaginu og allir einstaklingar geta skráð sig. Við finnum það að fólki þykir vænt um eigin heimabyggð og vill styðja félagið. Svo er ég mjög ánægður með nýja formann félagsins, Hannes Friðriksson, en hann er einstaklega drífandi og duglegur formaður.“
Starfsfólk á skrifstofu Krabbameinsfélags Suðurnesja tekur hlýlega á móti þeim sem þurfa á stuðningi eða frekari upplýsingum að halda. Þarna er reynslumikið fólk að störfum segja þeir Hannes og Guðmundur.
„Það getur oft verið svo mikil andleg þjáning hjá krabbameinssjúkum og aðstandendum þeirra. Eftirmeðferð og lyfjakostnaður getur verið dýr“
Krabbameinsfélag Suðurnesja er í húsi Rauða krossins að Smiðjuvöllum 8, Reykjanesbæ. Sigríður Erlingsdóttir er framkvæmdastjóri á skrifstofu félagsins. Opið er á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 12–16. Síminn er 421 6363 netfang [email protected]