„Fyrir hann reyni ég að vera besta útgáfan af sjálfri mér“
-Sylvía Gísladóttir Gerstenberger býr í Boise í Bandaríkjunum með fjölskyldunni sinni
„Það að búa úti hefur verið yndislegt en að sjálfsögðu ótrúlega krefjandi,“ segir Keflvíkingurinn Sylvía Gísladóttir Gerstenberger, en hún er búsett í Bandaríkjunum ásamt manni sínum, Zach Gerstenberger, og syni þeirra, Sebastian. Þessa dagana snýst líf þeirra mæðgina um það að njóta lífsins með hvoru öðru og leika sér í góða veðrinu á meðan Zach klárar herskylduna sína sem lýkur árið 2019.
„Ég hef þurft að læra svolítið á lífið sem kona hermanns, en við erum alls ekki vön því á Íslandi. Ég flutti til Englands í júní 2015 og bjó þar í tvö ár eða fram í ágúst 2017. Þá lauk herskyldunni hans Zach í Englandi en hann þurfti að klára síðustu tvö árin af skyldunni í Bandaríkjunum og þá komu tveir staðir til greina, North Carolina og Idaho. Við erum virkilega þakklát að hafa fengið úthlutað í Idaho þar sem fjölskylda Zach er í klukkutíma að fljúga til okkar og Idaho er mjög fjölskylduvænn og öruggur staður til að búa á með börn, glæpatíðnin er lág miðað við aðra staði í Bandaríkjunum. Við erum ný flutt til Boise, Idaho þar sem við keyptum okkur hús og líður vel.“
Fjölskyldan við Rocky Mountain í Colorado 2016. Sebastian kúrir í fanginu á pabba sínum.
Magnað að vera móðir
Sebastian kom í heiminn fyrir átján mánuðum síðan, en Sylvía segir að það að vera móðir sé það besta sem hafi komið fyrir hana. „Það er ekkert sem kemst í líkingu við þá tilfinningu og það er varla hægt að koma því í orð. Það er svo magnað hvað ein lítil manneskja getur breytt lífi þínu,“ segir hún og bætir því við að á slæmum degi þurfi ekki meira til að gleðja hana en bros frá honum. „Á hverjum degi þroskumst við saman. Fyrir hann reyni ég að vera besta útgáfan af sjálfri mér.“
Sebastian Noah sýnir hversu gamall hann er.
Ísland verður mögulega fyrir valinu
Þegar samningi Zach í hernum lýkur árið 2019 eru allar dyr opnar fyrir fjölskylduna. „Hann langar mikið að flytja til Íslands og ég er byrjuð að hallast að því sjálf. Ég er ótrúlega þakklát fyrir að hann vilji það þó enginn af vinum hans skilji að hann vilji flytja til Íslands. Hann er í fullu háskólanámi með vinnunni og verður búinn með háskólann 2019. Ég verð vonandi hálfnuð með háskólann sjálf á þeim tíma og þá kemur bara í ljós hvar við endum, Ísland er stór möguleiki.“
Ballerínu-kex gerði daginn
Bandaríkin eru mjög ólík Íslandi að sögn Sylvíu, allt frá matnum, hitastiginu og fólkinu sjálfu. „Fólkið hér er ótrúlega almennilegt, ég hef aldrei lent í því að labba út götuna mína án þess að vera heilsað. Oftast kallar fólk á mann eða stoppar og spjallar. Á Íslandi fór maður út í búð og fólk sem þekkti mann forðaðist að heilsa.“ Hún segir þó að Ísland hafi margt fram yfir önnur lönd, þrátt fyrir kalda veðrið. „Ég þekki íslenska konu sem býr hér í Idaho. Það er æðislegt að vita af Íslendingi hérna og hún hefur gefið mér alls konar ráð. Hún sagði mér til dæmis að ég gæti keypt ballerínu-kex í búð hérna stutt frá og það algjörlega gerði daginn minn, ef ekki vikuna, þar sem það er lang uppáhalds kexið mitt.“
Sveinki setur líka í skóinn í Ameríku
Á jólunum leitar hugur Sylvíu heim, en hana langar í flatkökur, laufabrauð, lakkrístoppa og malt og appelsín, en aðallega saknar hún fjölskyldunnar og vinanna.
„Við ákváðum að halda jólin í ár heima í nýja húsinu okkar. Við erum bæði algjör jólabörn og skreyttum húsið í byrjun nóvember. Jólatréð er meira að segja komið upp. Við blöndum bandarísku og íslensku hefðunum saman og reynum að mynda nýjar jólahefðir á hverju ári.“ Fjölskylda Zach mun fljúga yfir til Boise og eyða jólunum hjá þeim. „Ég ætla að gera möndlugraut fyrir fjölskylduna hans þar sem þau hafa prófað þannig áður. Ég mun líka láta skó upp í glugga hjá Sebastian í desember þar sem Sveinki kíkir við, en það hefur ekki tíðkast í Bandaríkjunum.“ Zach æfir sig í íslenskunni og Sylvía spilar íslensk jólalög meðan hún bakar fyrir jólin. „Ég efa það ekki að hann muni syngja hástöfum með.“
Sebastian skreytir jólatréð í fyrsta skipti í nýja húsinu í Idaho.
Rákust utan í hvort annað og eru gift í dag
Sylvía og Zach kynntust á Íslandi þegar hún bjó þar. Zach var þá í vinnuferð á Íslandi og þau hittust eitt kvöldið rákust utan í hvort annað fyrir slysni. „Þessi saga er ótrúlega fyndin því hún sýnir hvað Ísland er lítið. Kvöldið eftir fór ég á kaffihús og sé hann þar með vinum sínum, en við segjum þó ekki neitt við hvort annað.“ Á þessum tíma starfaði Sylvía í Sporthúsinu á Ásbrú, en þar rákust þau á hvort annað alla daga eftir vinnu. „Þegar við stelpurnar fórum svo út á lífið sáum við þá. Vinur hans reif þá í mig og sagði að við Zach þyrftum nú að tala saman. Síðan þá var ekki aftur snúið.“ Þann 21. júlí 2015 giftu þau sig.
Feðgarnir Zach og Sebastian.
Sylvía mælir með því að fólk flytji erlendis ef það langi það. „Ef það gengur ekki upp getur þú alltaf sagt að þú hafir prófað það, í stað þess að sjá eftir því að hafa ekki slegið til. Ég er mjög ánægð með þessa ákvörðun. Núna hef ég búið á Íslandi, Englandi og í Bandaríkjunum og við getum bara metið kosti og galla og ákveðið hvar við viljum búa í framtíðinni þegar við loksins getum ráðið því sjálf.“