Fyllt hreindýra-carpaccio og léttreyktur lax
Hefð er komin fyrir því hér á síðum Víkurfrétta fyrir jólin að fá matreiðslumenn til að taka saman rétti sem geta átt heima á jólaborðinu og geta komið þangað inn sem nýir, ferskir og kannski sem óvæntir. Að þessu sinni hefur Guðjón Albertsson, matreiðslumaður á LAVA veitingahúsi við Bláa lónið tekið saman tvo rétti fyrir lesendur Víkurfrétta.
Léttreyktur lax með soðnum sætkartöflum, rófum, gulrótamauki og piparrótarsósu
Fyrir 5 manns.
300 g ferskur lax
1 hluti salt
1 hluti sykur
Örlítið picanta
Sítrónupipar
Laxinn er beinhreinsaður, skorinn í kubbabita, settur í pækilinn og látinn jafna sig. Laxinn er síðan skolaður, þerraður og léttreyktur (auðvelt er að reykja laxinn með því að kveikja í spæni á pönnu með loki í ca 4 mínútur eða með því að nota smoke gun sem nú fæst víða). Að lokum er laxinn grafinn med fínt skornu fersku dilli. Gott er að bera fram með ristuðu brauði.
Sætkartöflur og rófur
Sætkartöflurnar og rófurnar eru flysjaðar og skornar í teninga og soðnar í 15 mínútur í vatni með kryddjurtum t.d. salvíu, rósmarín, timjan og smá salti.
Gulrótamauk
Gulræturnar eru flysjaðar og soðnar í litlu vatni og örlitlu smjöri og kryddjurtum og loks maukaðar í matvinnsluvél.
Piparrótarsósa
Sýrðum rjóma (2 msk), majones (2 msk) og piparrót (fersk eða í pökkum eftir smekk) er blandað saman.
Fyllt hreindýra-carpaccio með mandarínuosti, parmesan, sykurplómum og cranberry-brennivínsskoti
Hreindýrið er tekið úr umbúðunum og sett á bökunarpappír. Mandarínunum er blandað saman við rjómaostinn ásamt safa úr hálfri appelsínu. Sett í sprautupoka og sprautað í miðjuna á vöðvanum. Parmesan stráð yfir og rúllað upp í fallega rúllu. Loks er báðum endum lokað vel og fryst. Tekið úr umbúðum og skorið í áleggshníf í þunnar sneiðar. Plómur eru skornar í litla báta og snöggsteiktar með strásykri. Cranberry safinn er soðinn niður í 2 mín, brennivíns lögg bætt saman við og sett í staup. Fallegt að bera fram á stórum diski með litlu skotglasi á disknum.