Furðuverur í Fríhöfninni
Öskudagurinn var haldinn hátíðlegur í Fríhöfninni í morguntraffíkinni. Stemningin var mjög góð enda margs konar verur á ferli sem skemmtu farþegum sem voru á leið út fyrir landssteinana. Í tilefni af öskudegi ákváðu starfsmenn Fríhafnarinnar að halda upp á daginn með því að mæta til vinnu í furðufötum farþegum til mikillar gleði. Stórir öskupokar voru hengdir upp í loftið til að skapa skemmtilega stemmningu. Starfsmenn settu mikinn svip á lífið inní verslun og skemmtu þeir sér vel með farþegum.
Það voru heldur betur litríkir einstaklingar sem mættu til starfa en þeir voru um 35 talsins. Þar voru mætt prumpublaðra, kúrekar, hippar, nornir, kötturinn með höttinn, sjóræningi með spúsu sína, arabi og ýmsar aðrar furðuverur. Farþegarnir voru mjög hissa á uppátæki starfsmanna, sumir áttuðu sig ekki á að öskudagurinn væri í dag, aðrir hlógu og skemmtu sér og tóku jafnvel myndir af starfsmönnum. Einn farþegi sagðist vera mjög ánægður með framtakið og vildi sjá svona jákvæð uppátæki oftar.
Krakkar á leið til útlanda tóku sig til og sungu lag inní verslun og fengu að sjálfsögðu sælgæti í verðlaun. Ragnheiður norn hjálpaði við afgreiðslu í snyrtivörudeildinni, Sólveig prumpublaðra fann rétta meik litinn fyrir ungu dömuna og trúðurinn sá eini sanni aðstoðaði við að kynna nýja drykkinn sem er til sölu í Fríhöfninni.
Í flugstöðinni var margt um manninn í morgunsárið, Iceland Express flaug til London og Kaupmannahafnar, Icelandair flaug til Osló, Stokkhólms, Kaupmannahafnar, Manchester og London.
Fleiri myndir má sjá á ljósmyndavef Víkurfrétta með því að smella hér.
VF-Myndir: Siggi Jóns