Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Furðuverk frumsýnt á laugardag
Fimmtudagur 24. janúar 2019 kl. 12:00

Furðuverk frumsýnt á laugardag

„Söngur, dans og leikgleði frá upphafi til enda“

Það hefur löngum verið vitað að unglingsárin eru viðkvæm og mikilvægt að styðja þennan aldurshóp til dáða og hjálpa þeim að að finna sér einhverjar tómstundir þar sem þau geta fengið útrás á þessu aldursskeiði. Guðný Kristjáns og Halla Karen vilja vinna með unglingum í leiklist sem er frábært verkfæri til þess að efla sjálfstraust. Þær hafa verið að æfa undanfarnar vikur með átján unglingum að leiksýningu sem krakkarnir sjálfir áttu hugmyndina að. Framundan er uppskeran þegar krakkarnir stíga á svið og sýna afraksturinn á leiksýningu sem ber heitið Furðuverk.

Gaman að vinna með unglingum

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Gylturnar standa að baki þessari leiksýningu en það erum við, ég og Halla Karen, sem vildum endurreisa unglingastarf Leikfélags Keflavíkur og settum upp söngleikinn Grease árið 2013 við frábærar undirtektir bæjarbúa. Þetta var brjálæðislega gaman og vel sótt sýning. Við fórum aftur af stað árið 2016 með Gargandi gleði unglingahóp og svo aftur núna. Okkur finnst mikilvægt að vinna með unglingum í leiklist en það er á þessum árum sem sum þeirra byrja að draga sig til baka, verða óörugg með sig og svona. Hér fá þau skilaboð um að öll hegðun sé leyfileg innan ákveðinna marka auðvitað. Hér mega þau fíflast þegar þau þurfa þess með. Láta ljós sitt skína. Það er þessi kraftur sem býr í þeim sem þarf stundum að fá útrás,“ segir Guðný.

Furðuverk er einmitt leiksýning sem undirstrikar þessi skilaboð um að öll erum við ólík og eigum að fá að vera þau sem við erum. Verkið fjallar á skemmtilegan hátt um líf unglinga og að ekki eru allir eins eða hafa sama áhugamál. „Söngur, dans og leikgleði frá upphafi til enda,“ segir í kynningu.

„Við vildum gefa öllum tækifæri. Engum var vísað frá. Allir voru velkomnir en við auglýstum fyrst námskeið með unglingum og afraksturinn er þessi leiksýning. Arnar Ingi Tryggvason límdi saman textann og bjó til leiksýninguna Furðuverk sem við Guðný leikstýrðum. Það er svolítið gaman að við erum með mennina okkar í þessu með okkur. Arnar minn sá um textasmíði og Júlli hennar Guðnýjar sá um allt í kringum tónlistina. Þeir munu einnig aðstoða okkur á sýningum. Það gerir þetta svo miklu skemmtilegra þegar þeir eru með því við höfum lítið verið heima undanfarið. Nú er þetta að bresta á og spennan mikil í Frumleikhúsinu,“ segir Halla Karen.

Lofum góðri skemmtun

„Við eigum ótrúlega góða unglinga. Ómeðvitað erum við að vinna með fordóma í þessari sýningu. Það mega allir vera einstakir. Við þurfum ekki öll að vera eins. Þegar við vinnum með leiklist þá erum við einnig að vinna með forvarnir sem er ekki síður mikilvægt. Við erum mjög glaðar með að hafa farið út í þetta með krökkunum. Það er búið að vera frábært að vinna með þessum hópi. Við vonum að fólk fjölmenni á sýninguna og sjái hvað krakkarnir eru duglegir að leika, dansa og syngja. Við lofum góðri skemmtun fyrir alla aldurshópa,“ segir Guðný að lokum.

Sýningar hefjast laugardaginn 26. janúar en þá er uppselt. Önnur sýning er á sunnudag klukkan 17:00 og enn eru miðar lausir þann dag. Hægt er að panta miða í síma 421 2540 eða hafa samband beint inn á Facebook-síðu Leikfélags Keflavíkur en þar má einnig sjá auglýsta sýningartíma framundan.

[email protected]

Halla Karen Guðjónsdóttir og Guðný Kristjánsdóttir.