Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Furðufugli dreymdi fyrir eldgosum
Laugardagur 6. janúar 2024 kl. 06:09

Furðufugli dreymdi fyrir eldgosum

„Þegar allir töluðu um að það myndi fara gjósa í Eldvörpum, sagði ég að gosið myndi koma upp hjá Sundhnúkum,“ segir Eyjólfur Vilbergsson sem hefur lengi verið einkar berdreyminn en árið 2020 dreymdi hann fyrir eldgosunum sem hafa sprottið upp síðan þá.

Eyjólfur fékk viðurnefnið Drauma-Jolli eftir að hann dreymdi fyrir gengi Grindavíkurliðsins í knattspyrnu sem náði í þrígang að bjarga sér frá falli úr efstu deild. Eyjólfur hefur skipað sér á sess með bestu fuglaljósmyndurum landsins og hafa áfáir furðufuglarnir heimsótt hann í garðinn því hann hefur lengi gefið fuglunum að borða.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Eldgos á Reykjanesi 18. desember 2023. VF/JPK

Draumurinn endar á Sundhnúkum

Það var um sumarið 2020 sem Eyjólf dreymdi fyrir eldgosunum og til að sanna mál sitt, fékk hann sér göngutúr og tók myndir. „Í draumnum stóð ég uppi á Langahrygg og það skiptir engum togum, það fer að gjósa niðri í Geldingadölum. Svo kemur upp annað eldgos fyrir austan Langahrygg og að lokum kemur upp eldgos  við Sundhnúka. Þegar mig hefur dreymt fyrir hlutum, hafa þeir sjaldan verið eins skýrir eins og þessir og ég ákvað að fá mér göngutúr um svæðið og mynda það, gaman að eiga þessar myndir í dag því landslagið breyttist auðvitað mjög mikið með tilkomu eldgosanna. Í aðdraganda eldgossins við Sundhnúka var umræðan mest á þann veg að eldgos kæmi upp í Eldvörpum en ég sagði fólki allan tímann að það myndi koma upp hjá Sundhnúkum. Ég hef verið spurður að því hvort Grindvíkingum sé óhætt að flytja aftur til bæjarins en það get ég ekki sagt til um. Eldgosin eru orðin fjögur í heildina en mig dreymdi samt bara fyrir þremur en hraunið af eldgosum tvö og þrjú runnu saman svo draumurinn stendur. Ég treysti mér ekki til að segja til um hvort síðasta eldgosið sé komið upp við Sundhnúka og sýnist því miður að svo sé ekki, það er bara spurning hvar það komi upp. Það gæti auðvitað gosið nær Grindavík og hraunið runnið þangað en draumurinn minn endar bara við Sundhnúka. Mig hefur ekki dreymt meira og satt best að segja vona ég að þessu berdreymi mínu varðandi eldgos sé lokið.“

„Sagðirðu skít?“

Berdreymi Eyjólfs kom í ljós strax á unglingsárum og oft vissi hann þegar hann vaknaði, hvernig viðkomandi dagur yrði. Hann byrjaði ungur til sjós og þegar hann var orðinn skipstjóri fékk hann eitt tækifæri hjá draumaguðunum en hann fór ekki eftir draumnum þá og skipstjórarnir sem fóru á þann stað sem draumurinn sagði til um, fylltu bátana sína. Eins og í myndinni Nýtt líf, fjallaði sá draumur Eyjólfs ekki um skít og hann man viðkomandi draum ekki alveg og sér eftir því að hafa ekki farið eftir honum því það var eins og draumaguðirnir hafi yfirgefið hann hvað varðar aflabrögð, fyrst hann fór ekki eftir draumnum þann daginn.

Fyrir aldamót vakti Eyjólfur verðskuldaða athygli í Grindavík, þegar hann náði að segja til um að Grindavíkurliðið í knattspyrnu sem þá var í efstu deild, myndi halda sæti sínu. Hann fékk viðurnefnið Drauma-Jolli út frá þessu því það nafn rataði í texta í stuðningsmannalagi sem Kalli Bjarni samdi fyrir knattspyrnulið Grindvíkinga, Það liggur í loftinu. Í textanum segir; „Á spekingana reynir, Drauma-Jolla dreymir fyrir sigurmarkinu, liggur það í loftinu?“ „Sumarið 1996 vorum við í bullandi fallbaráttu en þá dreymdi mig að ég hefði verið með Sigga Nonna á Hrauni í tveggja hæða húsi. Við vorum eitthvað í glasi, vorum staddir úti á svölum og duttum en rétt náðum að halda okkur í handriðið og hífa okkur upp. Ég sagði við leikmenn áður en þeir fóru í lokaleikinn á móti Leiftri á Ólafsfirði, „ekki gefast upp, þið munið reddda þessu á síðustu andartökum leiksins!“ Grétar heitinn Einarsson skoraði sigurmarkið í leiknum nokkrum sekúndum áður en dómarinn flautaði leikinn af. Þeir sem ég sagði frá draumnum, sögðu að það hefði ekki verið hægt að lýsa þessu betur eftir leikinn en ég gerði fyrir hann,“ segir Drauma-Jolli.

Rauður bátur sekkur

Árið 1998 dreymdi Eyjólf að hann væri að koma siglandi með Dóra í Vík [Halldór Þorláksson] á Þorsteini Gíslasyni. „Mér fannst Dóri vera sigla upp í fjöru og varaði hann við svo hann afstýrði því. Aftur þurfti ég að vara hann við og aftur náði hann að beygja áður en við strönduðum. Þegar við beygðum sáum við varðskip sem var að sigla suður á bóginn. Þegar ég vaknaði þennan morguninn sem var sama dag og lokaumferðin var leikin, var ég viss um að Þórarinn Ólafsson myndi skora tvö mörk í leik okkar á móti Fram og tryggja okkur sigur sem myndi tryggja sæti okkar í deildinni. Ég var líka viss um að ÍBV myndi hampa Íslandsmeistaratitlinum, ég túlkaði varðskipið siglandi til Vestmannaeyja með Íslandsmeistaratitilinn. Ég var á leiknum okkar og sem betur fer hafði ég sagt nokkrum frá draumnum, þeir sögðu að eina von okkar í leiknum, væri draumurinn minn. Grindavík var komið undir og Þóri skoraði tvö mörk sem tryggðu sæti okkar í deildinni.

Árið 1999 dreymdi mig fyrir lokaleikinn að rauður bátur hafi verið að sigla inn til Grindavíkur en hann sökk rétt fyrir utan Grindavík. Þar sem ég vissi að Grindavík ætti Val í lokaleiknum var ég aldrei stressaður um hvort liðið myndi falla, enda kom það á daginn að Valur féll í fyrsta skipti og þar með var Grindavík eina liðið á Íslandi sem hafði aldrei fallið niður um deild. Draumarnir eru samt ekki alltaf jákvæðir, árið 2006 dreymdi mig að við hefðum misst stóra lúðu í höfnina og þar með var ég smeykur enda féll Grindavík það ár en svo dreymdi mig að við hefðum náð lúðunni aftur ári síðar og eins og við manninn mælt, Grindavík komst aftur upp í efstu deild“.

Furðufuglar

Eyjólfur fékk myndavél frá systkinum sínum í fermingargjöf og fékk þá strax áhuga á ljósmyndun. Í dag er hann á meðal færari fuglaljósmyndara á landinu. „Þessi baktería byrjaði ekki almennilega fyrr en um aldamótin þegar stafræna tæknin kom. Ég hef ekkert lært í þessu, hef bara fiktað mig áfram og kannski má segja að fuglaljósmyndun sé mín sterkasta hlið. Sá áhugi kom líklega út frá ótal heimsóknum fugla í garðinn hjá mér því ég hef verið að gefa fuglunum frá því að stelpurnar mínar voru litlar en þær eru báðar komnar yfir fimmtugt í dag. Þetta er einfaldlega orðið stórt áhugamál hjá mér og líður varla sá dagur án þess að ég gefi ekki fuglunum og telst mér til að 54 fuglategundir hafi gætt sér á góðmetinu sem ég læt frá mér. Margar sjaldgæfar tegundir hafa komið, eins og Turtildúfa, Fjallafinka, Glóbrystingur, Kjarnbýtur, Bjarthegri, Barrspæta og Fléttuskríkja svo dæmi séu tekin. Páfagaukar hafa sloppið úr búrum sínum hér í Grindavík og eru komnir um leið til mín, ég hef mjög gaman af þessu. Ég var laglega fljótur að koma mér heim til Grindavíkur þegar það var leyft, ég var ómögulegur að geta ekki gefið fuglunum mínum. Ætli ég sé ekki bara óttalegur furðufugl,“ sagði Eyjólfur að lokum.


Fuglarnir í lífi Eyjólfs

Kjarnbítur.
Glóbrystingur.
Fjallafinka.
Barrspæta.
Bjarthegri.