Funk á fóninn þegar ryksugan er dregin fram
-DJ Egill Birgisson hefur þeytt skífum með „landsliðinu“ í rappi
Egill Birgisson, plötusnúður úr Grindavík, hefur spilað með helstu stjörnum rapp og hip-hop senunnar á Íslandi en hann byrjaði fyrst að fikta með DJ græjur fyrir sex árum með Birni Val, besta vini sínum. Á stuttum tíma náðu þeir býsna langt og voru fljótlega farnir að spila í mekka rappsins, á skemmtistaðnum Prikinu, og með Emmsjé Gauta hér og þar um landið.
„Þetta byrjaði allt saman sumarið 2010. Við vorum að byrja að fara til Reykjavíkur að skemmta okkur og Prikið var mjög vinsæll staður hjá okkur strákunum. Þar var DJ að nafni Daníel, betur þekktur sem Danni Deluxx og hans fag heillaði mig mikið. Ég var búinn að hugsa um þetta í smá tíma en það er frekar dýrt að byrja í þessu sporti. Ég nefndi þetta við Bjössa og þá sagðist hann líka hafa verið að hugsa um það sama en við höfðum ekkert rætt það áður. Við fórum í Pfaff og keyptum okkar fyrstu græjur sem hétu „Mixtrack Pro“ frá Numark, tvær fyrir hvorn.“
Þessi mynd var tekin þegar Egill og Björn þeyttu skífum saman í fyrsta skipti.
Þeir félagar spiluðu svo í fyrsta skipti saman á veitingastaðnum Kantinum á Sjómannahelginni í Grindavík. „Jóhann Davíð, eða Joey D eins og hann er kallaður, leyfði okkur að prófa að spila og það má segja að þetta hafi verið ást við fyrstu sín,“ segir Egill. Stuttu seinna voru þeir farnir að spila reglulega á skemmtistaðnum Center og á böllum Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Þeir settu sér svo þau markmið að spila á Prikinu, í Tuborg tjaldinu á Þjóðhátíð í Eyjum og Bestu útihátíðinni sem var haldin á þessum tíma.
Þegar Egill og Björn höfðu verið að spila hér og þar í nokkra mánuði ákváðu þeir að prófa að senda Prikinu tölvupóst. „Við spurðum hvernig staðan væri hjá þeim, hvort það væri möguleiki að fá að spreyta sig. Nokkrum dögum seinna fengum við svar um að þeir hefðu einmitt verið að missa tvo af sínum bestu mönnum sem væru að fara til útlanda í nám. Við spiluðum svo í fyrsta skipti á Prikinu veturinn 2010. Þann vetur spiluðum við nánast allar helgar, fimmtudag, föstudag og laugardag.“
Emmsjé Gauti hringdi
Þeir spiluðu eitt sinn á fastakvöldi tónlistarmannsins Emmsjé Gauta á Prikinu sem hét Í freyðibaði með Emmsjé Gauta. „Eftir helgina hringdi Gauti í okkur, þakkaði okkur fyrir og bauð okkur að koma með sér til Akureyrar. Hann var að fara að rappa og vildi fá okkur til þess að þeyta skífum um kvöldið. Í kjölfarið hófst þetta samstarf.“
Egill og Björn spiluðu með Joey D í Tuborg tjaldinu á Þjóðhátíð næstu þrjú árin og Egill spilaði einnig á Bestu Útihátíðinni. „Það var mikil upplifun. Það má segja að öllum markmiðunum sem við settum okkur hafi verið náð. Við höfum báðir verið að síðan. Þetta ár hefur reyndar verið mjög rólegt hjá mér en Björn Valur hefur tekið þetta skrefinu lengra. Hann fór til Los Angeles í nám í „pródúseringu“ og er farinn að gera eigin tónlist. Hann kom súkkulaðibrúnn heim og gerði meðal annars þrjú lög fyrir plötu Emmsjé Gauta, Vagg&Velta, en eitt af þeim er Reykjavík, sem er eitt vinsælasta lag landsins í dag,“ segir Egill.
Diplo er fyrirmyndin
Spurður út í hans uppáhalds tónlistarfólk nefnir Egill raftónlistarmanninn Diplo sem er meðlimur hljómsveitarinnar Major Lazer og tvíeykisins Jack Ü ásamt Skrillex. „Diplo er mín fyrirmynd í tónlistinni. Allt sem hann snertir verður vinsælt. Hann er að spila öll kvöld um allan heim og ef hann er ekki að því þá er hann að búa til tónlist sem fær yfir 100 milljónir áhorfa á YouTube. Það mætti eiginlega segja að hann sé einum of góður í þessum bransa. En um þessar mundir er ég líka mikið að hlusta á rapp, nema þegar ég er heima. Þar dett ég meira í gamalt funk, þegar ryksugan er dregin fram eða ég er að gera mig til fyrir eitthvað tilefni.“
Garðar Örn Arnarson, dagskrárgerðarmaður á Stöð 2 og kunningi Egils, hafði samband við hann og sagðist vera að leita að starfsmanni til að sjá um útsendingar á körfuboltaleikjum, en Garðar stýrir vikulegum sjónvarpsþætti á Stöð 2 Sport sem heitir Domino’s körfuboltakvöld og er sýndur í beinni útsendingu. „Starf mitt felst í því að stjórna útsendingunni á körfuboltaleikjum ásamt því að klippa saman aðalatriðin til að sýna í hálfleik. Í Körfuboltakvöldum sé ég um grafík vinnslu eins og textaskiltin sem birtast á skjánum með nöfnum sérfræðinganna og „tístin“ sem við birtum frá Twitter. Þetta starf er algjör snilld, það er sterkt að komast þangað inn og ég er þakklátur Garðari fyrir tækifærið. Það er aldrei leiðinlegt að vinna með fagmönnum eins og honum, Tómasi Þórðarsyni og Stefáni Geirmundssyni.“ Hann segir vinnuna á bak við þættina margfalt meiri en fólk heldur og að sér þætti gaman að sýna áhorfendum hvað gerist á bak við tjöldin. „Garðar og Stefán, sem sjá um meiripart vinnunnar eiga stórt hrós skilið.“
Egill starfar við grafík vinnslu í Domino’s Körfuboltakvöldum