Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fullur kokkur og Rollings Stones
Sunnudagur 31. mars 2024 kl. 08:08

Fullur kokkur og Rollings Stones

Elmar Þór Hauksson fermdist 5. apríl 1998 klukkan 10:30 í Keflavíkurkirkju.

Séra Ólafur Oddur Jónsson og Séra Sigfús B. Ingvason sáu um athöfnina. „Blessuð sé minning þeirra beggja, voru frábærir,“ segir Elmar Þór sem segir okkur frá ævintýralegum aðdraganda að fermingarveislunni þar sem kokkurinn var blindfullur og ekki viðræðuhæfur.

Hvað kemur fyrst upp í hugann þegar þú rifjar upp ferminguna?

Fullur kokkur! Ég man að daginn fyrir ferminguna förum við í salinn að hitta kokkinn og fara yfir málin fyrir stóra daginn. Ég man að hann var alveg blindfullur og ekki viðræðuhæfur, vildi bara sýna okkur grænmeti og ávexti sem hann var búinn að leggja mikla vinnu í að skera út sem skraut. Helga í samkomuhúsinu í Garði, huggaði okkur og sagði: „Ef hann verður svona á morgun þá reddum við þessu bara í sameiningu.“ En veislan lukkaðist mjög vel og var frábær í alla staði, maturinn sérlega flottur og góður þrátt fyrir þó nokkuð ryk í kokknum á fermingardaginn. Ég man að það var frábært veður þennan daginn, sól og stilla þegar við gengum inn í kirkjuna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Af hverju léstu ferma þig? 

Það var ekkert val með það minnir mig, þetta var bara eitthvað sem allir gerðu, var ekkert sérstaklega rætt á mínu heimili af eða á. Minnist þess ekki að hafa verið spurður af foreldrum mínum hvort ég vildi ekki fermast.

Hvernig var fermingarundirbúningurinn?

Fermingarundirbúningurinn var skemmtilegur man ég þrátt fyrir að hafa verið smá kvöð, var alltaf eftir skóla og lengdi daginn. Man að mér þótti fermingarfræðslan skemmtileg og áhugarverð og að mér fannst Sigfús skemmtilegri. Þá þótti mér mjög áhugavert að heyra kórinn syngja í athöfninni og spenningurinn að fá oblátu og messuvínið, það var ekki gott.

Svo var Solla í Nýmynd alveg toppurinn, hún beitti ýmsum brellum til að fá mann til þess að brosa. Var mjög svo skemmtilegt að fara til hennar í myndatöku man ég.

Var haldin veisla og hvað er eftirminnilegast úr henni?

Það var haldin vegleg veisla í samkomuhúsinu í Garði, ég man eiginlega ekki neitt eftir veislunni. Ég man að Addi frændi kenndi mér að brjóta saman íslenska fánann í lok dags.

Einnig man ég eftir því að við mamma vorum dugleg að nýta tilboð þegar við vorum að kaupa inn fyrir veisluna, keyptum kók í Hagkaup Fitjum fyrir 29 krónur flöskuna, var minnir mig afmælistilboð (50 ára) og var takmarkað magn, ein kippa á mann en við fórum nokkrum sinnum inn og út með smá millibili man ég.

Eru einhverjar fermingargjafir sem þú manst eftir?

Ég fékk 86.000 krónur í peningum. Síðan fékk ég hljómflutningstæki frá foreldrum mínum ásamt ferð til Danmerkur þar sem farið var á hljómleika með Rollings Stones, líklega hefur pabbi haft áhrif á þau gjafakaup!

Svo voru þetta svona klassískir hlutir á þessum tíma, Parker penni og bækur.

Gaman að segja frá því að fyrir um það bil tveimur árum eða 25 árum seinna, fann ég eina fermingargjöf frá Huldu systur ömmu, sem hafði dottið bak við skúffu. Þar var 2.000 krónu seðill sem ekki sjást lengur í umferð, það var verið að bjóða svoleiðis upp um daginn og lágmarksboð var 39.000 krónur.

Mannstu eftir fermingarfötunum eða klippingunni?

Fermingarfötin voru íslenski hátíðarbúningurinn, það var voðalega spennandi man ég, fara til Reykjavíkur á brúðarkjólaleigu Katrínar þar sem fötin voru mátuð nokkru áður, mikil upplifun. En Thelma Hrund (Lokkar og línur) sá um hárið enda fjölskylduklipparinn, en hún hætti fljótlega að sjá um hárið á mér eftir fermingu þar sem það fór að þynnast heldur hratt eftir fermingu.

Ertu að fara í einhverjar fermingarveislur í ár?

Nei, ekki svo ég viti, það hefur enginn viljað fá mig í fermingarveislu þetta árið ennþá og held að það hafi bara ekki gerst áður.