Fullt hús á Aftan Festivali
Sá siður er kominn á í Sandgerði að fimmtudagskvöldið fyrir Sandgerðisdaga er haldið Aftan Festival. Lesendur Víkurfrétta ættu að vera orðnir nokkuð kunnir þessum fjölbreytilega hóp sem treður upp á Aftan Festivali.
Þegar Aftan Festival fer fram eru yfirleitt tveir reynsluboltar sem troða upp ásamt einum listamanni sem ekki hefur áður komið fram á Aftan Festivali. Jafnan heppnast tónleikarnir eins og í sögu og síðastliðið fimmtudagskvöld var engin undantekning.
Fyrstur á svið steig Ingi Þór Ingbergsson en hann flutti eingöngu frumsamið efni og tók t.d lagið Ingimar við góðar undirtektir í salnum.
Næstur á svið var Þröstur Jóhannesson en hann er meðlimur í hljómsveitinni Hinir guðdómlegu Neanderdalsmenn. Þröstur var einnig í hljómsveitunum Texas Jesús og Vonlausa tríóinu. Vakti Þröstur mikla lukku og voru áhorfendur mjög hrifnir af honum.
Matti Óla steig síðastur á stokk en hann má kalla guðfaðir Aftan Festivalsins. Um þær mundir er Matti hóf sitt spilverk var salurinn orðinn þéttskipaður. Tók Matti m.a. lög af nýju plötunni sinni Nakinn en hún kemur út nú á næstu dögum. Matti lauk sínu prógrammi á „Heiðinni“ en það lag fjallar um Miðnesheiðina og að sögn Matta er hún merkilegasta heiðin á landinu fyrir margar sakir. Ekki sú hæsta, en hún er sú stærsta.
„Þetta er eitt mitt besta kvöld sem ég hef átt á Aftan Festivali, salurinn var frábær og það var hörku stemmning,“ sagði Guðfaðirinn Matti Óla í samtali við Víkurfréttir.
Fyrir áhugasama þá munu nokkrir listamenn úr Aftan Festival hópnum halda tónleika á Sólseturshátíðinn sem fram fer í Garði um helgin.
VF-myndir/ Hlynur Þór Valsson
Mynd 1: Smári (t.v.), Matti Óla fyrir miðju og Hlynur t.h.
Mynd 2: Þröstur Jóhannesson
Mynd 3: Hópurinn ásamt Margréti Örnu en hún er jafnan kynnir á Aftan Festivali.