Frumsýnir verk um rafrænan veruleika
- fékk ömmu sína til að vera hluta af verkinu.
„Ég er að skrifa útvarpsleikrit sem fjallar um sannleika orðsins, tungumálið og valdabaráttu yfirvaldsins við þegna sína. Einnig afleiðingu þess þegar allt sem þú skrifar á netið er orðið stjórnlaust og hægt að nota gegn þér,“ segir Keflvíkingurinn, söng- og leikkonan Jana María Guðmundsdóttir. Hana langaði að taka á og vekja athygli á því hvað hægt er að komast yfir mikið um manneskju í rafrænum nútímaheimi. „Þetta er öðruvísi en allt sem ég hef áður skrifað. Með þessum þremur 20 mínútna sýningum er ég að sýna hvert ég er komin með verkið.“
Verk Jönu, Ritrún, útvarpsleikrit hinna hugsandi orða, verður frumsýnt á Vinnslunni í Tjarnarbíói annað kvöld kl. 21:00 og verða sýningarnar þrjár sama kvöld. „Það verða hljóðritaðar þrjár senur og amma mín, Áslaug Bergsteinsdóttir, verður sviðshlutinn af verkinu. Hún gerir allt sem er sjónrænt.“ Amma Jönu er á áttræðsaldri en notar t.a.m. Facebook, eins og fjöldi fólks á hennar aldri sem vill ekki missa af því að fylgjast með. „Ég mæli með því að fólk á öllum aldri mæti. Ég ætla að finna hvernig áhorfendur upplifa verkið og svo er aldrei að vita hvaða stefnu það tekur í framhaldinu,“ segir Jana María.
Jana María.