Frumsýna söngleikinn Líf og frið í dag
Grunnskólabörn túlka Örkina hans Nóa á sinn hátt í Kirkjulundi.
Söngleikurinn Líf og friður verður frumsýndur í Kirkjulundi í Keflavíkurkirkju í dag. 35 börn úr 4. - 10. bekkjum grunnskólanna í Reykjanesbæ munu syngja, spila og leika um lífið í Örkinni í Nóaflóðinu. Um er að ræða lið í aldarafmælisdagskrá kirkjunnar.
„Dýrin eru stödd saman í örkinni og ótrúlega þreytt á endalausri rigningu og volæði og vilja komast eitthvað annað. Það hlýtur að vera einhvers staðar ljós í myrkrinu. Og það kemur í ljós í restina,“ segja leikstjórarnir Íris Dröfn Halldórsdóttir og Freydís Kneif Kolbeinsdóttir, kennarar við Myllubakkaskóla.
Vel hafi gengið að vinna með krökkunum undanfarna þrjá mánuði. „Þetta eru frábær börn og gaman að sjá þessa snillinga blómstra. Þau eru öll full af orku og fjöri. Við erum búin að þjálfa þau markvisst upp í að vera örugg en þau eru líka bara svo klár. Þau hafa gaman að svona hlutum. Það er líka aðeins búið að æsa þau upp og þau hafa tekið áskorunum. Það má ekki gleyma því að það má gera kröfur til barna. Við hrósum þeim og gagnrýnum þau líka. Þau taka gagnrýninni og gera betur.“
Sex sýningar verða á söngleiknum frá 14. - 20. maí í Kirkjulundi og allir eru velkomnir og kostar aðeins 500 kr. inn. Krakkarnir verða í sviðsljósinu í þætti vikunnar hjá Sjónvarpi Víkurfrétta.