Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fróðleiksfúsi rokkarinn í Sandgerði
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 25. ágúst 2024 kl. 06:25

Fróðleiksfúsi rokkarinn í Sandgerði

„Ég vil frekar fylgja hjartanu í minni tónlistarsköpun í stað þess að gera það sem markaðurinn kallar eftir,“ segir verkefnastjórinn og listamaðurinn Daníel Hjálmtýsson en hann vakti athygli fyrr á þessu ári þegar hann kynnti til sögunnar spjaldtölvuforritið Fróðleiksfúsi í Þekkingarsetri Suðurnesja. Fróðleiksfúsi er fræðsluleikur um fugla og sjávardýr af öllum stærðum og gerðum en aðallega lífríkið á Suðurnesjum.

Búið er að þýða Fróðleiksfúsa á pólsku og leikurinn er í stöðugri þróun má segja með viðbótum og nýjum dýrum sem bætast við hægt og örugglega. Fyrir utan störf sín sem verkefnastjóri hjá Þekkingarsetrinu þá er Daníel einnig starfandi tónlistarmaður, semur og gefur út tónlist ásamt því að halda tónleika víða um heim. Von er á nýrri plötu frá kappanum og hljómsveit hans, sem samnefnd er Daníel. Daníel fór yfir hvað á daga Þekkingarsetursins hefur drifið síðan í vor þegar Fróðleiksfúsi var kynntur til sögunnar og ræddi líka um tónlistarsköpun sína.

Vinsæll Frólðleiksfúsi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Fróðleiksfúsa hefur verið mjög vel tekið og við höfum tekið á móti mörgum hópum fjölskyldna sem vilja fræðast um dýrin og náttúruna. Búið er að þýða hann yfir á pólsku og ég myndi halda að fleiri gestir hafi komið og heimsótt okkur í sumar en fyrri ár og Fróðleiksfúsi á pottþétt sinn þátt í því. Leikurinn verður í stöðugri þróun má segja, ég get sjálfur bætt dýrum inn í leikinn en get auðvitað ekki talað pólskuna inn en við höfum fengið til liðs við okkur frábæra þýðendur sem sjá um að þýða handritið. Bakendakerfið á leiknum er þannig gert að auðvelt er fyrir mig að bæta dýrum við en hönnunarfyrirtækið Jökulá sér svo um grafík auk þess sem forritararnir sem komu að gerð leiksins með mér aðstoða mig enn. Markmiðið er að barn sem kemur kannski í ágúst og prófar leikinn, geti komið aftur í maí þegar opnar aftur árið eftir og þá eru búin að bætast ný dýr inn í leikinn og ýmsar viðbætur. Dýrunum mun fjölga og verður gaman að sjá hvernig leikurinn þróast í framtíðinni.“

Margar sýningar

Þekkingarsetrið er ofan á þetta með nokkrar sýningar í gangi yfir sumarið og sumar þeirra hafa verið í gangi í fjölda ára. Sú elsta, náttúrugripasýningin telur brátt þrjá áratugi sem dæmi. Hún hefur breyst með tilkomu Fróðleiksfúsa og vekur mikla kátínu barna auk þess að vera miðpunktur leik- og grunnskólaheimsókna á vorin. Sýningin Huldir heimar hafsins, ljós þangálfanna fagnar áratug í húsi í mars á næsta ári en sú sýning á að vekja unga sem aldna til umhugsunar um lífið í sjónum og er tileinkuð minningu Guðmundar Páls Ólafssonar, rithöfundar og náttúrufræðings. Listræn hönnun var svo í höndum Katrínar Þorvaldsdóttur í samstarfi við Þekkingarsetrið.

„Við hýsum svo eina veglegustu sögusýningu Suðurnesja, Heimskautin heilla, sem fjallar um líf og störf skipstjórans Jean Baptiste Charcot og rannsóknarskip hans Pourqoui-Pas? sem fórst við Álftanes á Mýrum í september 1936. Sýningin er samstarf okkar, fjölskyldu Charcot, Háskóla Íslands og er í eigu Suðurnesjabæjar. Það er nóg að gera hjá okkur, verkefnin jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Þegar sýningar loka í september tekur t.a.m. við starfsgreinakynning fyrir nemendur eldri bekkja grunnskóla á Suðurnesjum ásamt SSS sem fer fram í september í íþróttahúsinu við Sunnubraut í Reykjanesbæ. Það mæta rúmlega 1000 unglingar og vel yfir 100 starfsgreinar eru kynntar. Þá styttist einnig í bæjarhátíð Suðurnesjabæjar en þá ætlum við að bjóða upp á pylsur og frían aðgang á sunnudeginum en frítt er inn alla helgina. Frábært tækifæri til að kynna sér Fróðleiksfúsa og virða fyrir sér vegglistaverk skapandi sumarstarfa. Við tökum þá einnig á móti vísindamönnum allt árið um kring og alþjóðlegum háskólahópum sem starfa og dvelja hjá okkur bæði til lengri og skemmri tíma.“

Fróðleiksrokkarinn

Fyrir utan að starfa sem verkefnastjóri í Þekkingarsetrinu starfar Daníel sem tónlistarmaður. Hann fékk snemma áhuga á tónlist og eftir að hafa legið í dvala eftir unglingsárin, rifjaði hann upp kynnin við tónlistargyðjuna og hefur síðan þá gefið út tónlist og haldið tónleika úti í heimi.

„Það hefur alltaf verið mikil tónlist í fjölskyldunni, mikið sungið en pabbi, Diddú og Páll Óskar eru systkinabörn. Ég byrjaði að syngja um svipað leyti og ég byrjaði að skríða, systir mín segir mig hafa sungið harmoníur með útvarpinu og ég hafði alltaf mikinn áhuga á tónlist. Ég fór fimm ára í rokklingaskólann heitinn og þegar ég var sex ára gamall vildi ég læra á saxófón en þurfti að gera mér klarinett að góðu því ég gat fengið slíkt hljóðfæri lánað. Ég lærði í einhver ár en myndi líklega ekki getað spilað lag til að bjarga lífi mínu í dag.  Átta, níu ára fór ég að hafa áhuga á gítar, fór á gítarnámskeið hjá dönskukennaranum mínum og upp frá því varð gítarinn mitt hljóðfæri. Ég kenndi mér svo á píanó síðar.

Ég var búinn að stofna hljómsveit tíu, ellefu ára en var full stjórnsamur og var rekinn úr þeirri ágætu hljómsveit sem ég stofnaði. Ég var með stórar pælingar og yfirgang, engin vettlingatök. Við áttum að sigra heiminn að mínu mati en félagar mínir voru ekki alveg á sömu línu og voru slakari. Ég var aðeins iðinn áfram en sjálfstraustið var ekki til staðar og molnaði einhvern veginn niður og ég setti allt í frost, að minnsta kosti fyrir framan aðra og dró mig inn á við. Ég fór að vinna mikið hinum megin við tónlistarborðið má segja, vann bæði sem blaðamaður hjá tónlistarblöðum, flutti inn tónlistarmenn og kynntist öðrum, mikilvægum hliðum bransans. Þótt ég væri ekki að koma fram var ég samt alltaf eitthvað að vinna í tónlist heima hjá mér og fékk hvatningu frá mönnum sem ég leit mikið upp til, t.d. strákanna í Mínus, Lights on The Highway og fleirum sem höfðu trú á mér. Eftir að ég flutti inn minn uppáhalds söngvara, Mark Lanegan í Fríkirkjuna árið 2013 fór sjálfstraustið batnandi og trúin efldist og ég eignaðist góðan vin og stuðningsmann í Mark sem hvatti mig áfram sömuleiðis. Ég sakna hans mikið en hann féll frá árið 2022. Fyrsta platan okkar, Labyrinthia er tileinkuð minningu hans.

Ég er í hljómsveit sem heitir eftir mér en við eigum allir í lögunum og tónlistinni. Þannig vil ég helst hafa það. Þeir eru hráefnin sem hristir saman það sem mig dreymir um. Litli Daníel sem lét reka sig úr hljómsveit sem hann stofnaði sökum stjórnsemi, hefur þroskast mjög mikið og við vinnum alla hluti saman í hljómsveitinni. Eftir á að hyggja held ég að ég hafi bara haft of mikinn metnað og hungur sem ég finn fyrir góðu jafnvægi á í dag. Þegar við semjum kem ég oftast með grunninn en svo vinnum við allir úr því og erum allir skrifaðir fyrir lögunum en ég sem textana. Við gáfum út þröng-skífu (EP), svona vel stíliserað demo árið 2020 og áttum á þeim tíma að fara í tónleikaferð í Bretlandi með Mark Lanegan. COVID gerði þær fyrirætlanir að engu og í staðinn fórum við inn í stúdíó og tókum upp okkar fyrstu breiðskífu, sem kom út í fyrra. Við stefnum á að sú næsta komi út í apríl á næsta ári,“ segir Daníel.

Bakkus á bekkinn og ný vídd opnaðist

Daníel tók ákvörðun fyrir átta árum að segja skilið við Bakkus og vill meina að út frá því hafi eitthvað losnað úr læðingi.

„Ég sé eftir þessum árum sem ég setti tónlistina á bekkinn og það er erfitt að sætta sig við að hafa ekki nýtt fyrri ár betur, ég gæti verið orðinn mun betri gítarleikari t.d. ef ég hefði farið í FÍH eins og margir í kringum mig eða gefið út haug af efni. Ég myndi vilja getað lesið nótur en ég þarf bara að rifja þær upp frá tónmenntinni í gamla daga. Ég nota eyrað svo mikið að ég finn alltaf leið og ég tel þessi ár hafa verið mikilvægur skóli fyrir það sem ég er og geri í dag. Eftir hvatninguna á sínum tíma frá mönnum sem ég leit upp til, hef ég í raun verið á fullu en svo gerðist eitthvað gott þegar ég ákvað að hætta að drekka fyrir átta árum síðan. Eftir það breyttist viðhorf mitt má segja og ég fór að takast á við sjálfan mig, lífið og lexíurnar í gegnum listsköpun en ekki sjálfseyðingarhvöt. Ég lærði að faðma óargadýrið og temja það einhvern veginn. Í dag finnst mér ég geta tjáð mig óheflað og berskjaldað mig og er nokk sama hvað öðrum finnst, því ég veit að ég er sannur sjálfum mér í lífi og list.“

Trúr sjálfum sér

„Ég vil vera trúr sjálfum mér í minni tónlistarsköpun í stað þess að elta einhver norm eða bólur ef þannig mætti orða hlutina. Ég hætti sjálfur að drekka, þ.e. ég fór ekki í meðferð en tókst á við þetta í gegnum sköpun og hálfgerðan hreinsunareld sem mér fannst mikilvægt að takast á við einn og óstuddur, þó ég hafi auðvitað haft stuðning fólksins míns í ferlinu. Mér finnst ég betri listamaður og manneskja í dag og finnst ég geta komið til dyranna eins og ég er klæddur, þó ég sé enn að glíma við skuggana þá hef ég lært að lifa með þeim.

Okkur hefur líka gengið nokkuð vel myndi ég segja, við höfum t.d. fengið mikla útvarpsspilun á útvarpsstöðinni KEXP í Seattle, á Íslandi og á Ítalíu m.a. og fengið að ferðast mikið til að spila fyrir allskonar fólk. Lagið okkar Birds vakti athygli árið 2020 og út frá því fengum við tækifæri á að spila erlendis, bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu. Við erum að vinna næstu plötu öðruvísi en þá síðustu, við eyðum meiri tíma í æfingahúsnæðinu í stað þess að setja hana saman í hljóðverinu og ég er bjartsýnn á útkomuna. Platan er reiðari en sú fyrri og þyngri en helst í svipaðan streng í þema. Við erum að plana tónleikaferð samhliða þessu en við erum allir í vinnu og með fjölskyldu svo við gerum þetta á okkar hraða. Við þurfum svolítið að hugsa tónleikaferðalög eins og að kíkja í veiði eða golfferðir. Við erum bjartsýnir á framtíðina,“ sagði Daníel að lokum.