Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Frístundin: „Ekkert jafn ánægjulegt og að ná nýjum hjólabrettatrikkum“
Christopher Andri Hill
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
miðvikudaginn 22. júní 2022 kl. 09:38

Frístundin: „Ekkert jafn ánægjulegt og að ná nýjum hjólabrettatrikkum“

Christopher Andri Hill er 22 ára, hann er flokkstjóri í Vinnuskóla Reykjanesbæjar í sumar en vinnur einnig sem hjólabrettakennari í Fjörheimum. Chris, eins og hann er oftast kallaður, byrjaði að leika sér á hjólabretti þegar hann var í 10. bekk. Hann segist hafa byrjað „vegna þess að allir eldri, nettu strákarnir voru að því.“

Chris segist hafa lært mikið á því að horfa á aðra æfa sig á hjólabretti. „Ég lærði að „skeita“ með því að horfa á myndbönd og aðra sem voru að skeita. Ég var líka mikið í kringum það fólk og því lærði ég þetta fljótt,“ segir hann. Chris segir ekkert jafnast á við tilfinninguna sem fylgir því að ná nýjum hreyfingum á brettinu. „Það er ekkert jafn ánægjulegt og að ná nýjum hjólabrettatrikkum. Það er svo oft sem maður reynir við eitthvað nýtt í nokkrar vikur og svo allt í einu nær maður því. Það er sturluð tilfinning,“ segir hann. Uppáhaldstrikkið hans er það sem kallast nollie kickflip, aðspurður hvernig það lýsir sér segir hann: „Það er eins og venjulegt kickflip en maður stendur framar á brettinu þannig það er eins og maður sé að gera það öfugt.“

Eftir stökkpallinn fóru hjólin fóru að snúast

Chris var atvinnuleysisbótum um skeið en líf hans tók óvænta stefnu þegar hann tók þátt í námskeiði sem, eins kaldhæðnislegt og það er, kallast Stökkpallurinn. Stökkpallurinn er ætlaður þeim sem hafa horfið frá námi og/eða eru án atvinnu. Á námskeiðinu er lögð áhersla á að skapa aukin tengsl við samfélagið og atvinnulífið til dæmis með heimsóknum á vinnustaði og stofnanir. Námskeiðið fór fram í 88 húsinu og datt Chris í lukkupottinn þegar forstöðumaður Fjörheima tók eftir honum og vildi fá hann í vinnu. „Ég var að vinna hjá Mjöll Frigg að skrúfa tappa á flöskur. Fyrirtækið fjárfesti svo í vél og þá voru einhverjir starfsmenn látnir fara. Ég flutti svo til ömmu minnar og afa í Keflavík þegar ég var á atvinnuleysisbótum og byrjaði í prógrammi sem heitir Stökkpallurinn. Ég þurfti sem sagt alltaf að mæta upp í 88 húsið og mér fannst það rosalega gaman. Það hjálpaði mér vissulega að finna vinnu því Aron Freyr Kristjánsson, forstöðumaður Fjörheima á þeim tíma, sá mig þar. Hann kom til mín og sagði mér að honum litist vel á mig og að hann vildi fá mig í vinnu hjá sér. Síðan þá hef ég verið að vinna þar,“ segir Chris en í dag vinnur hann við að kenna á hjólabretti í Fjörheimum. Hann segir það besta við vinnuna sína vera að sjá krakka ná markmiðum sem þau hafa sett sér. „Mér finnst það svo æðislegt, bara því ég veit nákvæmlega hvernig sú tilfinning er,“ bætir hann við. Ráð hans til þeirra sem eru að byrja á hjólabretti er að byrja rólega. „Það er best að klifra hægt og rólega upp stigann, ekki taka einhverja þyrlu upp og reyna við of erfiða hluti. Þá hrapar hún bara,“ segir Chris.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Chris að kenna ungum hjólabrettasnillingum

Hægt að æfa sig á hjólabretti hvar sem er

Chris á margar góðar minningar tengdar hjólabretti en hann segir daginn sem hann reif buxurnar sínar vera eftirminnilegan. „Ég veit hundrað prósent hver sú versta er. Ég er nefnilega alltaf að rífa klofið á buxunum mínum. Einn daginn var ég að skeita í skólanum og reif buxurnar í klofinu og ég þurfti að eyða öllum deginum þannig. Þetta gerist svo oft – enn þann dag í dag.“

Aðspurður hvað sé í boði í Reykjanesbæ fyrir þá sem vilja æfa sig á hjólabretti segir hann: „Það góða við hjólabretti er að það er hægt að æfa sig hvar sem er. Svo er alltaf hægt að mæta í Fjörheima á föstudögum til að skeita. Það kostar ekkert og þetta er bara gert til að hafa gaman. Ef þú vilt mæta og læra eitthvað nýtt þá er ég til staðar en ef þú vilt líka bara renna þér á bossanum þá er það líka í lagi,“ segir hann og hlær.