Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Frístundin: „Prjónið er svo fallegt áhugamál“
Dalrós Líndal í flík eftir sig
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
miðvikudaginn 15. júní 2022 kl. 11:57

Frístundin: „Prjónið er svo fallegt áhugamál“

Dalrós Líndal er nemi í almennum málvísindum við Háskóla Íslands en hún nýtir nánast allan sinn frítíma í að prjóna. Dalrós hefur prjónað fyrir góðgerðarsamtökin Mía Magic. Þá hefur hún prjónað og gefið flíkur í svo kölluð Míubox, sem eru gjafabox fyrir langveik börn, systkini og foreldra langveikra barna. Hún prjónar þó mest flíkur á fjölskylduna sína. „Mér finnst líka mjög gaman að prjóna á nýfædd börn í kringum mig. Ég hef í rauninni ekki tíma í meira, verandi í námi og með tvö ung börn,“ segir Dalrós. 

Dalrós segist fá mikið út úr því að prjóna. „Prjónið er svo fallegt áhugamál þar sem maður nær að slaka vel á og búa til eitthvað fallegt í leiðinni, svo er ekkert betra en að sjá þessar flíkur í notkun eftir alla vinnuna og þolinmæðina,“ segir hún. 

Dalrós prjónar yfirleitt ein en segist njóta þess að prjóna með öðrum. „Undanfarin tvö ár hef ég séð um prjónakvöld á vegum 88 hússins á mánudagskvöldum og þar hittumst við nokkrar saman, prjónum og spjöllum um prjón.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Prjónaðar flíkur eftir Dalrósu
Sækir innblástur frá Instagram

Dalrós fór í Hússtjórnarskólann í Reykjavík haustið 2015 og rifjaði þar meðal annars upp það sem hún hafði lært í prjóni í grunnskóla. Hún byrjaði þó ekki að prjóna af alvöru fyrr en hún varð ólétt af syni sínum árið 2017. „Ég hef ekki lagt frá mér prjónana síðan, það opnaðist fyrir mér nýr heimur þegar ég áttaði mig á því að það væri hægt að prjóna svo margt annað en bara lopapeysur og ullarsokka úr gamla góða lopanum,“ segir Dalrós. Áður en hún vissi var hún farin að deila verkefnum sínum á Instagram-aðganginum @dlindal.knit og segist hún hafa stofnað hann til að „hlífa vinum og vandamönnum fyrir öllu þessu prjóni“. Dalrós er einnig partur af hópnum Prjónum saman. Hópurinn heldur uppi Instagram-síðu þar sem þau deila meðal annars verkefnum og aðferðum. Dalrós segir íslenska prjónasamfélagið á Instagram vera að stækka og henni þykir gaman að fá að vera partur af því. „Það er ótrúlega hvetjandi og ég sæki nánast allan minn innblástur þaðan,“ segir hún.

Dalrós hvetur alla sem langar að læra að prjóna „að láta vaða“. „Það geta allir lært að prjóna ef áhuginn er til staðar og þeir sem þurfa aðstoð eru velkomnir í 88 húsið á mánudögum,“ bætir hún við.