Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Frístundin: Fékk að heyra það frá nemendum sínum
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
fimmtudaginn 21. júlí 2022 kl. 08:00

Frístundin: Fékk að heyra það frá nemendum sínum

Íris Rut Jónsdóttir

„Ég byrjaði að lyfta því ég var orðin svo þreytt á að finna mig ekki í neinu sporti en fannst svo rosalega gaman og gefandi að hreyfa mig,“ segir Íris Rut Jónsdóttir. Íris stundar kraftlyftingar og ólympískar lyftingar. Hún keppti á sínu fyrsta lyftingamóti árið 2015 og hefur síðan þá sett nokkur Íslandsmet og tvisvar verið valin kraftlyftingakona Reykjanesbæjar.
Hvenær byrjaðir þú að lyfta?

Ég hef aldrei æft neitt af viti fyrr en ég byrjaði í Crossfit í byrjun árs 2014. Ég fann strax að Crossfit átti vel við mig og byrjaði að æfa á fullu og hef fengið þann heiður að taka þátt í Íslandsmótum í sportinu. Ég keppti svo á mínu fyrsta ólympíska lyftingarmóti árið 2015 og mínu fyrsta kraftlyftingarmóti árið 2017.

Hver eru þín helstu afrek í kraft- og ólympískum lyftingum?

Ég hef orðið Íslandsmeistari í -63 kg flokki í kraftlyftingum og á ég þar best 145 kg í hnébeygju, 85 kg í bekk og 155 kg í réttstöðu. Einnig hef ég orðið Íslandsmeistari í -57 kg flokki í ólympískum lyftingum og ég á best 73 kg snörun og 100 kg jafnhendingu. Einnig hef ég sett nokkur Íslandsmet sem eru alltaf toppurinn af tilverunni. Ég hef nokkrum sinnum fengið boð á RIG (Reykjavík International Games) og einnig orðið kraftlyftingarkona Reykjanesbæjar sem mér fannst mjög skemmtilegt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Íris Rut á 100 kg í jafnhendingu

 

Hvaða árangri ert þú stoltust af?

Ég held ég sé stoltust af 145 kg hnébeygjunni minni sem var Íslandsmet. Ég sló metið í  hnébeygju tvisvar sinnum á því móti.

Á þessum tíma sem þú hefur verið að æfa hefur þú tvisvar orðið ólétt, hafði það einhver áhrif?

Ég náði í bæði skiptin að æfa fram á síðasta dag sem ég er mjög heppin með en það krefst gífurlegrar vinnu, tíma og þolinmæði að koma sér aftur í keppnisform eftir meðgöngu. Ég held það hafi nú samt bara styrkt mig andlega.

Íris Rut ásamt börnum sínum
Hvað er það skemmtilegasta við að lyfta?

Ég held það sé bara adrenalínið sem flæðir í gegnum mann og árangurinn sem maður sér og finnur fyrir. Það er líka mikilvægt að setja sér lítil og stór markmið sem maður getur hakað út af listanum.

Hver er þín uppáhaldslyfta?

Hnébeygja í kraftlyftingunum og jafnhending í ólympískum.

Skemmtilegasta minning tengd lyftingum?

Það var mjög skemmtilegt móment þegar ég var að keppa á RIG, sem er sjónvarpað. Ég var búin að segja öllum umsjónarhópnum mínum í 6. bekk að ég væri að fara að keppa og þau voru öll spennt að horfa á mig. Síðan er ég að reyna við 140 kg í réttstöðu og bifa ekki stönginni og öskra FOOOOKK í beinni útsendingu ... Ég sé að mér og held fyrir munninn á mér og hleyp hlæjandi út og fékk svo að heyra það frá nemendum mínum næsta skóladag.

Hver er stefnan?

Ég er ekki að segja að ég sé gömul en ég er samt alveg komin á þann stað sem ég er ekkert að stefna á neitt svakalegt. Mér finnst gaman að taka þátt í keppnum og vil standa mig vel en er ekkert endilega að reyna að komast inn á erlend mót eða neitt þannig. Ég vil bara vera heilbrigð, líða vel í líkama og sál og hreyfa mig eftir minni bestu getu.