Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Frístundin: Dreymir um að hafa áhrif
Guðjón Steinn Skúlason
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
sunnudaginn 28. ágúst 2022 kl. 10:00

Frístundin: Dreymir um að hafa áhrif

Guðjón Steinn Skúlason er átján ára og kemur frá Keflavík. Hann er á stúdentsbraut í djasstónlist í Menntaskólanum í tónlist og stefnir á að útskrifast í vetur. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Guðjón tekið að sér ýmis verkefni tengd tónlist en hann á einnig glæsilegt safn af hljóðfærum heima hjá sér.

Guðjón er fyrst og fremst saxófónleikari en hann er einnig í námi á klarinett og þverflautu, þá er hann líka að kenna á saxófón og klarinett í Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar. Hann segir áhuga hans á tónlist hafa kviknað þegar hann komst fyrst í tæri við hljóðfæri. „Fyrstu minningarnar mínar frá því að hafa fundið að tónlist væri fyrir mig var þegar ég spilaði með blokkflautu kórnum í 2. bekk, þegar allir nemendur á því ári í Reykjanesbæ spiluðu saman á blokkflaututónleikum. Ég man að ég stóð beint fyrir aftan trommarann í lúðrasveitinni, sem var að spila með okkur, og mér fannst það svo „kúl“. Þegar ég kom svo heim þá stillti ég upp litlum stólum, setti bækur á stólana og fann einhver prik, í nokkra mánuði sat ég og lék mér að spila eftir lögum á geisladiskum sem ég átti, aðallega eftir Bubba Morthens. Ég eyddi miklum tíma í það og fékk á endanum trommusett. Það má segja að það hafi verið formlega byrjunin á þessum áhuga mínum á tónlist,“ segir Guðjón.

Einstakur hæfileiki Guðjóns kom honum að góðum notum í tónlistarnáminu. „Ef mig langaði að læra eitthvað lag þá bara lærði ég það með því að hlusta og pikka það upp. Mér fannst ótrúlega gaman að sýna kennaranum mínum lögin sem ég var búinn að læra. Ég mundi bara hvernig lögin hljómuðu og spilaði þau, það er eiginleiki sem kom sér að góðum notum því ég var frekar latur að læra heima í tónlistarnáminu í grunnskóla. Það gerði mér kleift að komast í gegnum fyrri hluta tónlistarnámsins án þess að hafa of mikið fyrir því. Þetta er skemmtilegt verkfæri sem ég var með þarna frá byrjun,“ segir hann.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Caption

Safnar hljóðfærum

Guðjón á veglegt safn af hljóðfærum heima hjá sér en þau eru um það bil 40 talsins. Þar má nefna tólf munnhörpur (eina fyrir hverja tóntegund), fimm tréblásturshljóðfæri, átta strengjahljóðfæri (gítar, bassa, ukulele og eina fiðlu). Í safninu má einnig finna harmonikku, píanó, hljómborð, nefflautu, kazoo, ocarina og eitthvað af heimagerðum strengjahljóðfærum sem Guðjón fékk gefins. „Þetta eru mikið af skemmtilegum og litlum hljóðfærum, uppáhaldshljóðfærið af þessu stóra safni er altsaxófónninn minn sem er aðalhljóðfærið mitt sem ég spila mest á opinberlega. Svo held ég rosalega mikið upp á þverflautuna mína og svo um áramótin keypti ég mér sópransaxófón sem er með einkennilegt útlit. Hann er beinn og því lítur hann svolítið út eins og gyllt klarinett fyrir mörgum. Hann er líka í miklu uppáhaldi hjá mér og mér finnst það skemmtilegt hljóðfæri,“ segir Guðjón.

Lærir af fyrirmyndinni

Aðspurður hver helsta fyrirmynd hans í tónlist sé segir hann: „Það er kennarinn minn, Sigurður Flosason. Hann er núna að kenna mér á saxófón í MÍT [Menntaskólanum í tónlist], ég hef litið upp til hans síðan ég var átta ára. Það var einmitt algjör draumur þegar ég fékk þá ósk uppfyllta að geta lært hjá honum. Hann er innblásturinn að því hvernig ég hljóma á saxófón. Þar sem hann er að kenna mér núna allt sem hann kann er mjög mikið „element“ af hans spilamennsku í mér, sem mér finnst ekkert leiðinlegt. Það eru auðvitað líka einhver stór „legend“ héðan og þaðan sem ég hef horft upp til en Siggi hefur alltaf haldið sér sem þessi eini sem ég leita alltaf aftur til,“ segir Guðjón. Hann segist hafa fyrst heyrt af Sigurði frá pabba sínum þegar hann var að byrja að æfa á saxófón í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og spurði hann hver væri besti saxófónleikarinn á Íslandi. „Hann sagði Siggi Flosa. Síðan fékk ég geisladisk í jólagjöf sem Siggi hafði tekið upp og ég hlustaði á þennan geisladisk á hverju kvöldi í einhverja mánuði. Ég gleymdi honum síðan í smá tíma en fann hann svo aftur og þá gat ég sungið með nánast hverri einustu nótu sem var spiluð á disknum og þurfti ekki einu sinni að hafa fyrir því. Þá var þetta bara grafið í minnið mitt,“ segir Guðjón og bætir við: „Ég fór svo að hlusta meira á hann eftir að ég fór að fá áhuga á djasstónlist og fattaði hversu flottur hann er, hversu flotta tækni hann er með og hversu vel hann hljómar. Þetta er sem sagt einn af örfáum tónlistarmönnum sem ég hef getað hlustað á í svona miklu magni án þess að verða þreyttur á.“

Guðjón Steinn að spila á bassa

Áhugavert verkefni með Geirmundi Valtýssyni

Guðjón spilar einnig með popphljómsveitinni Demo en meðlimir hennar eru allir úr Reykjanesbæ. „Ég slysaðist til að vera ráðinn sem bassaleikari í þeirri hljómsveit. Það er ekki aðalhljóðfærið mitt og popptónlist er auðvitað ekki aðalfagið mitt, mér finnst þetta mjög skemmtilegt engu að síður. Þarna fæ ég tækifæri til þess að vera í vinsælli tónlistarstefnu og læra eitthvað sem ég væri annars ekki að læra. Ég er búinn að vera að spila með þeim svolítið reglulega og við tókum upp plötu á síðasta ári. Ég endaði á því að taka það að mér að hljóðblanda plötuna og það er einmitt eitthvað sem ég hef leikið mér að en aldrei gert að einhverju viti. Þarna fékk ég tækifæri til þess að ekki bara að spila á bassa inn á plötu heldur að vinna hana alveg frá byrjun til enda nánast sem var ótrúlega skemmtileg og gefandi reynsla,“ segir Guðjón.

Verkefni Guðjóns hafa verið jafn misjöfn og þau eru mörg. Hann segir nokkur verkefni standa upp úr. „Það sem stendur upp úr frá síðustu árum var þegar mér var boðið að spila með Stórsveit Reykjavíkur. Ég hef spilað tvisvar með þeim núna og fékk þá að spila með kennurunum mínum og mörgum af þessum íslensku fyrirmyndum mínum. Það er svona einn af þessum hápunktum sem ég hef átt. Ég hef líka verið mikið að spila með Má Gunnarssyni, söngvara og sundkappa, og er einmitt að spila með honum núna á Sjáumst tónleikaröðinni sem er síðasta tónleikaröðin hans áður en hann fer út í nám,“ segir Guðjón og bætir við: „Skemmtilegasta og áhugaverðasta verkefnið sem ég hef svo tekið þátt í var þegar ég fór í tónleikaferðalag um norðurlandið að spila lög Geirmundar Valtýssonar. Við vorum með fimm tónleika með stórum hópi söngvara, meðal annars Geirmundi Valtýssyni og Maríu Ólafs, Eurovisionfara. Við spiluðum lög Geirmundar og upplifðum menninguna í kringum þessa tónlist.“

Hefur gert fjölbreytta hluti

Sem áður verður Guðjón með nóg á sinni könnu í vetur en hvað tekur við eftir menntaskóla?

„Ég hef núna gert ansi fjölbreytta hluti. Ég hef sem dæmi tekið að mér tónsmíðaverkefni fyrir auglýsingar, gerði auglýsingatónlist fyrir 66°Norður og hef einnig verið að vinna mig í áttina að kvikmyndatónlist. Ég hefði líka mjög gaman af því að fara lengra í hljóðblöndun. Aðalstefnan núna er samt að mastera djasstónlist og komast eins langt og ég get í saxófónleik. Eftir útskrift er stefnan sett á að fara út að læra djasstónlist og það væri gaman að bæta við mig einhverjum fögum í kvikmyndatónlist eða hljóðblöndun,“ segir Guðjón.

Það er draumur hans er að vera fyrirmynd fyrir upprennandi tónlistarsnillinga. „Stærsti draumurinn minn er að hafa áhrif. Ef einn ungur krakki fær ástríðu fyrir tónlist, út frá því að hlusta á mína tónlist, þá er markmiðinu náð. Ég stefni að því að kenna í framtíðinni og því er  stóra markmiðið mitt er að vera fyrirmynd og að minn tónlistarferill, og allt sem ég hef gert, skili sér til einhvers annars,“ segir Guðjón.