Frístundin: Byrjaði að stunda jóga með mömmu sinni
Þórhildur Alda Reynisdóttir stundar nám í lífeindafræði við Háskóla Íslands en í frístundum sínum stundar hún jóga. Þórhildur byrjaði ung að stunda jóga með mömmu sinni en árið 2021 ákvað hún útskrifaðist sem jógakennari í lok árs 2021. Hún segir jóga vera fyrir alla og það geti hjálpað á hinum ýmsu sviðum lífsins.
Þórhildur nýtur frítíma sinn í að stunda jóga. Hún segir jóga ekki spyrja um stað og stund. „Mér finnst skemmtilegast að geta tekið nokkrar mínútur á dag í að stunda jóga og ekki skemmir fyrir ef það er úti í góðu veðri eins og uppi í bústað eða úti í garði.“ Þá segir hún jóga vera fyrir alla og vera frábrugðið öðrum íþróttum að því leyti að; „jóga er engin keppni, í því á maður bara að njóta og vera maður sjálfur.“
Þórhildur segir ávinninginn af því að stunda jóga vera mikinn og það hafi meðal annars hjálpað henni í námi. „Mér finnst best hvernig hugleiðsla í fimm mínútur á dag getur minnkað stress og áreiti dagsins,“ segir hún og bætir við: „Ég hef alltaf tekið fimm til tíu mínútur í hugleiðslu áður en ég fer í próf, sem mér finnst virka svo vel fyrir mig.“
Þórhildur hefur alltaf haft mikinn áhuga á jóga en hún skráði sig í jógaskóla OM setursins snemma árs 2021. Aðspurð hvers vegna hún ákvað að skrá sig í námið segir hún: „Mig langaði bara að prófa eitthvað nýtt og koma sjálfri mér svolítið á óvart – sem mér tókst.“ Þórhildur segir áhuga sinn á jóga hafa sprottið frá mömmu sinni en hún var dugleg að mæta í jógatíma með mömmu sinni á yngri árum. Þær mæðgur eiga sér draum að halda jóganámskeið í náttúrunni. „Það er smá draumur hjá mér og mömmu að hafa þriggja til fjögurra daga námskeið í náttúrunni, þar sem við myndum fara í fjallgöngur og stunda jóga þess á milli,“ segir Þórhildur.