Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fríhöfnin sú besta í Evrópu
Þriðjudagur 3. desember 2013 kl. 15:20

Fríhöfnin sú besta í Evrópu

Fríhöfnin á Keflavíkurflugvelli hefur verið valin „Besta fríhöfn í Evrópu árið 2013“ af tímaritinu Business Destinations. „The Business Destinations Travel Awards“, sem nú eru veitt í fimmta skipti, njóta virðingar í alþjóðlegri ferðaþjónustu. Sigurvegarar eru valdir með kosningu fjölmenns hóps áhrifamanna á sviði viðskiptaferðalaga. Yfirlýst markmið með veitingu verðlaunanna er að vekja athygli á þeim aðilum sem hafa náð athyglisverðum árangri í rekstri og eða nýsköpun og snjöllum lausnum á hinum ólíku sviðum ferðaþjónustunnar.

Í skýjunum með verðlaunin
„Við hjá Fríhöfninni erum alveg í skýjunum með þessi verðlaun og ákaflega stolt. Þetta er ánægjuleg viðurkenning sem hefur mikla þýðingu fyrir okkur og er staðfesting á þeim árangri sem við höfum náð með endurskipulagningu á rekstrinum og endurmörkun fyrirtækisins síðustu ár,“ segir Ásta Dís Óladóttir, framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar. Hún segir að slagorð Fríhafnarinnar, þess virði að upplifa, standi svo sannarlega undir nafni. „Verslanir okkar hafa verið endurhannaðar, nýjar verslanir teknar í notkun, áherslum í rekstri breytt og vöruúrval stóraukið,“ segir Ásta Dís.

Verðlaun í hverri heimsálfu fyrir sig
Verðlaunin eru flokkuð niður eftir heimsálfum og er framúrskarandi fyrirtækjum á ýmsum sviðum í hverri heimsálfu veitt viðurkenning. Eins og fyrr sagði var Fríhöfnin valin besta fríhafnarverslunin í Evrópu. Bestu fríhafnarverslanirnar í öðrum heimsálfum voru valdar Duty Free Americas, sem rekur fríhafnarverslanir á tíu flugstöðvum í Bandaríkjunum; Dubai Duty Free var valin besta fríhöfn Miðausturlanda; Global Blue var valin besta fríhafnarþjónusta Suður-Ameríku; China Duty Free Group hlaut viðurkenninguna í Asíu, SYD Airport & Duty Free í Sidney var valin besta fríhafnarverslunin í Eyjaálfu og IDFS í Marokkó var valin besta fríhafnarverslun Afríku.


Íslenskt í öndvegi
Ásta Dís segir stefnu fyrirtækisins vera að leggja áherslu á vörur sem ekki eru á innanlandsmarkaði, að kynna og selja íslenskar vörur og íslenska hönnun, ekki síst tískufatnað sem og vöruþróun með íslenskum birgjum. Meðal mælikvarða sem notaðir voru eru vöruúrval og verðlag, ekki síst í fatnaði og fylgihlutum. ,,Vöruúrvalið í Dutyfree Fashion þótti gott en verðlagið með því besta sem gerist í Evrópu“ segir Ásta Dís. Fríhöfnin rekur Dutyfree Fashion og er þar að finna mjög gott úrval íslenskrar hönnunar í bland við heimsþekkta merkjavöru, s.s. Burberry, Mulberry og Hugo Boss. ,,Hver veit nema fleiri þekkt vörumerki verði sjáanleg í Dutyfree Fashion á næstunni,“ segir hún.

Mikil veltuaukning og aukin athygli


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

,,Frá árinu 2010 hefur veltan aukist um 44%, sem líklega er ein mesta veltuaukning fríhafna í Evrópu. Það má að miklu leyti rekja til aukinna viðskipta erlendra farþega. Útlendingar eru að kaupa meira af íslenskum vörum en áður og Fríhöfnin hefur stóraukið verslun við innlenda birgja og innlenda hönnuði. Þjónustukannanir sýna að viðskiptavinir fara mjög ánægðir frá okkur enda starfsfólk Fríhafnarinnar
einstaklega þjónustulundað og verðlaunin eru fyrst og fremst þeirra. Það að vinna „The Business Destination Travel Awards“ sýnir að árangur okkar vekur athygli út fyrir landsteinana,“ segir Ásta Dís ennfremur.

Framfarir í atvinnugreininni
Business Destinations segir að verðlaunin skilgreini þau markmið sem þeir sem stefna hátt á sviði ferðaþjónustu muni stefna að á næstunni. „Verðlaunahafar ársins eiga mikinn heiður skilinn fyrir að þær framfarir sem orðið hafa í atvinnugreininni allri á árinu sem er að líða,“ segir í yfirlýsingu frá Business Destinations í tilefni verðlaunaveitingarinnar í ár. Fjallað er um verðlaunin og verðlaunahafana í sérstökum viðauka með því hefti tímaritsins sem kom út þann 28. nóvember.

Fjölmenn dómnefnd og sérstaða verðlauna


The Business Destinations Travel Awards“ hafa verið veitt árlega undanfarin fimm ár og er ætlað að kynna þau fyrirtæki sem bjóða bestu fáanlegu vörur og þjónustu á ólíkum sviðum í alþjóðlegri ferðaþjónustu. Sérstaða þessara verðlauna er fólgin í því að vinningshafar eru ekki valdir af fámennri dómnefnd heldur af stórum og fjölbreytilegum hópi sérfræðinga úr viðskiptalífinu. Þar er um að ræða stjórnendur viðskiptaferðalaga hjá 500 stærstu fyrirtækjum Bandaríkjanna (Fortune 500), ásamt félagsmönnum í Samtökum stjórnenda viðskiptaferðalaga (ACTE) og fleiri lykilmönnum á sviði viðskiptaferðalaga. Hópurinn leggur mat á þau fyrirtæki, sem hljóta tilnefningu, samkvæmt ákveðnum ströngum mælikvörðum.

Þau fyrirtæki sem hljóta tilnefningu Business Destinations eru valin af dómnefnd skipuð stjórnendum frá tímaritinu og búa þeir að samtals níutíu ára fjölmiðlareynslu af umfjöllun um viðskiptaferðalög og styðjast við mikið magn upplýsinga og gagna sem safnað hefur verið af starfsmönnum dómnefndarinnar.