„Friðurinn byrjar hjá mér“
Lovísa nýtti hluta af sumarfríinu við mannúðarstörf á Ítalíu.
„Jafnvel þótt börnin séu sum orðin fullorðið fólk eru þeim enn hjálpað við að ná fótfestu í lífinu, t.d. við að finna vinnu. Þau verða einhvern veginn svona börnin okkar allra eftir svona ferð,“ segir Lovísa Hafsteinsdóttir, náms- og starfsráðgjafi við Akurskóla í Reykjanesbæ, sem dvaldi í vikutíma í júlí með tólf ára syni sínum í sumarbúðum sem á stofnuð voru á vegum hjálparsamtakanna Eitt barn fyrir vin árið 1992, þegar stríð stóð yfir í Júgóslavíu. „Þetta var hópur sem vann að því að koma hjálpargögnum á milli landa og þetta stóð yfir í einhver ár. Á árunum 1999 - 2000 fór hópurinn að vinna að mannúðarstörfum í Slóveníu. Ári síðar var flóttamannabúðum lokað og hjálparsamtökin beindu kröftum sínum að börnum frá munaðarleysingjaheimili í Serbíu og buðu einnig börnum frá slíku heimili í Júgóslavíu í sumarbúðirnar á Ítalíu,“ segir Lovísa.
Lovísa ásamt víðförlum friðarboða frá Afríku og tveimur barnanna.
Frá ólíkum menningarheimum
Sjálf bjó Lovísa á Ítalíu í tólf ár og á þar vinkonu sem er forsprakki samtakanna. „Ég hef vitað af þessu lengi og horft með aðdáun til vinkonu minnar, sem er 48 ára kennari og vinnur með innflytjendum á Ítalíu og þeim sem minna mega sig. Hún hefur gefið allan sinn tíma,“ segir Lovísa með aðdáun. Í sumarbúðirnar koma börn í vikutíma einu sinni yfir sumarið; tíu börn frá Ítalíu, tíu börn frá munaðarleysingjaheimili í Serbíu og innflytjendur á Ítalíu, t.d. Afríkubúar. Til viðbótar eru í kringum 15 sem eru þroskaheftir og meðal þeirra eru börn sem eiga engan að og þetta er eina fríið sem þau fá til að gera eitthvað skemmtilegt. „Allur hópurinn fer saman í ferð, börn frá ólíkum menningarsvæðum með ólík tungumál. Unnið er með fjölmenningu, samskipti, það að vera öðruvísi, samstöðu og frið.“
Ólíkir menningarheimar á einum stað.
Sonurinn lærði margt
Lovísa tók 12 ára son sinn Samúel, með í ferðina, sem hún segir vera alinn upp við allsnægtir og aldrei skort neitt, eins og flest íslensk börn. Á Ítalíu kynntist hann aftur á móti börnum sem áttu ekkert. „Það voru spilakassar á bar þarna á svæðinu og ég gaf honum pening til þess að leika sér aðeins og 18 ára drengur sem var alltaf með honum lék sér aðeins í spilakössunum en án peninga. Drengurinn minn uppgötvaði að þarna var drengur sem átti ekkert og fann með sér löngun til að gefa honum pening til að spila líka. Það var einmitt það sem ég vonaði að hann upplifði, að ekki er gefið að leyfa sér hluti,“ segir Lovísa. Þau sem standa að sumarbúðunum eru Serbar, Bosníufólk og Ítalir. Núna er ég að koma inn í þetta Íslendingurinn og sýn okkar er að ég komi með hóp frá Íslandi á næsta ári. „Við klæðumst öll bolum sem stendur á „Friðurinn byrjar hjá mér“ á þremur tungumálum og merkir að það sem ég geri hefur áhrif á aðra.“
Samfélagsþjónustulund Ítala
Eitt kvöldið voru leikir þar sem börn og fullorðnir sátu í hring og eitt barn var í miðjunni og algjör þögn ríkti. Einn og einn fór inn í hringinn og gerði eitthvað og gaf af sér þegar hann vildi. Lovísa lýsir því þegar einn strauk vanga, annar kyssti tær og allir sýndu hlýju, kærleika og auðmýkt í verki. „Sá sem tók við vissi aldrei hver gaf. Þetta var svo innileg stund og ólíkt t.d. okkur Íslendingum. Það var svo merkilegt að sjá að munaðarlausu börnin áttu auðveldara með að sýna hlýju en hin. Ein stúlka grét bara í klukkutíma á eftir. Hún hafði ekki fundið þess konar hlýju áður. Það snart mig mjög mikið,“ segir Lovísa, sem ætlar að vinna með skilaboð samtakanna í sínu starfi í vetur.
Mikil hlýja einkennir fólkið í sumarbúðunum.
„Ég er alin upp á Íslandi og hef aldrei komið nálægt sjálfboðaliðastarfi sem er svo fast í Ítölum og menningu þeirra. Þegar ég bjó á Ítalíu sá ég um vorhátíðina sem foreldri og fullorðnu konurnar sem eru hættar að vinna sjá um heimanám barnanna. Einnig fara tengdaforeldrar mínir fara tvisvar í viku og aðstoða eldri borgara því þau hafa sjálf heilsu til þess. Hluti af því að tilheyra samfélaginu er að gefa af sér til þess og telst sjálfsagt. Þetta vantar hér. Við gætum gert svo miklu meira ef við værum ekki alltaf að hugsa um hvað við fáum borgað fyrir það,“ segir Lovísa með áherslu.
VF/Olga Björt