Fríða lét Gróu á Leiti kjafta sig í kaf
Það má með sanni segja að árið 2009 hafi verið viðburðarríkt hjá Fríðu Dís Guðmundsdóttur, söngkonu hljómsveitarinnar Klassart.
„Ég endurheimti systur mína frá Ítalíu, flutti í nýja íbúð í Laugardalnum í Reykjavík og setti loks upp stúdentahúfuna,“ segir Fríða í samtali við Víkurfréttir. „Ég tók mér fjögurra mánaða áfengispásu á meðan ég lokaði mig af með námsbókunum, vinum mínum og hljómsveitinni til mikilla ama.
Gróa á Leiti var með það á hreinu að ég væri komin með barn í magann en hún var fljót að kjafta sig í kaf eftir að síðasta prófinu var náð enda haldið ærlega uppá það með viðeigandi hætti. Ekki má heldur gleyma því að við systkynin tókum upp plötu en útgáfan verður skrifuð á árið 2010, svo það telst ekki með“.
- Setur þú þér eitthvað áramótaheit?
„Ég set mér reglulega ný markmið og markmiðin fyrir þetta ár eru heldur há. Lífsreglur mínar hafa falist í því að gera það besta úr því hráefni sem er fyrir hendi hverju sinni en nú eru kröfurnar meiri og ákveðin kaflaskipti. Gæðin verða í fyrirrúmi. Hvað er betra en að gera það besta úr besta hráefni sem fyrirfinnst?,“ spyr Fríða Dís Guðmundsdóttir söngkona að endingu.