Freyr lét rauðu lokkana fjúka
-Tapaði veðmáli gegn leikmönnum 5. flokks
Fyrir þrjátíu árum birtist frétt í Víkurfréttum þar sem Freyr Sverrisson, sem þá þjálfaði 5. flokk kvenna í knattspyrnu í Keflavík, lét rauðu lokkana fjúka en hann var með rautt sítt hár á þeim tíma. Hann hafði lofað stúlkunum sem hann var að þjálfa, að þær fengu að klippa hár hans ef þær sigruðu í öllum leikjunum í fyrstu „turneringunni“. Það fór svo þannig að þær sigruðu í öllum leikjunum og því varð Freyr að standa við loforðið. Athöfnin fór fram við íþróttavallarhúsið í Keflavík. Stúlkurnar klipptu fyrst saman einn stóran lokk með garðklippum en síðan klippti hver og ein vænan lokk. Hann varð svo að fara í klippingu til að laga hárið eftir að stúlkurnar höfðu farið höndum um það.
Við athuguðum hvort Freyr gæti sagt okkur eitthvað frá þessu atviki sem kom fram í Víkurfréttum sumarið 1987 og hvað hann hefði verið að bralla síðustu þrjátíu ár.
Getur þú sagt okkur eitthvað frá þessu?
„Stelpurnar spurðu mig hvort ég vildi veðja hárinu ef þær ynnu mótið og ég lofaði því. Mátti vita að það gæti gerst þar sem í þessum hóp voru miklar íþrótta- og keppnismanneskjur. Ég þjálfaði þessar stelpur bæði í knattspyrnu og handbolta og urðu þær Íslandsmeistarar í báðum greinum.“
Ertu aftur komin með rauða lokka?
„Já, það vill svo til en ég þori varla að veðja hárinu aftur. Ég er hræddur um að það komi ekki aftur.“
Hvað hefur þú verið að gera síðustu þrjátíu ár?
„Rækta fjölskylduna og þjálfa knattspyrnu, fyrst hjá Keflavík og svo fór ég austur og var með meistaraflokk Hattar á Egilsstöðum í tvö ár ásamt yngri flokkum. Þaðan fór ég í yngri flokka Njarðvíkur, var landsliðsþjálfari U16 hjá KSÍ í 15 ár þar sem ég fór í gegnum 199 landsleiki víðs vegar um Evrópu og er nú hjá þjálfari hjá Haukum. Ég er svo heppinn að fá að vinna við áhugamálið og það hafa verið mikil forréttindi.“
Ertu hættur að leika trúð?
„Nei það geri ég sennilega aldrei, er alltaf að galdra og sprella eitthvað. Tobbi trúður verður alltaf á hliðarlínunni tilbúinn í slaginn.“
Er eitthvað sem þú vilt segja að lokum?
„Vísa eftir einn leikinn hjá mér;
Freyr fékk boltann á mikilli ferð.
og fagnaði glaður og feginn.
Hann skaut í hornið í skeytin efst
En skoraði vitlausu megin.“