Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Freyja í sínu allra besta formi
Fimmtudagur 30. október 2008 kl. 11:07

Freyja í sínu allra besta formi



Freyja Sigurðardóttir náði frábærum árangri á Norðurlandamótinu í Fitness í síðustu viku þegar hún náði öðru sætinu eftir mikla og tvísýna samkeppni um það fyrsta. Eftir samanburðinn var hún og Tea Havstein Erikssen frá Noregi jafnar að stigum í fyrsta sæti en svo fór að lokum að yfirdómari keppninnar dæmdi þeirri norsku fyrsta sætið.

„Ég frétti svo að Norski dómarinn hafi dregið mig niður fyrir að hafa verið of skorin, sem er afar leiðinlegt að heyra því þessar keppnir snúast um að vera sem mest fit og skorin. En alla vega er ég voðalega ánægð að hafa náð öðru sætinu, ekki síst í ljósi þess að ég á ellefu mánaða gamlan strák en næ samt að mæta enn betri til leiks nokkurn tímann áður. Ég er alltaf að læra eithvað nýtt,“ sagði Freyja í samtali við VF.


Veltir fyrir sér að hætta


Aðspurð um hvað sé framundan segir Freyja það alveg óvíst í augnablikinu.


„Ég veit ekki hvernig framhaldið verður, er að spá í að að taka langa pásu, jafnvel að hætta. Þetta sport er svo dýrt og tekur langan undirbúning. Allt fjölskyldulífið fer á bið á meðan ég er að skera niður fyrir mót,“ útskýrir hún.


Undirbúningur fyrir mót tekur eigi minna en tólf vikur í „niðurskurð“ með þar til gerðu mataræði sem felur ekki í sér hefðbundinn fjölskyldmat.


„Fyrir utan æfingar tvisvar sinnum á dag er ég svo að þjálfa á fullu þarna í Aalesund þar sem við búum, þannig að það er ekki mikill tími eftir fyrir fjölskylduna,“ segir Freyja.


„Þetta sport er svo sem ekki ókeypis, sérstakt mataræði í þrjá mánuði, fæðubótarefni, keppnisfatnaður og vinnutap því ég þarf að hafa tíma til að æfa sjálf tvisvar sinnum á dag. Síðan bætist við flugmiðar og ferðakostnaður. Þannig að ég held að þetta sé komið gott hjá mér í bili,“ segir Freyja sem viðurkennir að vera orðin svolítið þreytt á mataræðinu sem fylgir vaxtarræktinni og öllum þessum æfingum. Í bili að minnsta kosti.


„En ég hef haft rosalega gaman af þessu sporti annars væri ég ekki búin að vera að keppa í þessu öll þessi ár,“ bætir hún við brosandi.


Hefur það fínt í Noregi

Aðspurð um lífið í Noregi segir hún fjölskylduna hafa það fínt þar. Eiginmaðurinn Haraldur Guðmundsson, er atvinnumaður í knattspyrnu með Álasundsliðinu og æfir stíft með þeim. Eldri sonurinn, Jöklull Máni, er á leikskóla en sá yngri, Aron Freyr, fylgir móður sinni í æfingasalinn.


„Ég æfi á hverjum degi og auk þess að hafa nóg að gera sem einkaþjálfari. Aron Freyr litli fær að vera með mömmu sinni á æfingarstöðinni alla daga og svo er pabbi hans með hann eftir að fótboltaæfingum lýkur.  Þetta er voða mikil rútína alla daga eins og hjá öllum. Okkur líður voða vel þarna í Aalesund og langar alla vega ekkert heim, ekki á meðan ástandið er svona í þjóðfélaginu. En við söknum nú samt mikið fjölskyldna okkar og vina.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024