Fréttaskýring: Þar sem hjörtu skólanna slá
Að mati náms- og starfsráðgjafa í grunnskólum á Suðurnesjum hefur áhersla breyst á undanförnum áratug úr því að vera það sem lögverndað starfsheiti þeirra gefur til kynna yfir í viðtöl vegna líðan skólabarna.
Náms- og starfsráðgjafar sinna afar mikilvægu starfi í samfélagi okkar, meðal annars innan skólakerfisins. Með því að ræða við þá gefast tækifæri til að skoða og meta eigin stöðu, til dæmis áhuga og hæfni, átta sig á hvaða möguleikar eru í boði og gera áætlun um hvert skal stefna. Að mati náms- og starfsráðgjafa í grunnskólum á Suðurnesjum hefur áhersla breyst á undanförnum áratug úr því að vera það sem lögverndað starfsheiti þeirra gefur til kynna yfir í viðtöl vegna líðan skólabarna. Í sumum tilfellum hafa ofbeldismál á heimilum eða vitneskja um slæmt bakland komið fyrst í ljós í slíkum viðtölum.
Olga Björt hitti þau sem sinna þessu starfi í grunnskólunum og ræddi við þau um afar fjölbreytt verkefni sem þau fást við og það sem skiptir þau mestu máli, velferð barnanna. Fjallað verður um þetta á næstu vikum og nánar má lesa fréttaskýringu vikunnar á bls. 10 og 11 í nýjasta tölublaði Víkurfrétta.
Guðjón Sigbjörnsson í Njarðvíkurskóla:
Börnin endurspegla heimilin
„Ég fæst mikið við það sem tengist líðan nemenda; tilfnningaflækjur, kvíða og jafnvel þunglyndi. Ég finn fyrir auknum kvíða hjá börnum sem endurspegla heimili sín. Félagslegan vanda af einhverju tagi. Einnig koma til mín börn sem þurfa að spjalla um daginn og veginn og þurfa einhvern sem hlustar á þau,“ segir Guðjón Sigbjörnsson en hann er í 50% starfi sem námsráðgjafi við Njarðvíkurskóla. Guðjón er ekki menntaður sem slíkur en á að baki 40 ára reynslu sem kennari og umsjónarkennari. Hann segir starfið afskaplega fjölbreytt og viðfangsefni af öllum toga. Námsráðgjöf sé í raun ekki lengur rétta orðið yfir það sem fengist er við. Hún sé meira á vorin þegar elstu nemendur eru á leið í framhaldsskóla.
Svava Bogadóttir í Stóru-Vogaskóla:
Námsráðgjafar orðnir ómissandi
Svava Bogadóttir, skólastjóri Stóru-Vogaskóla, svaraði fyrir hönd skólans vegna þess að námsráðgjafi þeirra var nýbyrjaður. Hún segir að fráfarandi námsráðgjafi hafi verið með sjálfstyrkingarnámskeið fyrir nemendur og núverandi taki á móti þeim í sjálfstyrkingarviðtöl. Stundum sé um að ræða smávægileg mál þar sem börn til dæmis komi í byrjun dags og svo aftur í lok dags til að ræða hvernig gekk. „Þetta er svona lausnamiðað og námstengt. Börnin vilja fylgja hópnum en ráða stundum ekki við það.“
Ragnhildur L. Guðmundsdóttir, Grunnskólanum í Sandgerði:
Aðalþörf barnanna er öryggi
Ragnhildur L. Guðmundsdóttir lauk námi í náms- og starfsráðgjöf vorið 2010 en hafði unnið við ráðgjöf samhliða kennslu í nokkur ár á undan við Grunnskólann í Sandgerði. Hún starfar meira nú við námsráðgjöfina auk þess að kenna dönsku á unglingastigi.
Nemendur koma til hennar með milligöngu umsjónarkennara, skólastjórnenda og eða að beiðni forráðamanna eða nemendanna sjálfra. Hún segir starfið hafa breyst mikið síðustu misseri og vera meira tengt líðan, hegðun og starfskynningum. „Ég er meira með viðtöl vegna líðan nemenda en vegna náms- og starfsráðgjafar. Þau sem leita til mín eru yngri börn en áður þegar þetta var einungis bundið við unglingastigið.“
VF/Olga Björt