Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Frelsi að vita ekki hvaða dagur er
Laugardagur 11. mars 2017 kl. 09:00

Frelsi að vita ekki hvaða dagur er

-Ferðasaga Dagbjartar Kristínar Helgadóttur

„Þar sem það er enginn tími betri en nútíminn ákvað ég bara að skella mér,“ segir Dagbjört Kristín Helgadóttir, en hún fór ein til Indónesíu og Tælands og dvaldi í fjóra mánuði. „Mig langaði til þess að kynnast stöðunum betur og hafa nægan tíma til að upplifa meira en bara „túristadagana.“ Dagbjört hafði þremur árum áður farið í þriggja mánaða reisu og stoppað stutt við í mörgum löndum. Þessi tvö heilluðu mest. „Fyrir utan það augljósa, hvítu strendurnar, bláa sjóinn og sólina, er bara einhver yndisleg orka þarna sem ég elska. Fólk er almennt miklu afslappaðra heldur en það sem við í Vestrænum samfélögum erum vön, og glaðlyndara verð ég að segja - og það smitar svo fáránlega út frá sér!“ 

Dagbjört fluttist til Reykjanesbæjar á unglingsárunum og stundaði nám við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Hún fór einnig í Ljósmyndaskólann, en með í ferðalagið tók Dagbjört Canon 6D myndavélina sína og fangaði mörg augnablik dvalarinnar á filmu. Brot myndanna má sjá á Instagram síðu hennar „dagbjortkristin,“ en hún útilokar ekki að halda ljósmyndasýningu einn daginn. Hér deilir hún með okkur stuttri útgáfu ferðasögunnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Eftir 146 daga niðurtalningu, 31 klukkustunda ferðalag og milljón Bob Marley lögum seinna, var ég komin til Bali. Ég var með fiðring í maganum alla leiðina og fannst þessi hugmynd mín um að stinga af til Asíu bæði geggjuð og alveg galin. Þetta var í fyrsta skipti sem ég ferðaðist ein en það var eitthvað sem mér hafði alltaf fundist spennandi, það voru þó ekki allir sammála því og mamma spurði mig nánast á hverjum degi hvort ég vildi nú ekki bara spyrja á Facebook hvort einhver vildi fara með mér. Ég var dágóðan tíma að útskýra fyrir henni að ég vildi fara ein, vildi þurfa að redda mér sjálf, geta gert og farið þangað sem mig langaði hverju sinni án þess að vera háð einhverjum öðrum. Ég gleymi ekki fyrsta kvöldinu mínu á Bali, þreytt en himinlifandi var ég mætt á þetta gullfallega hótel umkringt balískum arkitektúr, trjám og blómum og spennufallið var svo mikið að ég gat ekki annað en kveikt á tónlist og dansað ein inn á herbergi - með engin plön, engan miða heim, bara bakpokann minn og opin hug og hjarta fyrir komandi ævintýrum!

Næstu vikur urðu allt öðruvísi en ég hafði ímyndað mér og milljónfalt betri en ég nokkurn tímann þorði að vona. Stór ástæða þess er eitthvað sem kom mér mjög á óvart: hostelheimurinn. Málið er að einhvern veginn hafði ég alltaf ímyndað mér hostel sem lítið, hvítt og kuldalegt herbergi sem innihélt ekkert nema vandræðalegt andrúmsloft því engin myndi þora að spyrja hvort það mætti kveikja ljósið eða klæða sig úr og í með 10 öðrum inn á herbergi. Kata, íslensk stelpa sem ég var nýbúin að kynnast, kynnti mig fyrir fyrsta hostelinu mínu. Fallegur gróður, tónlist, sundlaug, bananapönnukökur og flóran öll af bakpokaferðalöngum tóku á móti okkur og ég var fljót að átta mig á því að þetta var ekkert eins og ég hafði hugsað mér. Það voru allir svo opnir, almennilegir og tilbúnir til að kynnast manni en það er eitthvað sem mér fannst allra best við ferðalagið mitt.

Þarna var ég, umkringd frábæru fólki sem vildi deila ævintýraþorstanum með mér þar sem enginn dagur var eins. Við gengum upp fjall til að sjá sólarupprásina, gleymdum okkur á kaffihúsum, reyndum að surfa, fórum í bátsferðir, borðuðum endalaust af asískum mat og drukkum bjór á 150 krónur, dáðumst að sólsetrunum, spjölluðum og fengum innblástur frá heimafólki og knúsuðum kisur og hunda út um allt. Keyrðum um fjallgarða á scooter, fórum í nudd í rigningunni og uppáhaldið mitt: strandarveislur á kvöldin. Að dansa á tánum á ströndinni við 90's tónlist þar sem engin veit hvaða dagur er því það skipti ekki máli, er eitt það besta sem ég hef gert. Ég geri mér grein fyrir hversu dramatísk ég hljóma en ég get ekki mögulega útskýrt þetta öðruvísi því mér leið eins og ég væri að upplifa 100% frelsi í fyrsta skipti. Þarna fann ég ekki fyrir neinni samfélagslegri pressu um að passa inn í einhvern ákveðinn ramma og ég tók svo oft eftir að fólk spurði mig frekar hvað ég væri búin að sjá og upplifa í staðinn fyrir hvað ég væri að læra að vinna við – mér fannst það virkilega hressandi tilbreyting.

Tveimur mánuðum seinna ákvað ég að fara til Tælands. Mig langaði að prófa að gera eitthvað nýtt yfir jólin og áramótin, því eins mikið jólabarn og ég er, þá finnst mér orðin alltof mikil pressa og stress sem fylgir hátíðunum hérna heima. Ég var á litlum fallegum bæ í Norður Tælandi um jólin þar sem fórum í heita jarðlaug í frumskóginum yfir daginn, og um kvöldið var jólaveisla á hostelinu þar sem allir skreyttu sig með glimmeri, sátu við varðeld og spiluðu tónlist. Ég fékk og gaf engar gjafir, var skólaus allt kvöldið, borðaði núðlur í kvöldmatinn, endaði í rave partíi og hefði ekki viljað hafa það neitt öðruvísi – yndislegt.

Ég gæti skrifað margar blaðsíður um það sem ég gerði, upplifði og allt fólkið sem ég kynntist á þessum fjórum mánuðum en ég held ég muni aldrei ná að útskýra þessa ferð og hvað hún gerði mikið fyrir mig. Það gerist bara eitthvað magnað þegar maður er opin fyrir hlutunum, fyrir að kynnast nýju fólki, nýjum stöðum og nýrri reynslu. Ég hvet alla til þess að halda út í sitt eigið ævintýri og mögulega dansa smá á ströndinni, það er alltaf hægt að finna tíma og leið.“