Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Frekar maður samtals en átaka í pólitík
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
miðvikudaginn 15. apríl 2020 kl. 09:25

Frekar maður samtals en átaka í pólitík

Ólafur Þór Ólafsson er nýráðinn sveitarstjóri í Tálknafjarðarhreppi og tók við starfinu nú í byrjun apríl. Á sama tíma lét hann af störfum í bæjarstjórn Suðurnesjabæjar og sagði skilið við átján ára þátttöku í pólitísku starfi á Suðurnesjum, fyrst sem bæjarfulltrúi í Sandgerðisbæ og síðan í Suðurnesjabæ eftir sameiningu Garðs og Sandgerðis.

— Hvað kemur til að þú gerist sveitarstjóri á Tálknafirði?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kannski fyrst og fremst að mér bauðst það. Það gerðist þannig að það vantaði sveitarstjóra hér á Tálknafirði. Þau vissu að fjölskylda mín á rætur hingað á svæðið og höfðu samband við mig og spurðu hvort ég væri til í starfið. Ég, eftir að hafa verið að stússa í málum á Suðurnesjum mjög lengi hugsaði sem svo að þetta væri bara fínt tækifæri til að breyta til og hingað er ég kominn.

— Hvað getur þú sagt okkur um Tálknafjörð?

Þetta er með smærri sveitarfélögum á landinu, samt langt frá því að vera það smæsta. Þetta er líka með landminni sveitarfélögum á landinu en í staðinn með því fallegasta. Við eru hér á suðurfjörðum Vestfjarða umvafin fjöllum, fegurð og rósemd. Hér er gott að vera og maður finnur strax, og ég hef verið örfáa daga hér í nýju starfi, að takturinn slær örlítið hægar en við erum vön til dæmis á Suðurnesjum. Það er ekki sami asinn.

— Hvernig er það að slíta sig upp frá Suðurnesjum og flytja langt út á land?

Það er bara svolítið flókið svo ég viðurkenni það. Ég er búinn að byggja upp mitt líf á Suðurnesjum. Mínir vinur, fjölskylda, tengsl og störf hafa verið á því svæði síðustu tuttugu árin eða svo. Þetta er svolítið átak að færa sig hingað vestur en um leið spennandi. Þetta er gott samfélag sem ég er að koma inní. Þetta er meira spennandi en erfitt. Það er úrlausnarefni að flytja sig á milli. Þetta verður flókið fyrir börnin mín sem nú eiga heimili með mörg hundruð kílómetra bili á milli. Þessháttar hlutir er eitthvað sem við eigum eftir að skipuleggja betur. Óboðlegir vegir

— Þegar við heyrum talað um sunnanverða Vestfirði, þá detta manni alltaf í hug lélegir vegir.

Já, það er mjög vægt til orða tekið að þeir eru lélegir. Bæði vegirnir inni á svæðinu og vegirnir að svæðinu eru ekki boðlegir fyrir heilt landsvæði að búa við. Það er eitt af þeim verkefnum sem ég er að koma inn í að taka þann dans við ríkisvaldið að úr þessu sé bætt. Fólk sem hér býr á að geta búið við örugga tengingu við aðra landshluta.

— Hvernig sveitarfélag er Tálknafjarðarhreppur? Hvað er fólkið að fást við sem býr þarna?

Byggð við Tálknafjörð byggist að mestu á upp í tengslum útgerð og að einhverju leyti á landbúnaði. Á síðustu árum hefur fiskeldi skipt meira og meira máli og er núna aðal atvinnugreinin hér á Tálknafirði. Við erum með öflug fyrirtæki sem eru starfandi hér í þeim atvinnuvegi. Ferðaþjónustan hefur líka farið vaxandi hér á þessu svæði. Vestfirðir eru ein af þessum perlum sem fólk vill sækja en það er langt að komast hingað og fólk setur það stundum fyrir sig.

Ferðamannastraumurinn hingað er því ekki jafn mikill og á öðrum svæðum á landinu. Þó svo ég sé nýlega fluttur hingað, þá á ég ættir hingað á svæðið og hef komið hingað reglulega í mörg ár. Ég hef séð undanfarin ár hvernig ferðaþjónustan hefur byggst upp hér á svæðinu. En svo er það hér eins og annarsstaðar á landinu í því ástandi sem nú er að það er tvísýnt hvernig hlutirnir munu þróast.

— Það verða kannski bara Íslendingar á ferðinni í sumar?

Þegar Íslendingar fara á ferðina í sumar þá er þetta sannarlega svæði sem þeir eiga að hafa með á kortinu hjá sér. Góður sumardagur á þessu svæði er guðdómlegur. Hér á Tálknafirði er perla sem er tjaldsvæðið okkar. Það er gott að vera hér og hafa það sem miðpunkt þegar maður sækir í náttúruperlurnar sem eru hér í kring.

— Pollurinn er aðdráttarafl líka?

Já og það eru heimildir langt aftur í aldir að fólk hafi baðað sig á þessum stað og erlendir sæfarendur voru með þetta merkt inn á sjókortin sín til að koma hérna við og baða sig. Þetta er ein af þessum náttúrulaugum sem er alveg einstök og gaman að koma í.

Í pólitík fyrir slysni

— Förum átján ár aftur í tímann. Hvað varð til þess að þú fórst að fikta við pólitík?

Það var eiginlega bara pínulítið slys. Í fyrsta lagi þá hef ég alltaf haft áhuga á samfélaginu í kringum mig og lærði stjórnmálafræði í háskólanum og hafði velt þessum hlutum fyrir mér. Fyrir átján árum var ég ungur, þrítugur, fjölskyldufaðir í Sandgerði og í samtali við góðan vin minn, hann Halla Valla, þá varð til þessi hugmynd að það þyrfti nú að bjóða fram eitthvað nýtt og kröftugt framboð í sveitarfélaginu. Við fórum í gang með það og fyrsta hugmynd var nú ekkert að ég yrði í forystu fyrir það. Það fór samt þannig að ég tók að mér fyrsta sæti listans og ég endaði í bæjarstjórn út frá því. Þetta var ungt fólk sem vildi ferskleika inn í samfélagið sitt.

— Þú ert búinn að reyna allar hliðarnar, minnihluta, meirihluta og öll embættin?

Já, í rauninni. Ég hef verið mjög lánsamur með það og kannski hefði ég ekki enst svona lengi ef ekki hefið verið fyrir það að fyrsta kjörtímabilið var listinn minn með einn mann, var í minnihluta og sat fyrir utan allt. Svo kom kjörtímabil þar sem ég var oddviti minnihluta og sat í bæjarráði, þar kom ég meira að hlutum. Svo komu tvö kjörtímabil þar sem ég leiddi bæjarstjórnina og var forseti bæjarstjórnar. Svo varð til nýtt sveitarfélag og þá kom enn eitt verkefnið sem var spennandi og maður var ekki alveg tilbúinn að sleppa hendinni af. Ég fékk tækifæri til að vera formaður bæjarráðs í Suðurnesjabæ. Fyrir utan öll verkefnin sem maður hefur fengið að koma að sem tengjast Suðurnesjum sem svæði, samstarfi sveitarfélagann og fleiri aðila. Ég er ákaflega þakklátur og það er dýrmætt að hafa fengið þessi tækifæri.

Oddvitasætið alltaf á vaktinni

— Hver er munurinn á því að vera í stjórnmálum og sitja í minnihluta eða vera í meirihluta og ráða? Er mikill munur þarna á?

Það getur verið það, já. Svo ég segi alveg satt og rétt frá, þá fer það svolítið eftir hverjum og einum hvernig fólk nálgast verkefnið. Ég hef stundum sagt, að þegar þú ert minnihlutamanneskja þá getur fólk valið hvenær það er sterkt inni og hvenær það dregur sig aðeins til baka. Hvenær maður vill beita sér og hvenær maður lætur fara minna fyrir sér. Meirihlutamanneskjan, sérstaklega ef hún er í oddvitasæti, þarf alltaf að vera á vaktinni. Ég held að það sé af stórum hluta munurinn.

— Það er hægt að hafa áhrif þó þú sitjir í minnihluta.

Já, það er alveg hægt. Sem pólitíkus þá hef ég alltaf haft trú á samtali og að það sé hægt að finna lausnir sameiginlega. Ef þú myndir tala við fólk sem hefur unnið í kringum mig held ég að það myndi alveg staðfest það að ég er frekar maður samtals en átaka í pólitík. Mín reynsla er sú, ef þú situr í minnihluta, að það sé betri leið að til að hafa áhrif að taka þátt með samtali en að vera alltaf í hlutverkinu hrópandi, kallandi og þver í öllu sem er í gangi. Hins vegar getur sú aðferð, að vera alltaf harður í öllum málum og bóka mikið, verið ágæt til að vekja athygli á sér og vera á milli tannanna á fólki og í fréttunum. Stundum er sagt að vondar fréttir eru betri en engar fréttir. Fyrir stjórnmálamann, þá þarftu að vera á dagskránni, það þarf að vera umtal um þig ef þú ætlar að lifa og halda áfram. Aðferðin að vera með hávaða og læti er hins vegar ekki endilega best til að ná árangri í verkefnunum sem þú ert að sinna eða best fyrir samfélagið sem þú ert að vinna fyrir.

Að telja molana í kaffið

— Þú hefur upplifað erfiða tíma í pólitíkinni. Þið í Sandgerði þurftuð að standa í erfiðum málum um tíma.

Já og það var bara mjög þungt. Ég hef sagt það áður að þegar við tókum við nýr meirihluti með Sigrúnu Árnadóttur sem bæjarstjóra, að við gerðum okkur ekki grein fyrir því hversu þung staðan var fyrr en komið var fram á annað ár. Sem dæmi um hversu þung staðan var þá höfðum við ekki efni á því að endurnýja bíl fyrir áhaldahúsið okkar heldur þurftum að redda okkur gömlum skrjóði á afslætti til að bjarga málunum. Fólk sem hefur komið nálægt rekstri sveitarfélaga veit að þú átt ekki að vera í þeirri stöðu að þurfa að telja molana út í kaffið hjá fólki en við vorum í þeirri stöðu eins og mörg önnur sveitarfélög. Þetta var bara mjög erfitt. Það er erfitt að taka ákvarðanir sem valda því að fólk og jafnvel vinir manns eru að missa vinnuna og skerða lífskjör hjá fólki.

— Ykkur tókst að rétta úr kútnum.

Já, sem betur fer. Í fyrsta lagi held ég að við höfum verið staðföst. Í öðru lagi held ég að það hafi skipt máli að það voru allir með. Þetta var ekki bar einn maður eða ein bæjarstjórn að taka til. Það fór bara heilt samfélag í það að rétta skipið af. Það tókst. Hefðum við ekki farið þá leið, þá hefði það aldrei tekist. Hefði minnihlutafólkið sem var í Sandgerði 2010-14 tekið ákvörðun um að taka ekki þátt, heldur vera á móti, vera með slagsmálapólitík, þá hefði þetta aldrei gengið.

— Stjórnmálamenn sem fara í svona blóðugar aðgerðir eru ekki alltaf vinsælustu stjórnmálamennirnir þegar kemur að kosningum. Þetta hefur oft orðið mönnum að falli. En þú kost í gegnum þetta.

Ég fann alveg fyrir því þegar ég fór í kosningar árið 2014. Listinn minn fékk hreinan meirihluta 2010 en tapaði honum 2014 og ég fann alveg að við nutum ekki sama stuðnings og við höfðum notið áður, eðlilega. Samt nóg til þess að fólk treysti okkur til þess að halda áfram. Mér þótti vænt um það í þeim kosningum að finna að þó svo við hefðum verið í þessum erfiðu aðgerðum að samfélagið treysti okkur til að halda áfram að halda utanum verkefnið.

Suðurnesjabær kom undir í fyrirpartýi

— Sameingin Garðs og Sandgerðis. Hvað var hún búin að eiga sér langan aðdraganda?

Ég segi oft að þetta byrjaði, eins og mörg sambönd, í partýi. Einu sinni á ári fer fram aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Við höfðum tekið upp þann sið að bæjarstjórnirnar í Sandgerði og Garði hittust í litlu boði áður en farið var í stóra sameiginlega kvöldveislu með hinum sveitarstjórnunum. Í svoleiðis fyrirpartýi fór fólk eitthvað að tala saman að það væri skynsemi að skoða þetta. Í framhaldi af því voru það Garðmenn sem buðu í fyrsta spjallið. Þetta hefur verið kannski einu ári aður en þetta var tekið á alvarlegra stig. Í aðdraganda þessa voru sveitarfélögin búin að eiga í samstarfi um mörg verkefni og fólk í lykilstöðum hjá báðum sveitarfélögum var búið að vinna lengi saman og treysti hvort öðru og það leiddi til þess að þetta samtal fór af stað.

— Það var hrepparígur í gamla daga. Hann hefur ekkert verið upp á síðkastið?

Jú, og hann fer örugglega aldrei. Talaðu við harða Víðismenn eða harða Reynismenn og þú finnur þessa gömlu strauma. Ég held, almennt séð yfir línuna, þá er hrepparígurinn ekkert eins og hann var fyrir einhverjum árum eða áratugum. Fólk sér að það sem skiptir máli er að fólk búi í samfélagi þar sem er sterkt sveitarfélag sem getur veitt þá þjónustu sem þarf að veita með myndarlegum hætti. Það var það sem skipti máli í þessari sameiningu.

— Var þessi sameining gæfuspor?

Já, ég held það. Það er alltaf erfitt að gera svona breytingar og það koma upp allskonar hlutir, stórir og smáir, sem reyna á sérstaklega fyrstu árin. Ég held að til lengri tíma þá sé það ekki spurning að þú ert kominn með stærra sveitarfélag sem ræður við stærri verkefni, tala nú ekki um á þessum tímum sem við erum á í dag sem reyna mjög mikið á sveitarfélögin í að halda uppi þjónustu á sama tíma og tekjur munu skerðast. Þá verður kallað eftir því að sveitarfélögin framkvæmi meira en þau hafa verið að gera. Þá mun stærðin skipta máli. Fyrstu raunverulegu kosningarnar verða 2022

— Er það styrkleiki að þau framboð sem komu stærst út úr kosningum hafi endað saman í meirihlutasamstarfi?

Eftir á að hyggja þá var það eina skynsamlega í stöðunni að gera þetta þannig. Það hittir líka þannig á að við sem voru oddvitar í báðum sveitarfélögunum leiddum þessa lista og það kom ákveðið jafnvægi þar inn. Mér fannst kallað eftir þessu í umhverfinu eftir kosningar að þessir listar myndu vinna saman alla vega þessi fyrstu skref í lífi nýs sveitarfélags. Ég held að það hafi verið skynsemi að fara þá leið. Einhvern tímann heyrði ég þá kenningu að fyrstu raunverulegu kosningarnar í sameinuðu sveitarfélagi er ekki fyrr en kosningar númer tvö, þegar mörkin á milli byggðakjarnanna eru orðin óljósari. Fólk sem fylgdist með kosningum í Suðurnesjabæ 2018 sá það alveg að öll framboð voru að reyna að hafa jafnt í málefnum og fólki og að hvor byggðakjarni fengi sitt. Ég held að í næstu kosningum 2022 fari minna fyrir slíku og meira bara horft á málefnin. Það mun ekki skipta máli hvar fólk býr.

— Nú er bæjarráð Suðurnesjabæjar bara skipað Sandgerðinum. Pælduð þið eitthvað í því?

Ég veit að mörgum þótti það erfitt, sérstaklega Garðmegin. Hins vegar raðaðist pólitíkin í bæjarstjórninni þannig upp að svona var þetta gert, að Sandgerðingar komu inn í bæjarráðið. Ég leyfi mér að fullyrða að störf bæjarráðs hafa ekki litast af því. Ég held að þar hafi ekki hallað á annan byggðakjarnann frekar en hinn. Auðvelt með að vinna með fólki

— Núna sastu þinn síðasta bæjarstjórnarfund 1. apríl. Þú varst hlaðinn hrósi þegar þú varst að yfirgefa samkvæmið. Þau töluðu um að þú værir þægilegur stjórnmálamaður að vinna með.

Minn helsti styrkleiki er að eiga auðvelt með að vinna með fólki og að fólki þyki flestu þægilegt að vinna með mér. Mér þótti mjög vænt um þessa stund í bæjarstjórninni þó það hafi nú ekki verið ætlun mín að hætta til að fá svona dramatíska kveðjustund. Mér þótti vænt um að fá allar þessar kveðjur, bæði frá fólki sem ég hef unnið með lengi og í styttri tíma. Og að finna það sem maður hefur verið að gera í gegnum árin sé metið. Að finna fyrir svoleiðis straumum, það snertir fólk og það snerti mig. Þessi síðasti bæjarstjórnarfundur var skemmtileg stund.

— Það kom fram á fundinum að þú hafi alltaf mætt til funda með bindi, nema í eitt skipti.

Já, það var einn fundur sem ég klikkaði á.

— Hvað er málið með þetta bindi?

Fólk sem hefur verið í íþróttum tengir við þetta. Fyrir mig að setja upp bindi fyrir bæjarstjórnarfund er svona svipað og knattspyrnumaður sem setur á sig legghlífarnar. Bæði til að bera virðingu fyrir embættinu og að vera kjörinn fulltrúi sem er að fjalla um mál sem skipta samfélagið og fjölda fólks máli. Svo bara að setja sig í gírinn og vera rétt stemmdur þegar maður kemur inn til fundar. Í þessu starfi eins og öllu öðru, ef maður er ekki með einbeitinguna í lagi, þá tekur maður verri ákvarðanir. Það er mantra hjá mér að koma mér í rétt hugarástand fyrir fund að setja á mig bindið. Það er oft það síðasta sem ég geri áður en ég fer inn á fund. Pabbi minn kenndi mér að gera fallegan bindishnút og ég heiðra minningu föður míns með því að gera fallegan hnút á bindið fyrir fundi.

Erfitt að stökkva frá borði við þessar aðstæður

— Er ekkert erfitt að yfirgefa þennan völl á þessum tímum?

Jú, það er bara töluvert erfitt að stökkva frá borði þegar róðurinn er svona þungur eins og hann er núna. Ég hefði ekki valið þennan tíma ef maður hefði á einhvern hátt gera séð þetta fyrir. Það var bara búið að setja hlutina upp og ekki hjá því komist. Á móti kemur að ég kem líka inn í þessar aðstæður hér fyrir vestan þó þær birtist kannski ekki að öllu leiti eins. Samt er þessi róður þungur í samfélaginu hér á Vestfjörðum og ég kem inn í þau verkefni hér. Ég bý að því að hafa reynsluna af því sem hefur verið í gangi fyrir sunnan og að miðla því inn í starfið hér fyrir vestan á þessum erfiðu tímum sem eru núna.