FRANSKIR KOSSAR!
Frakklandsfélag Ungó skellti sér til Frakklands á dögunum, öllum ferðalöngunum til mikils yndisauka. Fyrstu fjóra dagana gistum við á litlu hóteli í París (þó sumir vildu kalla hótelherbergin kompu eða kústaskáp). Í París var allt geðveikt flott, og er það örugglega draumur okkar allra að búa þarna einhvern tímann (já strákar, þið voruð alveg jafn heillaðir og við stelpurnar). Við skoðuðum m.a. Eiffel turninn, Sigurbogann og Versali, sigldum á Signu, og svo borðuðum við á Planet Hollywood, Hard Rock, Pizza Hut, MacDonalds, MacDonalds, MacDonalds, MacDonalds..... En í París sáum við saklausu börnin ógnvænlega sýn, við sáum Nonna á nærbuxunum! (Þegar ég segi Nonni, þá á ég auðvitað við okkar ástkæra Jón Hilmars, forstöðumann Ungó). Og hann Nonni var ekkert að skafa utan af því, hann mætti á hverju kvöldi að reka okkur í rúmið og á hverjum morgni að vekja okkur, í bláu, níðþröngu SPANDEX - nærbuxunum sínum. Ég held að ég tali fyrir hönd okkar allra þegar ég segi að þessar nærbuxur séu það eftirminnilegasta úr ferðinni. Eftir þrjár nætur í París var okkur pakkað í rútu í fimm klst. og keyrt norður til Hem, þar sem hinir frönsku gestgjafar tóku á móti okkur. Var mikið um kossa, enda franskir og íslenskir unglingar að hittast á ný eftir nokkurra mánaða aðskilnað (jibbí!). Í Hem var fínt að vera, allir lentu á góðum heimilum (alls staðar voru klósett og sturta með heitu vatni), og mikið var gert á daginn okkur til skemmtunar. Má þar t.d. nefna verslunarferð til borgarinnar Lille, ferð í tvo skemmtigarða í Belgíu (ómægod -ógisslega gaman) og kanóaferð. Í kanóaferðinni eignaðist ungur snáði að nafni Bergsveinn marga óvini, því hann var svo sniðugur að hvolfa bátunum og henda fólki út í vatnið. Svo synti maður á eftir honum (í morðhugleiðingum) með kanóinn í eftirdragi fullan af vatni. Við lifðum þetta þó öll af (munaði litlu með Bergsvein), og hugguðum okkur við tilhugsunina um partýið sem halda átti um kvöldið. Já, Frakkarnir voru duglegir að halda partý, því fengum við að kynnast. Það var eitt við frönsku „partýin“ sem var öðruvísi en á Íslandi, hver einasti gestur kom með smá veitingar með sér. Það var t.d. kók, djús, popp, snakk eða nammi. Svo var þessu skellt á borð inni í stofu, svo krakkarnir gætu fengið sér hressingu á milli þess sem þeir dönsuðu við lög Britney Spears. En þessi partý voru ágæt (þrátt fyrir öðruvísi tónlistarsmekk Frakkanna), því þarna nældu sumir Íslendingar sér í franska elskhuga. Ég nefni engin nöfn (Katr.., Bergsve... ) Í Hem vorum við í sex daga. Þegar við fórum heim var okkur aftur pakkað í rútu í fimm klst. og keyrt til Parísar. Sumir Frakkar komu með okkur í rútuna og langleiðina inn í flugvélina, því þeir vildu ekki skilja við íslenska ástvini sína (Bergsve...,Katr.. ). ¡ flugvellinum grétu svo kærustupörin mikið, enda tveggja daga ástarsambandi að ljúka (snökt, snökt....). Þetta var skemmtileg ferð, sem hefði þó mátt innihalda færri hamborgara. Allir voru ánægðir að komast að lokum heim til Íslands að sofa. Fyrir höndFrakklandsfara 1999, Lórý BenjamínsdóttirFrakklandsfélagðið vill þakka þeim fjölmörgu aðilum, fyrirtækjum og stofnunum, þá sérstaklega MOA og Ungu fólki í Evrópu sem styrktu Frakklandsferðina að þessu sinni.Þess má geta að í lok ágúst kemur til okkar stór hópur franskra unglinga og erum við þessa dagana að finna heimili fyrir þau. Þeir unglingar sem eru að fara í 9. eða 10. bekk í Reykjanesbæ, skiptir ekki máli í hvaða skóla viðkomandi er að fara í, og hafa áhuga á því að starfa í Frakklandsfélaginu næsta árið þá endilega hafið samband við Nonna sem fyrst í síma 421-4222 eða 897-5254. P.s. þetta voru venjulegar boxernærbuxur, ekki Spandex, og þetta gerðist bara einn morgun.Fyrir hönd félags-miðstöðvarinnar UngóJón Rúnar Hilmarsson,forstöðumaður