Framundan: Þrjár bæjarhátíðir á Suðurnesjum
Fjölskyldudagurinn í Vogum 9.ágúst
Fjölskyldudagur verður haldinn í Vogum 9.ágúst. Auglýst er á vef sveitarfélagsins eftir þátttöku bæjarbúa í dagskránni.
Fjölskyldudagurinn er hátíð þar sem allir eiga að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Á dagskránni verður meðal annars Knattspyrnuleikur milli þróttar vogum og Lions, paintball, hverfagrill og hverfaleikar, flugeldasýning, G-plús, ratleikur, fjársjóðsleit, hoppkastalar, flugdrekafjör, myndlistasýning, listflugmaður og sápufótbolti.
Eurobandið spilar svo fyrir gesti og gangandi.
Kassabílarall er fastur liður á Fjölskyldudaginn og eru börn og unglingar í Vogunum farin að smíða flottustu og hraðskreiðustu kassabíla bæjarins.
Handverksmarkaður Fjölskyldudagsins verður í tjöldum í Aragerði og þeir Vogabúar sem áhuga hafa á að selja eða sýna handverk þurfa að panta pláss.
Nánar á heimasíðu sveitarfélagsins.
Undirbúningur Sandgerðisdaga er kominn á fulla ferð og ljóst að mikið verður um dýrðir á Sandgerðisdögum. Á heimasíðu hátíðarinnar vill ferða- og menningarráð minna á að dagarnir eru hátíð bæjarbúa og hvetur fólk í bænum til þátttöku.
Þeir Sandgerðingar sem luma á hugmynd eða eru með skemmtiatriði eru hvattir til að hafa samband við Ferða- og menningarráð Sandgerðisbæjar á netfangið [email protected]
Menningar-, og fjölskylduhátíðin Ljósanótt í Reykjanesbæ verður haldin hátíðleg í 9. sinn dagana 4. - 7. september 2008.
Dagskráin þessa hátíðardaga verður fjölbreytt að vanda og sniðin að þörfum allrar fjölskyldunnar.
Menningarsvið Reykjanesbæjar hefur umsjón með hátíðinni en starfsmaður þess er Valgerður Guðmundsdóttir menningarfulltrúi.
Ljósanæturnefnd hefur umsjón með framkvæmd og dagskrá hátíðarinnar en verkefnastjóri er Ásmundur Friðriksson.
Með ljósanæturnefnd starfar öryggisráð en í því eiga sæti fulltrúar lögreglu, björgunarsveitarinnar, fjölskyldu- og félagsþjónustu og fl. Hlutverk þess er skipulagning eftirlits, lokanir gatna, bílastæði og fl.