FRAMTÍÐARLEIÐTOGAR Í MÓTUN
Keflavíkurmærin Bryndís Jóna Magnúsdóttir hefur verið valin f.h. Fjölbrautarskóla Suðurnesja til að verða ein 5 íslenskra ungmenna á ráðstefnu ungra leiðtoga á heimsvísu (Global Young Leaders Conference) sem hefst í Washington D.C í Bandaríkjunum 28. júni nk.Bryndís, sem er 18 ára nemi á Félagsfræðibraut F.S, sagðist í viðtali við VF helst hafa haldið að hún hefði nú gert eitthvað af sér þegar Ólafur Jón, skólameistari, kom í heimsókn í kennslustofuna og tilkynnti henni að hún hefði verið valin til þátttöku á ofangreindri ráðstefnu. „Þegar skólameistari kemur í miðri kennslustund og vill hafa tal af manni er fyrsta hugsunum „Hvað hef ég nú gert af mér“ svo það var ánægjuleg tilbreyting að fá góðar fréttir á slíkri stundu.“Á hvers vegum er þessi ráðstefna og um hvað fjallar hún?„Samtökin Congressional Youth Leadership Counsil standa fyrir ráðstefnunni en þau voru stofnuð1985 og eru með bækistöðvar í höfuðborg Bandaríkjanna, Washington D.C. Markmið samtakanna er að veita útvöldum ungmennum betri innsýn í hlutverk þeirra í mótun framtíðarinnar og að hlúa að leiðtogahæfileikum þeirra. Áherslan eru öll á heimsmálefni, efnahagsmál, alþjóðasamskipti, lög og mannréttindi, utanríkisstefnur þjóðanna, frið og öryggi. Þátttakendur eru 350 frá 30 löndum, bandarískir að meirihluta og verður þeim skipt niður í hópa sem fá ýmis verkefni til úrlausnar. Þá hefur okkur verið uppálagt að taka til nánari athugunar einhvern leiðtoga og kynna störf hans á þinginu. Ég hef hugsað mér að fjalla um sjálfstæðisbaráttumann okkar Íslendinga, Jón Sigurðsson, en ég dáist að verkum hans og dugnaði.“Hverjir eru samkvæmt þessu framtíðarleiðtogar Íslendinga?„Það vill svo til að hópurinn samanstendur af 4 stúlkum og einum pilti. Ég kem frá F.S, stúlkur frá Kvennaskólanum í Reykjavík, Flensborg og Borgarholtsskóla en strákurinn kemur frá Verslunarskóla Íslands.“Nú er þetta mikið ferðalag og eflaust ekki ókeypis. Borga samtökin fyrir öll herlegheitin?„Ekki er það svo gott. Allt batteríið kostar hvern og einn svona um 200 þúsund. Bandaríkjamenn eru að auki afar formlegir svo þarna verða allir uppstrílaðir í drögtum, kjólum og jakkafötum. Bæði menntamála- og utanríkisráðuneytið hafa stutt við bakið á okkur en betur má ef duga skal og leita ég enn, með aðstoð Ólafs skólameistara, frekari styrkveitinga.“Nú hlýtur svona útnefning að ýta aðeins á sjálfsálitið. Sérðu sjálfan þig sem næsta leiðtoga hins frjálsa heims?„Mér finnst mikill heiður að fá að taka þátt í þessu verkefni. Ráðstefnan er mjög vegleg og eftir 5 daga í Washington verður haldið til New York þar sem alþjóðabankinn, Sameinuðu Þjóðirnar og Wall Street verða heimsótt og fyrirlestrar haldnir. Eflaust verða á þessari ráðstefnu einhverjir sem segjast stefna að því að verða forsetar Bandaríkjanna, þannig er það bara í þessu mikla forsetaveldi. Sjálf verð ég að segja að þetta er tvímælalaust fínn pappír í reynslumöppuna. Markmiðið hjá mér er fyrst og fremst að klára félagsfræðibrautina frá FS og fara síðan í háskólanám í fjölmiðlafræði, helst á Englandi.“ Hvers vegna á Englandi?„Unnusti minn, Jóhann B. Guðmundsson, er knattspyrnumaður hjá Watford á Englandi. Það er draumurinn að geta farið og lært hjá honum í Englandi.“