„Framlengingin með Jonna og Fannari er algjör veisla“
Marinó Oddur Bjarnason er Sandgerðingur í húð og hár en er búsettur í Garðinum ásamt kærustu sinni og 8 mánaða dóttur. Hann starfar sem leiðbeinandi á leikskólanum Gefnarborg í Garði og einnig sem liðveitandi. Marinó þjálfar 8. flokk Reynis/Víðis í fótbolta og hefur gaman af íþróttum og hestamennsku og finnst fátt skemmtilegra en að fara í laxveiði með góðum vinum.
Bókin: Ég gef mér allt of lítinn tíma til að setjast niður með góða bók, en mín besta bók er klárlega I am Zlatan Ibrahimovic. Það ættu allir að lesa um þennan mikla meistara sem Zlatan er, bæði innan vallar sem utan. 10.10.10 bókin hans Loga Geirs klikkar ekki en næsta bók sem ég ætla að lesa verður Þverá & Kjarrá eftir Guðmund Guðjónsson.
Tónlistin: Ég er alæta á tónlist en þessa stundina er Úlfur Úlfur að „kikka“ vel inn. Annars get ég hlustað á allt. Ef það eru tónleikar sem tengjast Rúnari Júl er ég alltaf mættur. Hvað erlenda tónlist varðar þá eru Sam Smith og John Legend málið.
Þættirnir: Ég gef mér ekki mikinn tíma til að horfa á þætti en Messan og Körfuboltakvöld eru þeir þættir sem ég gef mér tíma til þess að horfa á. „Framlengingin“ í Körfuboltakvöldum þegar Jonni og Fannar eru í settinu er algjör veisla!