Framleiðandi á framabraut
Keflvíkingurinn Rebekka Bryndís starfar fyrir New York City balletinn
Rebekka Bryndís Björnsdóttir, framleiðandi og tónlistarkona, hefur hreiðrað um sig í New York borg, þar sem hún starfar fyrir hinn virta New York City Ballett. Hún hefur víða komið við þrátt fyrir ungan aldur en Keflvíkingurinn gerði m.a. garðinn frægan með hljómsveitinni Hjaltalín. Hún álpaðist síðar út í kvikmyndabransann sem hefur nú borið hana á fjörur bandarísku stórborgarinnar.
Starf Rebekku felst í því að hún sér um að framleiða öll myndbönd sem gerð eru fyrir New York City ballettinn. Hún er svokallaður „media producer“ hjá ballettinum; allt frá auglýsingum til heimildarmynda. Starfið felur margt í sér enda er um stóra yfirbyggingu að ræða hjá ballettinum. Alls starfa tæplega 350 þar og annað eins af sjálfboðaliðum. Rebekka viðurkennir alveg að það sé óneitanlega sérstakt að ung stelpa frá Íslandi hafi fengið þessa eftirsóknarverðu stöðu. Satt best að segja kom það henni á óvart „Ég var alveg rosalega stressuð af því að mig langaði svo mikið í þessa vinnu. Ég var alveg viss um að ég myndi „jinxa“ þetta með því að langa of mikið,“ segir Rebekka, en að lokum gekk allt eins og í sögu. Rebekka segir að tónlistargrunnur hennar hafi spilað stóra rullu í því að hún fékk starfið en hún er með framhaldspróf á fagott. „Ég vil meina að allt sem ég hef lært í gegnum tíðina sé að gagnast mér í þessu öllu saman. Hvort sem það er tónlistin, kvikmyndagerð eða Hússtjórnarskólinn,“ segir Rebekka og hlær dátt.
Rebekka starfar við hitt fræga Lincoln-torg, þar sem ballettinn, óperan og philharmonia borgarinnar starfa. „Það er mjög gaman að fara þangað á hverjum degi,“ segir Rebekka sem er að fást við fast starf í fyrsta skipti í langan tíma. Hún hefur hingað til verið meira og minna sjálfstætt starfandi í fjölbreyttum verkefnum sem snúa að kvikmyndagerð. Hún tekur ennþá að sér hliðarverkefni en nýlega framleiddi hún m.a. tónlistarmyndband og stuttmynd. „Það getur verið frekar erfitt að vinna svona verkefni samhliða annarri vinnu en stundum gefst tími,“ segir hún, hógværðin uppmáluð.
Það er ekki hlaupið að því að útskýra í hverju starf framleiðanda felst. Rebekka sér um hina ýmsu hluti og heldur að mörgu leyti verkefnunum saman. Hún þarf að finna fjármagn fyrir verkefni sem eiga að vera framleidd. Hún þarf að sjá um að ráða allt starfsliðið, þar með talinn leikstjóra. Hún þarf að búa til plön og sjá til þess að allt sé á áætlun, bæði þegar kemur að tökum myndarinnar og eftirvinnslu. „Ég er í raun tengiliður á milli allra þátta þeirra verkefna sem ég kem að og hef yfirumsjón með þeim,“ segir framleiðandinn.
Frá Hússtjórnarskólanum í Hjaltalín
Rebekka lærði á fagott í æsku og er óhætt að segja að tónlist hafi verið stór hluti af hennar lífi. Rebekka hóf tónlistarferilinn í Reykjanesbæ með ekki ómerkari mönnum en m.a. Valdimar Guðmundssyni og Ásgeiri Aðalsteinssyni úr hljómsveitinni Valdimar, en þau voru saman í sveitinni Steng þar sem Rebekka lék á bassa. „Það fór ekki almennilega á flug en við spiluðum þónokkuð í heimabænum. Við vorum dugleg að semja tónlist og hittast og spila,“ en að sögn Rebekku fóru aðilar hljómsveitarinnar flestir í sína hverja áttina. Fljótlega eftir það kom upp tækifæri til þess að spila með Hjaltalín. Rebekka hafði þá flutt sig um set og hreiðrað um sig í höfuðborginni þar sem hún lagði stund á nám í Hússtjórnarskólanum, sem henni þykir mjög vænt um. „Amma bauð mér, sem ég þáði náttúrulega. Það er algjör snilldarskóli sem ég myndi hiklaust mæla með fyrir alla,“ segir Rebekka.
Hljómsveitin Hjaltalín
Hún gekk til liðs við hljómsveitina landsfrægu árið 2006. Hún segir sjálf að það hafi í raun gerst fyrir algjöra tilviljun. Hljómsveitin var að fara að spila í Kastljósinu og langaði að notast við faggottleikara í nýju lagi. Guðmundur Óskar Guðmundsson, Njarðvíkingurinn í Hjaltalín, hugsaði til Rebekku, en Gróu móðir hans og Karen móðir Rebekku er vel til vina. „Það var bara hringt heim á Smáratúnið og spurt eftir mér,“ segir Rebekka og hlær. Hún spilaði með hljómsveitinni í Kastljósi og var eftir það boðið inn í sveitina, sem hún þáði með þökkum. Hún hefur ekkert sérstaklega hugsað um að hætta að spila með hljómsveitinni en hefur lítið komist í að spila á fagottið sökum anna. Hún segist þó sakna þess að spila og leitar nú að samspili í New York borg.
Ferðalögin verða þreytandi til lengdar
Með Hjaltalín ferðaðist Rebekka víða og fékk að kynnast því lífi sem tilheyrir tónleikaferðalögum. „Það er ógeðslega gaman en tekur líka mjög mikið á. Ég er mjög ánægð með að hafa kynnst þessari reynslu og þykir mjög vænt um þennan tíma í mínu lífi.“ Tónlistin tekur sinn toll en Rebekka rifjar upp ferðalögin sem snerust að miklu leyti um endurtekningar. „Maður getur orðið langþreyttur á þeirri rútínu sem snýst um að mæta í nýja borg, sándtékka, borða, spila, djamma og sofa, oft í rútu. Daginn eftir endurtekur maður svo rútínuna. Þetta hljómar alveg næs en verður þreytt til lengdar. Ég held að maður þurfi alveg smá rætur, eitthvað sem maður kallar heimili,“ segir Rebekka.
Talandi um heimili, New York borg hefur verið heimili Rebekku undanfarin tvö ár en hún segist kunna rosalega vel við sig í þessari hringiðu lista og menningar í Bandaríkjunum. Hún hefur ekki alveg ákveðið hvort eða hvenær hún haldi heim til Íslands. „Mér líður vel hérna en hugsanlega kemur að því að ég haldi heim,“ segir Rebekka en unnusti hennar er Bandaríkjamaður. Hann kann afar vel við sig á Íslandi og er opinn fyrir því að flytja þangað. Rebekka býr í Willamsburg í Brooklyn hverfi í borginni líflegu, ásamt kærasta sínum, en þau skötuhjú trúlofuðu sig nýlega.
Slysaðist inn í kvikmyndabransann
Rebekka segir að áhuginn á kvikmyndagerð hafi alltaf verið til staðar hjá henni. „Ég var alltaf að vesenast eitthvað með vídeókameru, en ég tók því svosem ekki af alvöru fyrr en ég fór eina önn í Kvikmyndaskóla Íslands.“ Hún hugaði svo að tónlistinni í góðan tíma en þannig fékk hún einmitt tækifæri til þess að láta ljós sitt skína. Hún kynntist aðstoðarleikstjóranum Hörpu Elísu Þórsdóttur, sem vann að tónlistarmyndbandi fyrir Hjaltalín. „Hún leiddi mig inn í íslenska kvikmyndaheiminn og ég fór að vinna mikið með henni sem annar aðstoðarleikstjóri. Það hentaði mjög vel að túra og taka svo verkefni inn á milli, en lokum fór það svo að kvikmyndagerðin tók yfir,“ segir Rebekka og hlær.
Rebekka er búin að vinna mikið í bransanum hérna heima en m.a. hefur hún komið að vinnslu þátta á borð við Hlemmavídeó, Heimsenda og Pressu. Hún vann að kvikmyndinni Málmhaus og einnig að stórmyndinni The Secret Life of Walter Mitty með Ben Stiller. Þar kynntist hún fullt af fólki frá New York sem gerði henni kleift að byrja að vinna um leið og hún fluttist út. „Eftir að ég kom út hefur gengið mjög vel en þetta getur verið rosalega erfiður bransi. Þetta getur verið svo misjafnt bara eftir því sem fólk sækist eftir. Ef maður vinnur samviskusamlega og skilar sínu þá spyrst það út, þannig hef ég fengið vinnu við ýmis verkefni, eftir meðmæli frá öðrum,“ segir Rebekka að lokum.
Hljómsveitin Streng, þar sem ýmsir góðir tónlistarmenn stigu sín fyrstu skref.