Mannlíf

Framleiða 10-13 tonn á viku
Halldór Óskar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Stolt Sea Farm. VF-myndir Hilmar Bragi.
Mánudagur 20. október 2014 kl. 09:30

Framleiða 10-13 tonn á viku

– Matfiskeldi hjá Stolt Sea Farm á Reykjanesi komið vel á veg.

Á undanförnum misserum hefur bygging stærstu fiskeldisstöðvar heims á landi staðið yfir í hrauninu við Reykjanesvirkjun. Þar hafa í dag risið mannvirki á 22.000 fermetrum þar sem gert er ráð fyrir að framleiða 580-590 tonn af senegalflúru á næsta ári. Nú þegar eru í stöðinni um 80 tonn af þessum flatfiski sem líkist mjög sólkola. Víkurfréttir tóku hús á Stolt Sea Farm á Reykjanesi á dögunum og ræddu við Halldór Óskar Sigurðsson framkvæmdastjóra fyrirtækisins.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024



Stolt Sea Farm á Reykjanesi fær sendingu af seiðum einu sinni í mánuði frá höfuðstöðvum fyrirtækisins á Spáni. Þaðan koma sérhönnuð fiskker með um 230.000 seiðum í hvert skipti. Seiðin fara í eldisker í móttöku fyrirtækisins og síðan eru þau færð á milli eldiskerja á meðan þau vaxa en vaxtarferli senegalflúrunnar er þrettán mánuðir. Eldið fer allt fram innanhúss í fjölda kerja þar sem hitastigið á vatninu er 20-21 gráða. Senegalflúran er svo alin upp í markaðsstærð sem er 400 til 450 grömm.



Í dag starfa 16 manns hjá Stolt Sea Farm en verða 20 manns í áfanga eitt. Starfsmenn verða svo 60-70 þegar stöðin hefur náð fullri stærð en miðað er við að fiskeldisstöð Stolt Sea Farm á Reykjanesi verði fullbyggð árið 2018. Þá verður framleiðslan jafnframt orðin 2000 tonn á ári.

– Hvernig kemur það til að það er farið að ala senegalflúru hér á Reykjanesi?
„Þetta miðast mikið við aðgang að heitu og volgu vatni. Einnig skiptir ímyndin miklu máli; íslensk ímynd í markaðsetningu. Við keyrum inn á það líka. Flutningskostnaður er einnig minni héðan inn á Bandaríkjamarkað. Stolt Sea Fram er með aðra senegalflúru-eldisstöð í Frakklandi. Þaðan er flutningskostnaður meiri á milli markaða“.

– Þetta er gríðarlegt magn af mannvirkjum hér á Reykjanesi og þið eruð rétt að byrja.
„Já, við köllum þetta alltaf fyrsta áfanga og hann er 22 þúsund fermetrar, en þetta endar í 70 þúsund fermetrum og verður því heilmikið mannvirki“.

– Og eldið er allt saman undir þaki?
„Fiskeldið er allt undir þaki og vinnuaðstaðan þannig miklu betri. Það verður líka að vera því þetta er hlýsjávarfiskur og það verður að viðhalda þessu kjörhitastigi sem er 20-21 gráða í heildina. Við horfum á það sem okkar styrkleika“.
Fyrsta slátrun verður í janúar á næsta ári og þá verður fiskurinn kominn í hefðbundna markaðsstærð. „Svo höldum við áfram með 10-13 tonn á viku og svo fer þetta hratt vaxandi eftir það“.

– Hvað er það sem stjórnar markaðsstærðinni, 400-450 grömmum?
„Það er dálítið merkilegt. Það er miðað við að senegalflúran passi á diskinn á veitingastöðunum en kosturinn við eldisfisk er að það er hægt að panta ákveðnar stærðir þó að diskarnir séu misjafnlega stórir. Kúnnarnir geta valið þessar stærðir, 300, 400 eða 500 grömm. Það fer allt eftir þörfum þeirra“.

– Hvernig skilið þið þessum fiski frá ykkur? Hvernig er hann unninn?
„Hann er settur beint í ker og kældur og sendur í AG Seafood í Sandgerði og þar fer fiskurinn í frauðkassa og í gám og í flug“. Senegalflúran fer helst á Benelúxlöndin og á Frakkland, Bretland og til Suður-Evrópu. „Þar eru stærstu markaðirnir okkar og svo fer eitthvað líka inn á Bandaríkin, væntanlega mest þá í flugi“.

– Við þekkjum það úr fiskvinnslunni að það þarf að blóðga og slægja. Það þarf þó ekki í þessari framleiðslu?
„Nei, við erum alveg laus við það en fyrir vikið þurfum við að svelta fiskinn í tvo sólarhringa fyrir pökkunina. Maginn í þessum fiski er reyndar mjög lítill og það tekur frekar stuttan tíma að tæma magann. En ferskleikinn verður miklu betri með þessari aðferð“.

– Staðsetning stöðvarinnar á Reykjanesi skiptir miklu máli fyrir ykkur.
„Já, hún skiptir gríðarmiklu máli. Við erum mjög nálægt HS orku, þaðan sem við nýtum affallsvatnið. Hitastigið þaðan eru 35 gráður og kjörhitastigið inn í eldinu eru 21-22 gráður. Við getum kælt þetta niður til þess að nýta sjóinn sem við notum úr okkar eigin borholum og þannig næst kjörhitastigið. Það er nóg framboð af vatni og þetta er gæðavatn líka sem er gott fyrir ímyndina sjálfa líka“.
Halldór segir að þrátt fyrir að fiskeldisstöðin sé ekki í alfaraleið þá hafi gengið vel að fá starfsfólk. „Við höfum fengið alveg rosalega góðan hóp af fólki og ég hef fulla trú á því að um leið og við stækkum þá bætum við við fólki og fáum góða umsækjendur“.

– Hefur eitthvað komið ykkur á óvart í eldinu?
„Mín reynsla er ekki mikil í fiskeldi. Maður reiknar alltaf með einhverjum kúrfum í þessum rekstri en það hefur ekkert verið, sem betur fer. Við höfum líka fullan aðgang að sérfræðingum Stolt Sea Farm að utan sem hafa mikið liðsinnt okkur í gegnum þetta. Það hefur ekkert neikvætt komið upp á“.

– Er fiskurinn kannski farinn að vaxa hraðan hér en þið þekkið að utan?
„Já, kúrfurnar sína það og við getum gert enn betur þar sem starfsfólkið er nýtt hérna og hér á eftir að skapast mikil reynsla“.


Fiskeldið á Reykjanesi fer allt fram innanhúss.


Senegalflúra hjá Stolt Sea Farm á Reykjanesi.


Senegalflúran er ekki ósvipuð sólkola.