Framhaldsprófstónleikar Rúnars Þórs eftir viku
Mánudaginn 26. maí næstkomandi klukkan 20.00 mun Rúnar Þór Guðmundsson, tenor, halda framhaldsprófstónleika sína í Bíósal Duus-húsa. Á efnisskránni verða meðal annars sönglög og aríur eftir Puccini, Bizet og Sigvalda Kaldalóns. Meðelikari á píanó verður Anna Málfríður Sigurðardóttir.
Rúnar hóf ungur tónlistarnám við Tónlistarskólann í Keflavík á trompet, klassískan gítar og slagverk. Hann var einnig meðlimur í lúðrasveit og léttsveit Tónlistaskólans í Keflavík um nokkurt skeið. Árið 1999 hóf hann söngnám við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar undir leiðsögn Sigurðar Sævarssonar auk þess sem hann var meðlimur í Karlakór Keflavíkur.
Frá 2001 til 2005 stundaði Rúnar söngnám við Söngskólann í Reykjavík og Söngskóla Sigurðar Demetz þar sem aðal kennarar hans voru Guðmundur Jónsson, Sigurður Demetz og Gunnar Guðbjörnsson. Frá árinu 2006 hefur Rúnar verið nemandi Guðbjörns Guðbjörnssonar við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.
Rúnar söng aðalhlutverk í óperustudíói Íslensku óperunnar 2006 og 2007 í Nótt í Feneyjum og Gianni Schicchi auk þess sem hann hefur komið fram á tónleikum á vegum Íslensku Óperunnar undir nafninu “Efnilegustu Raddir Íslands”. Rúnar hefur einnig verið í einkatímum og masterclass hjá Anton Steingruber, David Bartlet og Kristjáni Jóhannssyni. Í desember 2007 söng Rúnar á nemendatónleikum í Bústaðakirkju þar sem fram komu nemendur Kristjáns Jóhannssonar. Rúnar stefnir á framhaldsnám á Ítalíu.