Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Framhaldsprófstónleikar frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar
Mánudagur 7. maí 2007 kl. 10:02

Framhaldsprófstónleikar frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar

Rebekka Bryndís Björnsdóttir, fagottnemandi, heldur framhaldsprófstónleika sína nk. fimmtudag, þann 10. maí, kl. 20.00 í Bíósal Duus-húsa í Reykjanesbæ.

Rebekka Bryndís Björnsdóttir er fædd árið 1985. Hún hóf ung tónlistarnám í forskóla Tónlistarskólans í Keflavík og stundaði síðan píanónám og sellónám við sama skóla. Rebekka hélt áfram sellónámi í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar við stofnun hans haustið 1999, en hóf þá jafnframt nám á fagott. Ári síðar hætti hún formlegu námi á sellóið en sneri sér að raf-bassa sem aukahljóðfæri, en nám á bassann hefur hún stundað meðfram fagottnáminu alla tíð síðan. Rebekka hélt þó áfram að leika á selló og lék  með strengjasveit skólans í nokkur ár.

Rebekka hefur í gegn um tíðina leikið með ýmsum hljómsveitum og hópum innan Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, m.a. með lúðrasveit og léttsveit skólans á fagott og rafbassa og tekið þátt í fjölda tónleika og tónleikaferða með þeim, leikið með jass- og rokksamspilum, með tónsmíða- og Tónversnemendum og á selló með strengjasveit skólans eins og fyrr segir.

Rebekka hefur verið mjög ötull og virkur nemandi og við skólaslit skólans vorið 2006, varð hún fyrst nemenda til að hljóta hvatningarverðlaun Glitnis-banka, en hvatningar-verðlaunin er samstarfsverkefni Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Glitnis-banka í Reykjanesbæ.

Fljótlega eftir að Rebekka hóf nám á fagott, varð hún virkur þátttakandi í tónlistarlífinu og á námstímanum hefur hún komið fram á fjölda tónleika, meðal annars með Sinfóníuhljómsveit tónlistarskólanna, Sinfóníuhljómsveit áhugamanna, Sinfóníuhljómsveit unga fólksins, Blásarasveit Reykjavíkur, Hljómsveit Tónlistarskólans í Reykjavík, innan Listaháskóla Íslands og verið fagottleikari í hljómsveit Óperustúdíós Íslensku Óperunnar. Sumarið 2005 fór hún í tónleikaferðalag með New England Youth Ensemble til Bandaríkjanna, Englands og Afríku.

Rebekka hefur sótt nokkur námskeið, m.a. Interlochen Arts Camp í Michigan í Bandaríkjunum. Hún er meðlimur hljómsveitarinnar Hjaltalín, sem kemur fram með Rebekku á framhaldsprófstónleikunum.

Rebekka var fyrsti nemandinn á Íslandi sem tók miðpróf á fagott og sömuleiðis er hún fyrst til að taka framhaldspróf á það hljóðfæri.

Tónleikarnir á fimmtudagskvöldið eru síðari hluti framhaldsprófs Rebekku og jafnframt burtfarartónleikar hennar frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og mun hún útskrifast við skólaslit skólans þann 31. maí n.k.
Hafsteinn Guðmundsson, fagottleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands,  hefur verið fagottkennari Rebekku frá upphafi. Meðleikari hennar á píanó er Anna Málfríður Sigurðardóttir, píanóleikari.  Einnig koma fram með Rebekku, hljómsveitin Hjaltalín og Oddný Þórhallsdóttir, fagottleikari.

Efnisskrá tónleikanna er mjög fjölbreytt og glæsileg. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir og er rétt að hvetja Suðurnesjamenn og aðra áhugasama til að koma á tónleikana og hlýða á hinn unga tónlistarmann, Rebekku Bryndísi Björnsdóttur, fagottleikara.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024