Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Framhaldsprófstónleikar Alexander Grybos
Föstudagur 20. maí 2022 kl. 10:40

Framhaldsprófstónleikar Alexander Grybos

Alexander Fryderyk Grybos, gítarnemandi við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, heldur framhaldsprófstónleika sína í Bergi, Hljómahöll, mánudaginn 23. maí kl.19:30. Tónleikarnir eru síðari hluti framhaldsprófs samkvæmt námskrá tónlistarskóla.

Alexander hóf nám í klassískum gítarleik við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar árið 2011 hjá Aleksöndru Pitak og hún hefur verið aðalkennari hans síðan. Alexander hóf svo nám í rytmískri deild skólans árið 2017 á rafmagnsgítar, sem hann hefur stundað meðfram náminu á klassíska gítarinn og hafa aðalkennarar hans þar verið Aron Örn Óskarsson og Kristinn Þór Óskarsson. Eftir að Alexander lauk miðprófi í klassískum gítarleik árið 2018, hefur hann stefnt ótrauður að framhaldsprófinu.

Alexander hefur í gegn um árin verið mjög virkur í starfsemi Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og margsinnis komið fram á tónleikum skólans, sem og fyrir hönd hans á margvíslegum öðrum viðburðum, bæði einn með gítarinn og í gítarsamspilum skólans. Alexander heldur úti, ásamt félögum sínum, tveimur hljómsveitum í popp- og rokkgeiranum, Demo og Karma Brigade.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Alexander hefur um árabil verið félagi í Bjöllukór Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og komið víða fram á þeim vettvangi, m.a. á jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands nokkur undanfarin ár. Alexander fer í sumar í tónleikaferð til Bandaríkjanna með Bjöllukórnum.

Eins og fyrr segir hefjast tónleikarnir kl.19:30, aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.