Frambjóðendur taka „Sjálfu“
Framboðin eru í óða önn við að undirbúa sig fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar. Víkurfréttum barst mynd frá frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ þar sem þau stilla sér upp í anda „selfie“ -myndar Ellen DeGeneres frá Óskarverðlaunahátíðinni en myndin gerði allt vitlaust á Twitter fyrir stuttu.
Í texta sem fylgdi myndinni segir að myndin sé tekin á undirbúningsfundi frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins heima hjá Árna Sigfússyni bæjarstjóra. Ákveðið var að taka stutta pásu frá málefnavinnunni og leika eftir hina frægu ljósmynd.
Á myndinni setur Þórarinn Gunnarsson, formaður ungra sjálfstæðismanna, sig í hlutverk Ellenar og er umkringdur bæjarstjórnarmönnum og nýjum frambjóðendum.
Mynd Þórarins er á Instagram merkt #vikurfrettir. Við hvetjum Suðurnesjafólk, frambjóðendur og aðra, til að taka myndir og merkja #vikurfrettir á Instagram. Skemmtilegar myndir verða valdar til birtingar á vf.is og í Víkurfréttum.