Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Frægustu ballöður Chopin í Stapanum
Miðvikudagur 30. mars 2011 kl. 10:23

Frægustu ballöður Chopin í Stapanum

Sunnudaginn 3. apríl kl. 15.00 mun Ástríður Alda Sigurðardóttir, píanóleikari, flytja verk eftir pólska tónskáldið Fréderic Chopin. M.a. verða fluttar Ballöður nr. 1, nr.3 og nr.4 og Sónata Nr.2. Aðgangseyrir kr. 1.000, ókeypis fyrir nemendur Tónlistarskólans.

Á síðasta ári gaf Ástríður út sólóplötuna CHOPIN sem inniheldur fjórar ballöður tónskáldsins auk sónötunnar í b-moll en einnig hefur komið út geisladiskurinn ALDARBLIK með henni og söngvurunum Eyjólfi Eyjólfsyni og Ágústi Ólafssyni.

Ástríður Alda Sigurðardóttir hóf nám í píanóleik 6 ára gömul hjá móður sinni, Guðrúnu Guðmundsdóttur. Vorið 1999 lauk hún einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Önnu Þorgrímsdóttur. Á árunum 2000-2003 stundaði hún nám hjá Reiko Neriki við Indiana University - Jacobs School of Music í Bloomington þar sem hún lauk Artist Diploma með hæstu einkunn.

Ástríður hefur sótt fjöldann allan af námskeiðum, og tímum í píanóleik og kammertónlist hjá listamönnum á borð við Geörgy Sebök, Ludwig Hoffmann, Janos Starker, Jürgen Schröder og Olaf Dressler.

Ástríður hefur komið víða fram á tónleikum, ýmist sem einleikari eða með öðrum tónlistarmönnum. Þá hefur hún komið fram sem einleikari með Internationales Jugendsinfonie-orchester Elbe-Weser í Þýskalandi, með Sinfóníuhljómsveit Íslands og með Sinfóníuhljómsveit áhugamanna.
Ástríður er meðlimur í Elektra Ensemble sem var m.a. tónlistarhópur Reykjavíkurborgar 2009 og tangósveitinni Fimm í tangó sem flytur finnska og íslenska tangótónlist.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024