Frægir á Flughóteli - kokkurinn úr „eldhúsi helvítis“ borðaði á Vocal
Bretinn Gordon Ramsay, betur þekktur sem stjórnandi sjónvarpsþáttarins „Hell’s Kitchen“ eða „eldhús helvítis“ gisti nýlega á Flughóteli og borðaði á Vocal veitingastað hótelsins. „Hann var hér í Íslandsferð, gisti hér og borðaði, var hinn prúðasti og var ekki með neina „helvítis“ stæla,“ sagði Bergþóra Sigurjónsdóttir, hótelstjóri á Flughóteli í Keflavík í léttum dúr um hinn góða gest.
Kappinn hefur oft farið hamförum í þáttum sínum þar sem hann hreinlega „sker upp“ veitingahús um allan heim en hann hefur líka verið dómari í matreiðsluþáttum ýmis konar.
Í kjölfar Ramseys kemur annar þekktur matreiðslumeistari. Hann er þó íslenskur og heitir Friðrik V. Karlsson en kunnur sem Friðrik fimmti. Hann rak um tíma samnefndan veitingastað á Akureyri en kokkaði fyrir Eddu hótelin í sumar um allt land.
Friðrik mun verða gestakokkur á Vocal veitingastað Flughótels helgina 5. og 6. nóvember nk. Hann sagðist stefna að því að nota hráefni frá Suðurnesjum en eins og hann hafi oft gert, eldað með alþjóðlegum aðferðum. „Við munum setja upp mjög spennandi og fjölbreyttan matseðil þannig að fólk mun jafnvel fá valkvíða,“ sagði Friðrik sem er ekki bara þekktur fyrir skemmtilega eldamennsku heldur líka fyrir skemmtilega framkomu.
Svo er bara spurning hvort Ramsey úr eldhúsi helvítis komi til að taka út Friðrik fimmta?