Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Frægðarskrímslið handan við hornið
Miðvikudagur 13. júní 2012 kl. 13:47

Frægðarskrímslið handan við hornið

- hjá Of Monsters And Men



Þau Nanna Bryndís Hilmarsdóttir söngkona og Brynjar Leifsson gítarleikari hljómsveitarinnar Of Monsters And Men eru orðin þrælvön viðtölum og kipptu sér lítið upp við það þó útsendari Víkurfrétta hafi klófest þau í Flugstöð Leifs Eiríkssonar áður en þau héldu af stað vestur um haf á dögunum. Hljómsveitin hefur verið mikið á ferðinni að undanförnu en þau voru að ljúka kærkomnu fríi hér heima á Íslandi og á leið í aðra tónleikaferð. Vinsældir sveitarinnar eru sífellt að aukast og er sveitin oft talin á barmi hinnar margrómuðu heimsfrægðar.

„Það komu stundum heilu dagarnir sem fóru bara í að kynna sveitina og þá voru kannski tíu viðtöl yfir daginn,“ segir Brynjar. Nanna tekur undir það og segir að þegar um sjónvarpsviðtöl hafi verið að ræða þá hafi ræs verið klukkan fimm á morgnana. „Við lentum alveg í því þegar við vorum í New York að við komum af tónleikastað klukkan tvö um nótt og þurftum að vakna eftir þrjá tíma til þess að gera okkur klár fyrir sjónvarpið.“ Sveitin kom nýverið fram í spjallþætti grínistans Jimmy Fallon sem gerði garðinn frægan í Saturday Night Live þáttunum vinsælu.

VF: Eru semsagt engir frídagar til þess að skoða þessa staði sem þið eruð að heimsækja?

Brynjar: „Það kemur alveg einn og einn dagur en það er ekkert alltof mikið af frídögum.“

Nanna: „Við erum svo yfirleitt sofandi þegar við keyrum á milli borga þannig að við vöknum á einhverjum nýjum stað og förum beint á hótel og svo tónleikastaðinn.“

Eru þið eitthvað búin að átta ykkur á því hvað þið eruð í raun orðin vinsæl?

Brynjar: „Ég veit það hreinlega ekki. Þegar maður er úti þá er maður bara í rútunni og að spila á tónleikum og er einhvern veginn bara í þeim heimi.“

Nanna: „Það er oft soldið klikkað og brjálað að gera. Stundum er það frekar yfirþyrmandi. Svo kemur maður heim og þá finnst mér eins og maður núllstilli sig, nái alveg áttum aftur.“

Hvað gerðuð þið í fríinu hér heima?

Brynjar: „Ég fór upp í sumarbústað. Ég fór líka í ræktina til að ná af mér allri pítsunni.

Nanna: „Ég bara borðaði geðveikt mikið. Ég ætlaði alltaf í ræktina en svo fannst mér bara miklu betra að borða og horfa á sjónvarpið (hlær).

Er fólk að veita ykkur einhverja athygli úti á götu?


Nanna: Nei ekki get ég sagt það. Kannski bara þegar fólk er að drekka, þá fer fólk að koma til manns og tjá sig.

Brynjar: „Í Keflavík kemur fólk til manns sem þekkir kannski foreldra manns og óskar manni til hamningju með árangurinn, eitthvað í þá áttina.“

Nanna: „Það er oft þannig, fólk vill manni voðalega vel og óskar okkur góðs gengis.

Eru þið ekki að upplifa drauminn að mörgu leyti?

Nanna: „Jú. Ég held að við séum í mjög skemmtilegri aðstöðu og erum að gera það sem við viljum vera að gera. Þetta er sjálfsagt erfitt í einhvern tíma og maður þarf að hafa fyrir þessu.“

Brynjar: „Þetta verður kannski auðveldara síðar og öll þessi vinna skilar sér vonandi.

Nanna: „Maður lærir bara á þetta en við vitum auðvitað ekkert hvað við erum að gera núna. Við rennum frekar blint í sjóinn með þetta allt saman.“

Brynjar: „Þetta er oft svo mikið planað fyrir okkur, við mætum bara upp í flugstöð. Það er vel séð um okkur.“

Hvernig eru þessir tónleikastaðir sem þið hafið verið að leika á?

Brynjar: „Þeir eru mjög misjafnir.“

Nanna: „Já. Þegar við vorum t.d. að spila í House of blues í Boston þá voru 2500 manns í húsinu. Það var alveg svakalegt og maður fékk alveg fiðring í magann. Nokkrum dögum síðar vorum við að spila fyrir 200 manns. Bara svipað og að spila á Paddy´s.“

Brynjar: „Árni í hljómsveitinni orðaði þetta skemmtilega þegar hann sagði eftir fyrstu tónleikana að þetta hefði verið þannig tilfinning að við værum orðin fræg í Boston, svo kom það í ljós á næstu tónleikum að við vorum bara ekkert fræg í Boston (hlæja bæði).

Framundan er mikið af tónleikahátíðum hjá sveitinni og mikil ferðalög. Þau komu aftur heim núna þann 5. júní í frí en svo verða þau meira og minna að spila í júlí, ágúst og september.

Nanna: „Við spilum á Reading og erum núna á leið á Sasquatch og Lollapalooza. Svo munum við spila á Newport Folk Festival og Osheaga í Montreal, Lowlands Festival, Pukkelpop. Ég hef bara farið á Hróarskeldu og það var æðislega gaman. Við erum alltaf að spyrja umboðsmanninn okkar hvort við getum ekki spilað þar.“

Hvernig líst ykkur á Keflavík Music Festival í Reykjanesbæ?


Nanna: Það hljómar rosalega vel. Mér finnst alltaf gaman þegar það er svona gróska í gangi. Þegar svona litlar hugmyndir verða að einhverju svona dæmi. Það þarf oft bara hugmynd og svo að kýla á það.“

Brynjar: „Það hljómar bara virkilega vel.“

Hvernig var svo að vera í þætti Jimmy Fallon, væntanlega öðruvís en að vera á tónleikum?


Brynjar: „Já, það var rosalega spes. Þetta gerðist svo hratt. Við vorum búin að æfa í settinu hjá þeim en við komum þarna snemma um morguninn. Svo fengum við tveggja tíma pásu og komum seinnipartinn í förðun og lokaundirbúning. Svo þegar þetta er að gerast þá er stressið mikið, meira en á venjulegum tónleikum.

Nanna: „Þetta var tekið upp og svo spilað um kvöldið. Ég stillti verkjaraklukkuna og sá okkur spila í þættinum. Það var pínu skrítið að vera í Bandaríkjunum að horfa á okkur spila hjá Jimmy Fallon.“

Í lok júní kemur hljómsveitin fram í sjónvarpsþætti Jay Leno en hann hafa þau horft á síðan þau voru krakkar. Þau hlakka mikið til þess. „Þá kemur í ljós hvort hann sé til í alvörunni,“ segir Nanna og hlær.

Þegar þau komu fram í sjónvarpsþætti Fallon var leikkonan Cameron Diaz einn gestanna og langaði strákana í hljómsveitinni að hitta skvísuna. Brynjar: Ég, Ragnar og Arnar ætluðum að fá mynd af okkur með Cameron Diaz og fórum fyrir utan búningsherbergi hennar. Hún kom svo út og heilsaði okkur en það eina sem kom upp úr okkur var stuna úr Arnari. Þetta var ógeðslega vandræðalegt. Það var mjög fyndið að sjá einhvern sem maður hefur séð í ótal bíómyndum labba bara framhjá manni og heilsa.“

Nanna: Við hittum líka Mark Hoppus bassaleikara úr Blink 182. Ég var svakalegur aðdáandi þegar ég var yngri og fékk alveg stjörnur í augun. Strákarnir voru svo alltaf að segja við hann að ég elskaði hann, ég neitaði því nú þrátt fyrir að það sé að einhverju leyti satt,“ segir Nanna og hlær.

Hvert er framhaldið hjá ykkur?

Nanna: „Við verðum út árið og örugglega eitthvað fram á næsta ár að spila þetta efni. Við erum öll í sitthvoru horninu að semja eitthvað efni. Við förum sennilega ekki að æfa og taka upp efni fyrr en einhvern tíma eftir áramót. Kannski er það bara ágætt og við höfum úr fullt af hugmyndum að velja þegar við setjumst niður.“

Brynjar: „Plata númer tvö er alltaf mesta vesenið, er það ekki?“

Hvernig er það, eru þið ekkert þreytt á lögunum ykkar, t.d. Little talks sem þið hafið væntanlega spilað gríðarlega oft?

Brynjar: „Það er auðvitað alger klisja en maður finnur alltaf mismunandi strauma frá áhorfendum hverju sinni.“

Nanna: „Þegar við spilum það lag þá missir fólk alveg vitið og þá verður þvílíkt stuð og allir syngja með. Það er því alltaf frekar gaman að spila það lag.“

Þið náið alveg að halda ykkur á jörðinni?

Brynjar: Já ég held það sko (hlær). Við höfum lent nokkrum sinnum í því að fólk vilji fá mynd af sér með okkur utan tónleika. Það er óneitanlega skrýtið að einhver þekki mann í útlöndum.“

Nanna: „Við erum ekkert að lenda í því að fólk sé að elta okkur á götum úti.“

Hvað finnst ykkur um alla þessa umfjöllun um hljómsveitina hér heima?

Nanna: „Þetta er stundum fyndið hvað allir eru spenntir og hvað öllum finnst þetta gaman.“

Er einhver pressa á ykkur?

Nanna: „Já alveg pínu sko. Á síðustu tónleikaferð þegar platan okkar fór í 6. sæti Billboard listans þá var ég að tala við vini mína heima sem sögðu mér að við hefðum verið í fréttunum daglega í tvær vikur, það var soldið fyndið.“

Mynd Eyþór Sæm: Nanna Bryndís er fædd og uppalin í Garðinum og Brynjar er Keflvíkingur í húð og hár.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024