Fræðslufundir í Keflavíkurkirkju: Heilsa og forvarnir í kvöld
Keflavíkurkirkja stendur fyrir röð fræðslufunda undir heitinu Skref fyrir skref þar sem veittur er fróðleikur og stuðningur af ýmsum toga. Annar fundurinn af fjórum er í kvöld kl. 17:30 og verður fjallað um heilsu og forvarnir. Fulltrúar frá HSS mæta, mæla blóðþrýsting og veita ýmis konar hagnýta ráðgjöf. Á vef Keflavíkurkirkju er hægt að nálgast vefútgáfu af uppskriftabæklingi sem dreift verður á fundinum í kvöld.
Með þessum fræðslufundum er reynt að höfða til þeirra sem lítið hafa á milli handanna í því árferði sem nú ríkir. Til kirkjunnar leita margir sem standa höllum fæti félagslega og vantar ráðgjöf og stuðning og er fræðslunni ætlað að mæta þeirri þörf að einhverju leiti. Á síðasta fundi var fjallað um fjármál heimilana og sjálfseflingu. Hjördís Kristinsdóttir, umsjónarmaður hjá Keflavíkurkirkju, segir marga í þessum sporum vilja hugsa um heilsuna án þess að það kosti of mikið, sem verður m.a. umfjöllunarefni kvöldsins.
Þess má geta að Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum hefur aðstoðað við undirbúning fræðslunnar og fá þeir þátttakendur sem vilja starfs-og námsráðgjöf endurgjaldslaust.
Að sögn Hjördísar kemur Lára Ómarsdóttir, fjölmiðlakona, í heimsókn á næsta fund og talar af eigin reynslu um það hvernig hægt er að komast af með lítið á milli handanna. Í framhaldi verður umræða um það hvert fólk getur snúið sér og leitað ráða. Gestur síðasta fundarins verður María Ellingssen sem mun fjalla um viðjar vanans og hvernig hægt er að breyta þeim á jákvæðan hátt.