Fræðir landsmenn um veröldina og vísindi
Fannar Óli heldur úti vefsíðunni Veröldin.net
Keflvíkingingurinn Fannar Óli Ólafsson hefur undanfarið ár haldið úti vefsíðunni Veröldin.net. Vefsíðan er hugsuð sem upplýsingaveita um vísindafréttir samtímans. Fannar fékk hugmyndina að vefsíðunni þegar hann var erlendis í námi en hann fann að áhugi hans lá á sviði vísinda.
„Ætli þetta hafi ekki byrjað með Lifandi Vísindum þegar ég var strákur, en annars hef ég verið áhugamaður um vísindafréttir lengi. Ég fer svo að taka eftir því að það vantar netmiðil sem er að koma með daglegar fréttir af vísindum, en ekki bara tímarit sem kemur út einu sinni í mánuði. Ég fann að þegar ég var að segja frá svona fréttum þá hafa margir áhuga á þeim, samt er fólk ekkert mikið að leita af svona fréttum dagsdaglega á erlendum miðlum,“ segir Fannar sem var að læra upptökufræði þegar hugmyndinni skaut upp í kollinn á honum.
Sérfræðingur hjá Morgunútvarpinu
Viðtökur við síðunni hafa verið góðar og eru vinsældir hennar sífellt að aukast. Fannar er nemi í lífefnafræði en hann hyggst leggja vísindin fyrir sig og auka við starfsemi vefsíðunnar þegar tími gefst til í framtíðinni. Nú er hann í fullu námi og vinnur með, þannig að vefsíðan er rekin í hjáverkum. Fannar hefur að undanförnu stimplað sig inn sem sérfræðingur hjá Morgunútvarpinu á Rás 2 þar sem hann hefur verið reglulegur gestur þegar fræðast þarf um vísindatengd málefni.
„Þetta er oft frekar flókið fyrir hinn almenna borgara, myndi ég halda. Flestir skilja lítið þegar þeir lesa svona greinar á ensku og tungutakið sem fylgir vísindum. Ég reyni þannig að þýða þetta og útskýra á mannamáli,“ segir Fannar en hann notast talsvert við myndir og myndbönd til þess að gera efnið enn aðgengilegra. Í framtíðinni getur hann hugsað sér að fást við einhverja dagskrárgerð sem tengist vísindunum, hvort sem það væri í sjónvarpi eða á vefnum. „Mér finnst rosalega gaman að fylgjast með þessu vaxa og dafna. Ég taldi mig ekkert hafa mikinn áhuga á fjölmiðlum en eftir að hafa verið í þessu núna í ár þá hef ég mjög gaman af því að miðla upplýsingum til fólks.“
Vinsælustu fréttir síðunnar eru oft um tækni og geimvísindi en annars er fjallað um nánast allt milli himins og jarðar á Veröldinni. „Þetta er mjög mismunandi hvað kemst á flug hverju sinni. Markmiðið með þessu er að reyna að vekja áhuga allra á vísindum og hvað þau eru mögnuð. Mér finnst mjög skemmtilegt og krefjandi að læra eitthvað nýtt. Maður veit ekkert allt og því er gaman að fræðast um þessa hluti,“ segir hinn fróðleiksfúsi Fannar að lokum.