Fræða mótorhjólafólk um öryggismál hjólamanna
- ERNIR Bifhjólaklúbbur Suðurnesja heldur sinn árlega Reykjanesdag nk. laugardag
ERNIR Bifhjólaklúbbur Suðurnesja heldur sinn árlega Reykjanesdag nk. laugardag kl. 10 til 16 í félagsheimili klúbbsins, Arnarhreiðrinu, sem er staðsett við Þjóðbraut 772 á Ásbrú eða beint á móti þeim stað þar sem gamla flugstöðin stóð.
„Reykjanesdagur ARNA er haldinn árlega og snýst um að fræða mótorhjólafólk um öryggismál hjólamanna. Lögreglan mætir til okkar og sjúkraflutningsfólk sýnir viðbrögð við komu að slysi bifhjólamanns,“ segir Óskar Húnfjörð, formaður bifhjólaklúbbsins, í samtali við Víkurfréttir.
Farið verður yfir helstu þætti sem skipta máli varðandi öryggismál hjólamanna og svo verður reynt á ökuhæfni hjólamanna í hjólaþrautum. Björgunarsveitin Suðurnes fer yfir neyðarpakkann og fulltrúar Landsbjargar verða á staðnum. Neyðarpakkin verður til sölu. Farið verður yfir reglur um hópakstur bifhjóla og sýnd uppblásin öryggisvesti og þau prófuð.
Grillað í hádeginu og hópkeyrsla um Reykjanesið
„Dagurinn er haldinn í samvinnu við N1 og við hittumst á planinu við N1 í Ásbrú um hádegið og gæðum okkur á pylsum. Þá hjólum við Reykjanesið í hópkeyrslu bifhjóla og endum túrinn hjá Láka í Icebike,“ segir Óskar.
Unglingum eða skellinöðrugengjunum er boðið á viðburðinn til fróðleiks og skemmtunar.
„Klúbburinn hefur það að markmiði að auka öryggi hjólafólks og viljum við sýna gott fordæmi í þeim efnum. Unga fólkinu sem er á skellinöðrum eða hefur áhuga á mótorhjólum og verða vafalaust hjólamenn framtíðarinnar er sérstaklega boðið velkomið til okkar,“ sagði Óskar Húnfjörð að endingu.
Ernir Bifhjólaklúbbur Suðurnesja var stofnaður 27. apríl 2001 af 46 áhugamönnum um mótorhjól. Útgefin félagsnúmer eru í dag 424 talsins.