Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Þriðjudagur 10. september 2002 kl. 14:09

Frábært veður á glæsilegri helgi með einstökum bæjarbúum

Gestir Ljósanætur 2002 voru vel á þriðja tug þúsunda og hátíðin tókst mjög vel í einmuna veðurblíðu. Steinþór Jónsson, hótelstjóri í Keflavík og bæjarfulltrúi, hefur verið hugmyndasmiður Ljósanætur og formaður ljósanefndar bæjarins: “Þakklæti er fyrsta og síðasta orðið sem kemur upp í hugann eftir þessa Ljósanótt. Ég er bæði stoltur og þakklátur bæjarbúum sem í samstilltu átaki tóku þátt og gerðu eina glæsilegustu helgi fyrr og síðar hér suður með sjó að veruleika. Samkennd bæjarbúa var algjör og stendur það án efa uppúr þegar við horfum tilbaka á Ljósanótt 2002”.- Það er mikil vinna á bakvið Ljósanótt og þú virðist vera í beinu sambandi við veðurguðina?
“Við þökkum af sjálfsögðu bænheyrsluna um góða veðrið sem nú í þriðja sinn lék stórt hlutverk í hátíðinni okkar. Ljósanefndin stóð sig frábærlega og allir þeir sem á svo ólíkan hátt komu að undirbúningi Ljósanætur. Takk fyrir það. Stuðningsaðilar fá af sjálfsögðu sérstakt klapp á bakið því án þeirra væri þetta ekki mögulegt”.

- Tókst allt eins og þið ætluðuð ykkur?
“Við í Ljósanefndinni munum á næstu dögum setjast niður og skoða hvernig gekk og hvað hefði betur matt fara. Það er aldrei svo að eitthvað megi ekki laga þó að í heildina séum við himinlifandi með helgina”.

- Hvað stóð uppúr í þínum huga?
“Í mínum huga stendur koma Íslendings uppúr og frábær móttaka með stórglæsilegri flugeldasýningu, menningarviðburðirnir allir, bæjarstjórnarbandið og Gunnar Þórðarson í Stapa sem stóðu sig frábærlega svo ekki sé minnst á Gunnar Eyjólfsson leikara í leikritinu Gest. Þá vil ég einnig þakka bæjarblöðum fyrir þeirra þátt sem var bæði metnaðarfullur og faglegur. Að lokum vil ég ítreka þakkir til allra íbúa Reykjanesbæjar. Við getum öll farið að hlakka til 6. september 2003,” segir Steinþór Jónsson, formaður ljósanefndar Reykjanesbæjar í samtali við Víkurfréttir.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024