Frábærir tónleikar kórs og barnakórs Grindavíkurkirkju í Bústaðakirkju
Kór Grindavíkurkirkju hélt sína árlegu jólatónleika í gærkvöldi og þurfti aðstæðna vegna, að halda tónleikana á öðrum stað en í Grindavíkurkirkju. Bústaðakirkja varð fyrir valinu og var uppselt á tónleikana auk þess sem þeir voru sýndir í beinni útsendingu á ruv.is.
Tónleikarnir voru frábærlega heppnaðir en þema tónleikanna var jólaplata Mariah Carey, Merry Christmas. Söngkonan Arney Ingibjörg Sigurbjörnsdóttir fékk það hlutverk að fara í jólakjól Carey og má segja að hún hafi slegið í gegn! Sannarlega föðurbetrungur þarna á ferð þegar kemur að söng.
Þrjú önnur lög voru flutt á tónleikunum, annað þeirra, Little drummer boy söng kórstjórinn Kristján Hrannar Pálsson ásamt lánsmanni úr Óháða kórnum, Braga Árnasyni. Þriðja lagið var svo hið sígilda erlenda jólalag sem Laddi setti í íslenskan jólabúning, Snjókorn falla. Í því lagi fékk Kristján Hrannar, Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, til liðs við hljómsveitina og fékk forsetinn litla sleðabjöllu. Guðni sem er mikill húmoristi, sagði tónleikagestum að hann og karakterinn Magnús Magnús Magnússon, væru líklega skyldir, hann væri algerlega taktlaus! Forseti vor laug engu til um það.
Frábæra hljómsveit skipuðu ásamti Kristjáni Hrannari, Óskar Þormarsson á trommur, Daníel Helgason á bassa og Þórður Sigurðarson á píanó.
Kristján var alsæll með tónleikana. „Ég er varla búinn að ná mér niður eftir þessa frábærlegu heppnuðu tónleika, sem margt leit út fyrir að yrðu ekki haldnir vegna ástandsins í Grindavík. Það var í raun konan mín, Nína Richter, sem fékk hugmyndina af því að breyta tónleikunum í styrktartónleika fyrir fjölskyldur í Grindavík sem eru í vandræðum með að halda sín jól í ár vegna ástandsins. Við fórum á stúfana, sem betur fer fengum við inni í Bústaðakirkju því þar er æðislegt hammond-orgel og svo settum við bara hausinn undir okkur og æfðum í tollhúsinu þar sem þjónustumiðstöð fyrir Grindvíkinga er. Við þurftum að fá nokkra lánaða úr öðrum kórum því sumir meðlimir kirkjukórs Grindavíkurkirkju búa það langt í burtu. Allir voru boðnir og búnir og ég held að það hafi skilað sér á tónleikunum. Gleðin og samkenndin sveif yfir vötnum og ég held að þessir tónleikar hafi verið á pari við það besta sem gerist hér á landi. Þegar ég fékk hugmyndina af þessu Mariah Carey þema, var ég strax með Arneyju Ingibjörgu í huga en þar er á ferð frábær söngkona sem á pottþétt eftir að láta meira að sér kveða í framtíðinni. Ég hlakka mikið til næstu verkefna með kórunum mínum, hver sem þau verða,“ sagði Kristján Hrannar.
Hægt er að sjá tónleikana á vef Rúv, www.ruv.is og þeir sem vilja leggja málefninu lið, er bent á söfnunarreikning: 0133-15-006150, kt. 410272-1489.