Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Frábærir jólatónleikar
Laugardagur 20. desember 2008 kl. 16:47

Frábærir jólatónleikar

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gleðileg jól – einstakir jólatónleikar til styrktar fjölskyldum á Suðurnesjum, var yfirskrift jólatónleika sem fram fóru í Lava sal Bláa lónsins á fimmtudagskvöld.
Óhætt er að segja að tónleikarnir hafi verið einstakir og tekist afskaplega vel. Margt af okkar frábæra tónlistarfólki kom fram og flutti jólalög og lög sem tengdust Rúnari heitnum Júlíussyni. Garðar Ketill Vilhjálmsson, nýútskrifaður lögfræðingur og bæjarfulltrúi var kynnir á tónleikunum og vafðist ekki tunga um tönn. Eflaust hefur það hjálpað honum að hann var fyrir margt löngu síðan kynnir á Fegurðarsamkeppni Suðurnesja. Hann sló á létta strengi við tónlistarfólkið og sagði sögur af því.

Elísa Geirsdóttir Newman var fyrst á svið með undirleikara sínum og gaf tóninn með skemmtilegum flutningi. Það er langt síðan Elísa hefur komið fram á Suðurnesjum og hún söng ljúf lög, notaði m.a. fiðlu í flutningi sínum en einnig litlum rauðum gítar sem hún sagðist nýlega hafa eignast. Þóranna Jónbjörnsdóttir, skipuleggjandi tónleikanna var næst á svið og sóð sig einnig mjög vel. Hún reyndi fyrir sér í Bretlandi og lærði þar ýmislegt í söng, list og fleiru en hefur staðið sig best í fjölgun mannkynsins síðustu árin. Dóttir hennar, Ísold Saga, gerði sér lítið fyrir í lok stutts hlés og tók lagið á sviðinu við mikla hrifningu gesta. Hún á ekki langt að sækja sviðsfjör því fyrir utan móður hennar þá er afi hennar, Jón Björn Sigtryggsson, tannlæknir, sviðssækinn mjög. Kynnir kvöldsins hafði í huga að koma honum að en tókst það ekki!
Eitt óvæntasta atriði kvöldsins var flutningur systkinanna úr Sandgerði sem skipa sveitina Klassart. Án efa höfðu fæstir gesta séð til þeirra á sviði en ekki er langt síðan Sandgerðissveitin kom fram á sjónarsviðið. En þau voru frábær þó þau væru minnsta númerið hvað frægð varðar.
Jóhann Helgason, einn af frægustu sonum Suðurnesja í tónlistinni flutti falleg lög á sinn einstæða hátt og sama gerði Védís Hervör Árnsdóttir sem kynnirinn kynnti sem eina þekktustu fósturdóttur Reykjanesbæjar. Hún var reyndar ekkert upprifin af þeirri kynningunni en lét það ekki á sig fá og söng frábær lög. Sagði m.a. að það hefði verið sérstök en skemmtileg reynsla að sitja með Rúnari Júlíussyni og fjölskyldu hlusta saman á síðustu plötu hennar, rétt áður en hún kom út en platan var tekin upp í Geimsteini.

Kjartanssynir, ekki ófrægir í tónlist voru næstir á svið. Kjartan Már, Finnbogi og Magnús sem jafnan hefur orð fyrir þá. Þeir fluttu frábær lög og Magnús fór á kostum í kynningu og söguflutningi á milli þeirra. „Við fengum bara tvö lög í stað þriggja því Maggi þarf að tala svo mikið,“ sagði Kjartan. En fólki leiðist ekki að hlægja. Magnús er ekki í vandræðum með það.
Í lokin komu Karlakór Keflavíkur og Kvennakór Suðurnesja, bæði sér og síðan saman. Og í síðasta laginu saman og með gestum kvöldsins sem voru um tvöhundruð.

Kjartan Már, Finnbogi og Magnús Kjartanssynir voru flottir á sviðinu.

Ísold Saga, dóttir Þórönnu Jónbjörnsdóttur tók lagið. Garðar K. Vilhjálmsson, kynnir á tónleikunum fylgist með henni.

Elísa Geirsdóttir Newman var með skemmtilegt kombakk. Sjáið litla flotta gítarinn hennar.

Þóranna Jónbjörnsdóttir, skipuleggjandi tónleikanna tók líka lagið.

Systkinin í Klassart úr Sandgerði komu skemmtilega á óvart.

Védís Hervör Árnadóttir söng ljúf lög.